Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með síðari breytingum (vörukaup, þjónusta o.fl.)

Reykjavík 6. desember 2013
Tilvísun: 201311-0050

 


Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með síðari breytingum (vörukaup, þjónusta o.fl.), 176. mál.

ASÍ fagnar því að ofangreint frumvarp er komið í umsagnarferli, þar sem mikilvægar breytingar eru gerðar á lögum 10/2008 varðandi orðalag og skilgreiningar á nokkrum grunnhugtökum laganna. Nauðsynlegt er að skilgreiningar sem notaðar eru séu í samræmi við tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins og tryggi þá réttarvernd sem tilskipanirnar innibera.

Varðandi 19. grein laganna þar sem ráðherra er heimilt að setja reglugerð m.a. um innleiðingu staðals um launajafnrétti, svo sem varðandi hæfniskröfur til vottunarstofa og framkvæmd jafnlaunavottunar.

Staðall um launajafnrétti sem unnin var í samvinnu við ASÍ, SA og félags- og tryggingamálaráðherra var gefinn út í desember 2012. Afrakstur fjögurra ára vinnu samstarfsaðila. Þó svo að það sé valfrjálst fyrirtækjum og stofnunum að innleiða staðalinn er mikilvægt að setja reglur um innleiðingu staðalsins, um hæfniskröfur vottunarstofa sem og framkvæmd jafnlaunavottunarinnar til þess að tryggja vönduð vinnubrögð. Því fagnar ASÍ reglugerðinni.

Grein 2. a. sem fjallar um bann við mismunun í tengslum við vörukaup og þjónustu telur ASÍ mikilvæga þar sem það með er verið að innleiða í íslenskan rétt tilskipun Evrópuráðsins og sameiginlegu EES-nefndarinnar. Tilskipun ráðsins er 2004/113/EB og ákvörðun EES nefndarinnar er nr. 147/2009.
Lög nr. 10/2008 leggja sérstaka áherslur á jafnrétti á vinnumarkaði en með innleiðing ofangreindra tilskipunar og ákvörðunar er verið að stuðla að jafnrétti kynjanna ekki eingöngu á vinnumarkaði heldur á öðrum sviðum samfélagsins.

 

F.h. Alþýðusambands Íslands,
Maríanna Traustadóttir,
jafnréttisfulltrúi ASÍ