Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum og skaðabótalögum

Efnislega eru þær breytingar sem lagðar eru til á almennum hegningarlögum til bóta og í samræmi við þróun réttarreglna á því sviði sem um er fjallað. Vakin er hins vegar athygli á því, að með breytingunum eru kynnt til sögunnar tvö ný hugtök sem valdið geta verulegri óvissu í réttarframkvæmd. Annars vegar hugtakið “óþarfa sársauki” og hins vegar hugtakið “óþarfa vanvirða”. Orðið “óþarfi” er hvergi notað í hegningarlögum til þess að lýsa broti eða afleiðingum brota og mun gefa tilefni til óvissu um refsinæmi.

Þær breytingar sem lagðar eru til á skaðabótalögum eru mjög framandi íslenskum skaðabótarétti og íslenskri lagahefð. Með þeim er lagt til að horft sé framhjá sannanlegu eða sennilegu tjóni tjónþola og þess í stað horft til efnahags tjónvalds. Um er að ræða tillögur um grundvallarbreytingu á íslenskum skaðabótarétti og tilefnið er æruvernd. Æra manna hefur að íslenskum rétti ætíð verið varin af samspili ómerkingar ummæla og birtingu þeirra, sekta og hæfilegra bóta. Engar rannsóknir benda til þess að þessi vernd sé ófullkomin og engin brýn réttarvörslusjónarmið sem mæla með henni.

Hins vegar má benda á svið skaðabótaréttar þar sem reglur af þessum toga gætu þjónað raunverulegum tilgangi. Það gæti t.d. átt við um líkamstjón launamanna í vinnuslysum þar sem framkvæmdaraðili vanrækir af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi vinnuverndarskyldur sínar í því skyni að spara sér kostnað. Skv. bandarískum rétti væri litið til ávinnings fyrirtækisins, efnahags þess, forvarnargildi bótafjárhæðar o.fl. þegar bætur væru ákveðnar. En skv. íslenskum rétti er einungis litið til sannanlegs eða sennilegs fjárhagslegs tjóns og miskabætur metnar mjög lágt. Að auki er lífeyrissparnaður launamanns notaður til frádráttar því tjóni sem atvinnurekandi veldur með þessum hætti.

Sjónarmið ASÍ er, að horfa þurfi til skaðabótaréttarins í heild og ef ætlunin er að gera breytingar á honum. Þá verði fyrst og fremst horft til þeirra sviða hans þar sem raunverulega er þörf úrbóta en það er ekki síst á sviði líkamstjóna í vinnuslysum þar sem bætur eru lágar og eigið sakarmat ofmetið sbr. m.a. grein Viðars Más Viðarssonar “Meðábyrgð tjónþola í skaðabótamálum vegna Vinnuslysa”, Bifröst 2006.

F.h. Alþýðusambands Íslands,

 Magnús M. Norðdahl hrl.,

lögfræðingur ASÍ