Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á lagaákvæðum er varða tollkvóta við innflutning landbúnaðarafurða

ASÍ hefði kosið að sjá mun ákveðnari skref stigin í tollamálum heldur en boðuð eru í frumvarpinu – það er í raun nauðsynlegt ef markmið ríkisstjórnarinnar með tillögum um aðgerðir til lækkunar matvælaverðs eiga að nást.

Veigamestu aðgerðirnar í tillögum ríkisstjórnarinnar frá 9. október fela í sér niðurfellingu vörugjalda, lækkun virðisaukaskatts og lækkun tolla á innfluttum kjötvörum. Markmið ríkisstjórnarinnar var að ná matvælaverði niður um 16% þannig að það yrði sambærilegt við meðalverðlag á Norðurlöndunum. Samkvæmt mati Hagstofu Íslands frá 19. janúar sl. er hins vegar ljóst að áhrifin af niðurfellingu vörugjalda og lækkun virðisaukaskatts gefur aðeins tilefni til um 8,7% lækkunar matvælaverðs. Það blasir því við að ef markmið ríkisstjórnarinnar um lækkun matvælaverðs á að nást mun mikið velta á útfærslunni á boðuðum tollabreytingum.

Alþýðusambandið telur mjög ólíklegt að stækkun tollkvóta, eins og boðuð eru í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar, geti leitt til lækkunar matvælaverðs. Stækkun tollkvóta gæti hugsanlega haft einhver jákvæð áhrif á matvörumarkaðinn með því að opna aðgang að markaðnum fyrir fleiri aðila en innlenda framleiðendur. Hins vegar er vandkvæðum bundið að finna hentugt fyrirkomulag við úthlutun kvótans sem skilar lækkuðum tollum sem lægra vöruverði til neytenda.

Ef sú ákvörðun verður tekin að stækka tollkvóta þá telur Alþýðusambandið það frumskilyrði fyrir því að aðgerðin skili ávinningi fyrir neytendur að tekið verði fyrir heimildir til uppboða á tollkvótum og í staðinn verði þeim úthlutað endurgjaldslaust en þó þannig að óheimilt verði að framselja þá. Þá er mikilvægt að tollkvótum sem ekki eru nýttir verði undantekningarlaust endurúthlutað. Þá leggst Alþýðusambandið gegn því að heimildir til úthlutunar á tollkvótum liggi hjá landbúnaðarráðherra. Mun eðlilegra er að þetta vald sé hjá fjármálaráðherra.

F. h. Alþýðusambands Íslands,

______________

Stefán Úlfarsson
Hagdeild ASÍ