Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum

Alþýðusamband Íslands hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, 793. mál.

Tilgangur frumvarpsins er að heimila fyrirtækjum skattalega frestun tekjufærslu gengishagnaðar umfram gengistap vegna rekstrarársins 2005.

Rökin fyrir frumvarpinu eru þau að sá aukni sveigjanleiki í fyrningafresti varanlegra rekstrarfjármuna og auknu heimildir til yfirfærslu á eftirstöðvum rekstrartapa vegna fyrra ára, sem tekin voru upp samhliða afnámi verðbólguleiðréttinga í skattskilum og reiknisskilum árið 2001 dugi ekki við núverandi ójafnvægi í efnahagslífinu.

Alþýðusamband Íslands vill taka eftirfarandi fram um frumvarpið:

1.Frumvarpinu er ætlað að taka á gengishagnaði fyrirtækja umfram gengistap á rekstrarárinu 2005, rekstrarári sem þegar er liðið. Frumvarpinu er því ætlað að breyta skattareglum með afturvirkum hætti. Afturvirkar breytingar á skattalögum verða að teljast afar óheppilegar og gera verður þá kröfu að færð séu sterk rök fyrir slíkum breytingum, jafnvel þó að breytingin sé ívilnandi eins og í þessu tilfelli. Almenn skírskotun í miklar gengissveiflur getur ekki talist fullnægjandi röksemdafærsla.

2.Óstöðugleiki í efnahagslífinu hittir fleiri illa fyrir en skuldsett útflutningsfyrirtæki. Launafólk fer einnig illa út úr gengissveiflum og öðrum myndum óstöðugleika. Heimilin í landinu skulda yfir 1.000 milljarða. Stærsti hluti þeirra lána er verðtryggður en gengisbundin lán heimilanna hafa aukist að undanförnu. Sveiflur á gengi krónunnar og mikil verðbólga koma sér því afar illa fyrir heimilin í landinu. Ekkert í frumvarpinu kemur til móts við launafólk.

Frumvarpið er ætlað að hjálpa skuldsettum útflutningsfyrirtækjum til að lifa með óstöðugleika. ASÍ er ekki sammála þeirri sýn sem í því felst. Allt frá því þjóðarsáttarsamningarnir voru undirritaðir árið 1990 hefur stöðugleiki verið megináhersla verkalýðshreyfingarinnar. ASÍ gerir þá kröfu til stjórnvalda að þau stuðli að stöðugleika í stað þess að aðstoða fyrirtæki við að lifa með óstöðugleika.

Alþýðusamband Íslands er því ósammála þeim smáskammtalækningum sem felast í frumvarpinu og mælir gegn því að það verði samþykkt.

 

 

 

 

 

F.h. Alþýðusambands Íslands

 Ólafur Darri Andrason

hagfræðingur ASÍ