Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða

Alþýðusambandi Íslands hefur borist til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, 272. mál.

Í frumvarpinu er lagt til að það teljist veiðar í atvinnuskyni, en ekki tómstundaveiðar, þegar eigandi eða útgerð báts tekur gjald af þeim sem nýta bátinn til veiða. Um veiðar og afla báta sem nýttir eru með þessum hætti fer þá samkvæmt gildandi reglum um veiðar í atvinnuskyni. Þó er gert ráð fyrir að ráðherra geti með reglugerð sett sérstakar reglur, m.a. hvað varðar skyldur skipstjóra, tilkynningar og skýrsluskil.

Alþýðusamband Íslands gerir ekki athugasemd við það sjónarmið að þeir sem nýta fiskveiðiauðlindina í atvinnuskini þurfi að hafa leyfi til veiða og nægar aflaheimildir. Sambandið leggur samt áherslu á að fyrir hendi verði nægur sveigjanleiki í viðkomandi stjórnunarkerfi þannig að lagabreytingin verði ekki um of íþyngjandi fyrir vaxandi atvinnugreinar eins og t.d. ferðamannaiðnað á landsbyggðinni.