Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingar á lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum 146/2012

Reykjavík,20. júní 2013
Tilvísun: 201306-0011
 
Efni: Umsögn ASÍ um frumvarp til laga um breytingar á lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum, nr. 146/2012
 
Í greinargerð með frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum (tekjuöflunaraðgerðir, kjarasamningar, verðlagsbreytingar o.fl.) var á það bent að í upphafi virðisaukaskattkerfisins hafi útleiga á hótel- og gistiherbergjum verið undanþegin virðisaukaskatti og hafi frádráttur innskatts því verið óheimill. Síðar var þessi starfsemi sett í 14% skattþrep og fékk þá heimild til að draga innskatt frá útskatti eins og önnur virðisaukaskattskyld starfsemi. Eftir að starfsemin var færð í 7% skattþrep hefur frádreginn innskattur af útleigu á hótel og gistiherbergjum numið hærri upphæð en álagður útskattur. Greinin hefur því fengið hærri upphæð endurgreidda úr ríkissjóði vegna innskatts en hún hefur greitt. Ekki getur talist eðlilegt að slíkur almennur atvinnurekstur njóti styrkja úr ríkissjóði. 
ASÍ telur æskilegt að einfalda virðisaukaskattskerfið og gera það skilvirkara. Verði þetta frumvarp að lögum mun það hafa verulega óskilvirkni í för með sér sbr. að greinin mun þá greiða lægri útskatt en sem nemur frádráttarbærum innskatti. 
 
Lögfesting frumvarpsins þýðir 535 milljón króna tekjutap ríkissjóðs á þessu ári og um 1,5 milljarð á ári eftir það. Ríkissjóður er rekinn með halla sem nauðsynlegt er að vinna bug á. Verði frumvarpið að lögum er því ljóst að það mun kalla á frekari tekjuöflun á öðrum sviðum eða enn frekari niðurskurð. 
Í ljósi þess sem að framan er rakið leggst ASÍ gegn samþykkt frumvarpsins.
 
 
F.h. Alþýðusambands Íslands
Ólafur Darri Andrason
hagfræðingur ASÍ