Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum

Reykjavík 30. apríl 2019
Tilvísun: 201904-0026

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994, með síðari breytingum, 795. mál

Alþýðusambandi Íslands hefur borist til umsagna tillaga að frumvarpi til laga um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994, með síðari breytingum, 795. mál.
Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu hefur ítrekað verið bent á af ákvæði núverandi 50. gr. húsaleigulaga leiði að réttarstaða leigjanda sem leigir íbúðarhúsnæði af vinnuveitanda sínum sé mun lakari en réttarstaða annarra leigjenda íbúðarhúsnæðis þegar kemur að lokum leigusamnings, þ.e. að leigusamningur falli niður án sérstakrar uppsagnar og uppsagnarfrests við lok ráðningarsambands ólíkt því sem almennt gildir við lok leigusamnings. Telja verður afar íþyngjandi fyrir leigjanda að eiga á hættu að missa bæði atvinnu sína og húsnæði samtímis og fá þar að auki ekki ráðrúm til að afla sér annars húsnæðis áður en honum er gert að rýma hið leigða íbúðarhúsnæði.

Í þessu sambandi er rétt að benda á að Alþýðusambandið og aðildarfélög þess hafa ítrekað fengið ábendingar og kvartanir einkum frá erlendu launafólki, þar sem því hefur verið hótað af hálfu atvinnurekenda að það verði hrakið úr starfi og missi þar með húsnæðið sem þar býr í ef það uni ekki þeim kjörum og vinnuaðstæðum sem því er boðið uppá og reyni að sækja sinn rétt. Kjörum og vinnuaðstæðum sem hvorki uppfylla kjarasamninga eða lög.

Við framangreindar aðstæður verður ekki unað og hefur Alþýðusambandið ítrekað komið þeim sjónarmiðum á framfæri við stjórnvöld. Frumvarpið sem hér er til umfjöllunar er til þess fallið að mæta framangreindum sjónarmiðum og lá til grundvallar þeim kjarasamningum sem undirritaðir voru þann 3 apríl s.l. en með þeim fylgdi sérstök bókun um leigu húsnæðis í tengslum við ráðningarsamninga.
Alþýðusamband Íslands styður því eindregið efni frumvarpsins og leggur jafnframt áherslu á að það verði afgreidd á yfirstandandi þingi líkt og forsendur kjarasamninga gera ráð fyrir.
Þá óskar Alþýðusambandið eftir að eftirfarandi málsgrein verði bætt við þá breytingu sem lögð er til á 50. gr.:
„Tímabundinn leigusamningur getur aldrei verið til styttri tíma en ráðningarsamningur. Þá skal leigusamningur vera ótímabundinn ef ráðningarsamningur er ótímabundinn.“
Með slíkri viðbót er reynt að girða enn frekar fyrir að atvinnurekandi sem jafnframt er leigusali geti komið sér undan þeim skyldum sem hann ber skv. frumvarpinu.

Virðingarfyllst,
Halldór Grönvold,
aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ