Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 121/1994, um neytendalán

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 121/1994, um neytendalán (537 mál ).

Alþýðusamband Íslands styður mjög eindregið þær breytingar sem lagðar eru til. Þó eru gerðar tvær athugasemdir.

Í fyrsta lagi telur ASÍ, að lögin ættu að geyma ákvæði sem banni töku uppgreiðslugjalds í öllum þeim tilvikum þegar lántakandi hyggst selja fasteign með áhvílandi veðskuldum en lánveitandi heimilar annars vegar ekki skuldaraskipti (þvinguð uppgreiðsla) og hins vegar ef nýr kaupandi veðsettrar fasteignar hyggst endurfjármagna íbúðarkaup sín með uppgreiðslu áhvílandi lána.

Í öðru lagi er það mat ASÍ, að óheimilt eigi einnig að vera að krefjast uppgreiðslugjalds af lánum með föstum vöxtum. Eins og fram kemur í 4.mgr. 3.gr. frumvarpsins er tilgangur uppgreiðslugjaldsins sá að verja lánveitanda tjóni og ráðherra ætlað með reglugerð að setja nánari reglur um útreikning þess. Sambærileg ákvæði sem tryggja jafnræði aðila þegar lánveitandi hagnast af uppgreiðslu er ekki að finna í frumvarpinu. Þegar lán eru veitt með föstum vöxtum taka báðir aðilar áhættu og eðlilegt að öðrum þeirra sé ekki tryggð betri réttarstaða en hinum.

 

 

F.h. Alþýðusambands Íslands,

 

 

 

_____________________

Magnús M. Norðdahl hrl.,

lögfræðingur ASÍ.