Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingar á lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki (skatthlutfall)

Reykjavík 29.5.2019
Tilvísun: 201905-0018

Efni: Frumvarp til laga um breytingar á lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, nr. 155/2010, með síðari breytingum (skatthlutfall), 826. mál

Með frumvarpinu er lögð til lækkun á sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki í þrepum úr 0,376% í 0,145% á árunum 2020-2023. Fyrirhugaðar breytingar munu lækka tekjur ríkissjóðs um tæpa 8 milljarða á ársgrundvelli þegar þær eru að fullu komnar til framkvæmda á árinu 2023. Markmið frumvarpsins er samkvæmt meðfylgjandi greinargerð að stuðla að skilvirkni í fjármálakerfinu með það að markmiði að lækka kostnað neytenda og er breytingin talin geta liðkað fyrir lækkun útlánavaxta og hækkun innlánsvaxta til hagsbóta fyrir almenning.

Í ljósi versnandi afkomu ríkissjóðs telur ASÍ rétt að endurskoða áform um lækkun sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki til að veikja ekki getu ríkissjóðs til þess að standa undir heilbrigðis- og velferðarþjónustunni og tryggja uppbyggingu nauðsynlegra samfélagsinnviða.

Þá telur ASÍ óljóst með hvaða hætti tryggja eigi að markmið frumvarpsins, um að lækkun bankaskattsins skili sér í lægri kostnaði neytenda og minni vaxtamun hjá fjármálafyrirtækjum, nái fram að ganga.

Í skýrslu Gylfa Zoega um stöðu efnahagsmála sem unnin var að beiðni stjórnvalda í aðdraganda kjarasamninga sl. haust er bent á að bankar sem njóti fákeppnisstöðu geta í skjóli hennar haft meiri vaxtamun og hærri þjónustugjöld en bankar sem búa við meiri samkeppni. Þá er í skýrslunni bent á að íslenskt bankakerfi virðist dýrara í rekstri en sambærilegir bankar annars staðar á Norðurlöndunum og að fyllsta ástæða sé til þess að samkeppnisyfirvöld rannsaki þau kjör sem almenningi býðst hjá viðskiptabönkunum hér á landi og grípi til aðgerða ef í ljós komi að samkeppni sé áfátt.

Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þess fyrir afkomu heimilanna að þau fái bestu mögulegu kjör í viðskiptum sínum við fjármálastofnanir. ASÍ telur því rétt að stjórnvöld taki mið af þessum ábendingum og láti framkvæma slíka rannsókn hið fyrsta til að tryggja að hverskonar hagræðing í rekstri fjármálafyrirtækja skili sér til almennings í betri viðskiptakjörum.

Virðingarfyllst,
Henný Hinz
hagfræðingur ASÍ