Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lagaákvæðum um markaðar tekjur

Reykjavík 11. mars 2018
Tilvísun: 201802-0037


Efni: Frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lagaákvæðum um markaðar tekjur, 167. mál

Í frumvarpinu er lagðar til breytingar á ýmsum lögum sem fella burt ákvæði um markaðar skatttekjur ríkissjóðs. Í stað mörkunar munu slíkir tekjustofnar renna í ríkissjóð og framlög veitt til umræddra málaflokka samkvæmt ákvörðun Alþingis hverju sinni.

Afstaða ASÍ varðandi umrætt mál lýtur einkum að þeim tillögum sem varða breytingar á lögum um tryggingargjald og breytingum tengdum vinnumarkaðstengdum sjóðum ss. ábyrgðasjóði launa, starfsendurhæfingarsjóðum og framlagi til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða. Þessum þáttum er öllum ætlað að standa undir tilteknum skilgreindum réttindum launafólks sem jafnan eru tilkomin með þríhliða samkomulagi aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Nauðsynlegt er að gera skýran greinarmun á eðli og tilurð þeirra og annarra markaðra tekjustofna sem renna til reksturs tiltekinna stofnanna eða fjármögnun afmarkaðra verkefna.

Hér á landi hafa aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld útfært mikilvæg réttindi launafólks með uppbyggingu á sjóðum, oft í tengslum við gerð kjarasamninga, sem fjármagnaðir eru með m.a. í gegnum tryggingargjöld atvinnurekenda sem eru ígildi iðgjalds til sjóðanna til að standa undir tilteknum réttindum. Hér er um að ræða rétt til atvinnuleysisbóta, fæðingarorlofs, greiðslna úr Ábyrgðasjóði launa vegna vangoldinna launa við gjaldþrot atvinnurekenda, réttindi til starfsendurhæfingar hjá starfsendurhæfingarsjóði og framlag til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða. Fyrirkomulag þetta hefur tryggt tengsl milli þróunar réttinda og ábyrgðar á fjármögnun þeirra. Þessi iðgjöld sem innheimt eru gegnum tryggingargjaldið eru þannig óaðskiljanlegur hluti af kjarasamningsbundnum kjörum launafólks sem jafnan hefur gefið eftir svigrúm til launahækkana til þess að fjármagna þau. Allar þær breytingar sem gerðar eru á álagningu og ráðstöfun þeirra má því líta á breytingar á þeim og inngrip inn í gerða kjarasamninga. Réttara er því að líta á tryggingargjaldið sem iðgjald sem stendur undir ákveðnum réttindum í stað „markaðs tekjustofns“.
Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir breytingum á ákvæðum er varaða Atvinnuleysistryggingasjóð og Fæðingarorlofssjóð en lagðar til breytingar varðandi Ábyrgðasjóð launa sem og framlög til starfsendurhæfingar og jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða.

Alþýðusambandið hefur í samtala við stjórnvöld undanfarið lagt ríka áherslu á mikilvægi þess að sjóðir vinnumarkaðarins sem standa undir grundvallar réttindum launafólks verði gerðir sjálfstæðir með þeim hætti að þeim veri gert kleift að gera áætlanir til framtíðar og safna varasjóði þegar vel árar. Núverandi fyrirkomulag þar sem sjóðirnir eru hluti af A-hluta ríkissjóðs leiðir til þess að þegar staða þeirra er góð líkt og nú er, skilar jákvæð afkoma sjóðanna sér sem jákvæð afkoma í ríkissjóð. Þessu er svo öfugt farið í efnahagssamdrætti þegar staða ríkissjóðs versnar og ríkið þarf að endurgreiða skuld sína við sjóðina. Í hagstjórnarlegu tilliti er þetta óskynsamlegt og leiðir til verulegs þrýstings á að draga úr réttindum launafólks í sjóðunum. ASÍ leggur því þunga áherslu á að breytingar á tilhögun tryggingargjalds og fjármögnun þeirra réttinda sem að baki standa verði rædd í þessu samhengi og setur því fyrirvara við þær breytingartillögur sem gerðar eru í XLI kafla frumvarpsins varðandi Ábyrgðasjóð launa.

Í 45., 47. og 48. greinum frumvarpsins er gert ráð fyrir að fella brott ákvæði þess efnis að starfsendurhæfingarsjóðir fái í sinn hlut 0,13% af gjaldstofni tryggingargjalds og þess í stað verði árleg fjárveiting til þeirra ákvörðuð á grundvelli fjárheimilda í fjárlögum. Alþýðusambandið mótmælir þessari breytingu sem mun auka verulega óvissu um framtíðar fjármögnun atvinnutengdrar starfsendurhæfingar og gengur gegn því samkomulagi sem gert var milli fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra og Virk starfsendurhæfingarsjóðs í mars 2015 um framlög til starfsendurhæfingarsjóða og þeim þjónustusamningi sem gerður var milli Virk og velferðarráðuneytis um þjónustu við einstaklinga utan vinnumarkaðar í september 2017. ASÍ leggur áherslu á að ef gera á breytingar á grundvelli fjárveitingar til starfsendurhæfingar þurfi slíkar breytingar að eiga sér stað með samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins sem tryggi fyrirsjáanleika í réttindum og rekstrargrundvelli starfsendurhæfingarsjóða til framtíðar.

Í 46. gr. frumvarpsins er lagt til að fella brott tengingu á árlegu framlagi til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða við tiltekið hlutfalla af gjaldstofni tryggingargjalds, 0,325%, og ákvarða árlegt framlaga á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum hverju sinni. Um þennan þátt var samið með þríhliða samkomulagi milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda í tengslum við gerð kjarasamninga í nóvember 2005. Með því skuldbatt ríkið sig til að leggja fram framlag sem svaraði hluta af tryggingargjaldsstofni til að jafna örorkubyrði sem leggst með afar ólíkum hætti á lífeyrissjóði landsmanna eftir samsetningu sjóðfélaga og hefur því mjög misjöfn áhrif á getu sjóðanna til að standa undir ellilífeyrisréttindum sjóðfélaga. Sú breyting sem hér er lögð til mun auka verulega óvissu um jöfnunarframlagið sem í dag dugar þó engan veginn til að jafna að fullu þann mun sem er á örorkubyrði sjóðanna og lýsir ASÍ sig alfarið mótfallið breytingunni.

Þá vill ASÍ árétta það álit sitt að ef rjúfa á bein tengsl milli þess gjalds sem innheimt er til Framkvæmdasjóðs aldraðra í formi nefskatts og fjárveitinga til Framkvæmdasjóðs er rétt að fella þá skattheimtu niður og fjármagna framkvæmdir í öldrunarþjónustu með almennri skattheimtu.


Virðingarfyllst,
Henný Hinz
hagfræðingur ASÍ