Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum nr. 90/1996, með síðari breytingum

07. febrúar 2014
Reykjavík: 07.02.2014
Tilvísun: 201401-0026 
 
 
Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum nr. 90/1996, með síðari breytingum (fækkun lögregluumdæma, aðskilnaður embætta lögreglustjóra og sýslumanna, hæfiskröfur), 251. mál.
 
Alþýðusamband Íslands veitti umsögn um frumvarpið er það var lagt fram sem 739. mál á 140. löggjafarþingi annars vegar og sem 173. mál á 141. löggjafarþingi. Nefndar umsagnir miða að því að lýsa stuðningi við baráttu Landssambands lögreglumanna við að öðlast verkfallsrétt, en ekki er að sjá þess merki að frumvarp þetta taki af skarið þar um. Í nefndum áður innsendum umsögnum ASÍ segir m.a.
 
„Verkfallsréttur launafólks er er hluti af grundvallarréttindum í öllum lýðræðisríkjum sem stjórnvöldum ber að viðurkenna og vernda. Lögreglumenn gegna mjög sérstökum og mikilvægum störfum til varnar borgurunum og stofnunum samfélagsins. Eðlilega getur verkfallsréttur þeirra takmarkast í framkvæmd, líkt og við getur átt um aðrar stéttir sem gegna lykilhlutverki hvað varðar öryggi og velferð borgaranna. Þær takmarkanir geta hins vegar ekki leitt til þess að verkfallsréttur allra lögreglumanna í öllum störfum sem undir kjarasamninga þeirra falla takmarkist fyrirfram, nema og þá því aðeins að sérstaklega sé um slíkt samið fyrirfram og með afturkallanlegum hætti. 
 
Landssamband lögreglumanna hefur lagt áherslu á að lögreglumenn endurheimti verkfallsrétt sinn. Þá kröfu styður Alþýðusamband Íslands heilshugar.“ 
 
 
Virðingarfyllst, 
Halldór Oddsson hdl.  
Lögfræðingur hjá ASÍ