Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna

Alþýðusambandi Íslands hefur áður gefið umsögn um mál þetta þá er það hefur verið flutt á fyrri þingum.

ASÍ ítrekar, að hlutverk stéttarfélaga, hvort heldur í hlut eiga félög opinberra starfsmanna eða stéttarfélög á almennum vinnumarkaði, er hagsmunagæsla gagnvart samtökum atvinnurekenda og stjórnvöldum fyrir allt launafólk í landinu, óháð fullri aðild hvers og eins. Þannig eru þau kjör sem samið er um í kjarasamningum lágmarkskjör sem óheimilt er að semja sig frá nema þeir samningar feli í sér betri kjör. Eðlilegt er og rétt að allt launafólk standi sameiginlega undir þeim kostnaði sem sameiginlegri hagsmunagæslu fylgir. Samkvæmt íslenskum dómum felst ekki í þessari skyldu brot á stjórnarskrá eða sáttmálum um mannréttindi sbr. m.a. dóm Félagsdóms í málinu nr. 4/1998.

Vegna þeirrar fullyrðingar í greinargerð frumvarpsins að þeir einstaklingar sem iðgjöldum er skilað af en sem ekki sækja um fulla félagsaðild njóti ekki réttinda t.d. í orlofssjóði skal tekið fram, að þetta er rangt a.m.k. hvað samningssvið ASÍ varðar. Iðgjöld til orlofs-, sjúkra- og menntasjóða eru greidd af atvinnurekendum af öllum greiddum launum. Gegn því iðgjaldi njóta allir sem greitt er af fullra réttinda. Það sama á við um réttarvernd og aðstoð stéttarfélaganna. Í gegnum þessa sjóði eins og t.d. sjúkrasjóð, rekur verkalýðshreyfingin mjög stóran hluta af lágmarks veikindarétti alls launafólks á almennum vinnumarkaði.

Í greinargerðinni er það einnig sérstaklega gagnrýnt að BHM hafi gagnrýnt það verklag að til stæði að breyta lögum þessum án samráðs við samtök opinberra starfsmanna. Í þessu efni ber að hafa í huga, að vinnulöggjöfin er sett til þess að forða ef hægt er en ella að stýra átökum á vinnumarkaði. Í vinnulöggjöfinni felst mikilvæg sátt milli samtaka launafólks, atvinnurekenda og stjórnvalda um meðferð valds á vinnumarkaði. Þessi sátt hefur tryggt frið, félagslegar- og efnahagslegar framfarir og stöðugleika hér á landi um langt árabil. Mikilvægt er að þessari sátt sé ekki raskað án samráðs og einhliða af einum þeirra þriggja aðila sem að henni standa, jafnvel þó hann hafi vald til þess.

Að öðru leyti en hér greinir er vísað til fyrri umsagna um sama þingmál.

F.h. Alþýðusambands Íslands,

_____________________
Magnús M. Norðdahl hrl., 
lögfræðingur ASÍ