Stefna ASÍ

  • Forsíða
  • Stefna ASÍ
  • Umsagnir um þingmál
  • Frumvarp til laga um breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um tekjuskatt og lögum um atvinnuleysistryggingar

Frumvarp til laga um breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um tekjuskatt og lögum um atvinnuleysistryggingar

Reykjavík, 27. febrúar 2009

Tilvísun: 200902-0037

 

Alþýðusamband Íslands hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, 321. mál.

Alþýðusambandið ályktaði á ársfundi sínum í október sl. að nauðsynlegt væri að kanna hvort heimila ætti einstaklingum að nýta viðbótarlífeyrissparnað sinn til þess að greiða niður höfuðstól húsnæðisskulda ef þeir stæðu frammi fyrir húsnæðismissi.

ASÍ leggur áherslu á að verði slíkt heimilað er nauðsynlegt að tryggt sé að útgreiðsla séreignarsparnaðar:

·Leiði til þess að skuldari ráði við framtíðar skuldbindingar sínar og komi þannig í veg fyrir að heimili fari í þrot. Slíkt gæti t.a.m. tryggt að skuldari gæti staðið undir mánaðarlegum greiðslum af skuldum sínum þrátt fyrir tímabundinn samdrátt í tekjum eða verið liður í greiðsluaðlögunarferli hjá heimilum í miklum greiðsluvanda.

·Verði ekki til þess að aðrir eigendur viðbótarlífeyrissparnaðar í sama sjóði verði fyrir tjóni vegna þessa.

Verði frumvarp þetta að lögum er nauðsynlegt að huga sérstaklega að því að:

1.Tryggja eins og kostur er að útgreiðsla viðbótarlífeyrissparnaðar verði til þess að skuldari ráði í kjölfarið við skuldbindingar sínar. Hætta er á að skuldarar sem komnir eru í vanskil verði beittir þrýstingi að hálfu lánveitanda að nota séreignarsparnaðinn til niðurgreiðslu á skuldum óháð því hvort það leiði til þess að skuldarinn muni í kjölfarið ráða við skuldbindingar sínar. Lánveitendur fengju þannig aðgang að lífeyrissparnaði fólks sem ekki er aðfararhæfur og eigandi séreignarsparnaðarins tapar lífeyrissparnaði sínum.

2.Eignir í séreignarsjóðum eru að lang stærstum hluta bundnar í verðbréfum sem losa þarf um, mun fyrr en fjárfestingarstefna sjóðanna gerði upphaflega ráð fyrir, til þess að unnt sé að greiða sparifjáreigendum út eign sína. Eins og stendur er seljanleiki eigna á fjármálamörkuðum mjög takmarkaður og erfitt getur reynst að breyta bundum eignum í laust fé á ásættanlegu verði. Verði heimildir til innlausnar á séreignarsparnaði mjög víðtækar, er hætta á að það leiði til lækkunar á verðgildi eigna sjóðanna og rýri sparnað allra sjóðsfélaga.

Alþýðusambandið leggur þess vegna áherslu á að ef heimila á útgreiðslur úr séreignarsjóðum verði tryggt að tilgangurinn sé einvörðungu að bjarga heimilum í greiðsluvanda og takmörk sett sem komi í veg fyrir áhlaup á sjóðina.