Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingar á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr.1/1997, með síðari breytingum (breytingar á A-deild sjóðsins)

Reykjavík 14.12.2016
Tilvísun: 201612-0011


Efni: Frumvarp til laga um breytingar á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr.1/1997, með síðari breytingum (breytingar á A-deild sjóðsins), 6. mál

Alþýðusambandið hefur um áraraðir lagt áherslu á nauðsyn þess að gera breytingar í þá veru að samræma lífeyrisréttindi á almennum- og opinberum vinnumarkaði og tryggja að lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna verði sjálfbærir og geti staðið undir réttindum sjóðfélaga sinna, líkt og lífeyrissjóðir launafólks á almennum vinnumarkaði. Um þessi megin markmið hafa aðilar vinnumarkaðarins verið sammála eins og m.a. kemur fram í drögum að skýrslu vinnuhóps um framtíðarskipan lífeyrismála. Samræming lífeyrisréttinda er sömuleiðis að mati ASÍ forsenda fyrir áframhaldandi samtali milli aðila vinnumarkaðarins um leiðir til að breyta og bæta vinnubrögð við gerð kjarasamninga hér á landi. Nýtt samningalíkan verður að byggja á jafnræði alls launafólks varðandi bæði launahækkanir og lífeyrismál.
Alþýðusambandið leggur því ríka áherslu á mikilvægi þess að ljúka umræddu máli þrátt fyrir að með þessu frumvarpi sé gert ráð fyrir að ríki og sveitarfélög leggi fram tæplega 154 milljarða til lífeyrisaukasjóða A-deilda LSR og Brúar lífeyrissjóðs til að tryggja óbreytt réttindi núverandi sjóðfélaga auk 11 milljarða króna framlags til varúðarsjóða til að styðja við lífeyrisaukasjóðina komi til óvæntra áfalla.
Í því frumvarpi sem nú liggur fyrir er gerð breyting frá fyrra frumvarpi (873. mál á 145. löggjafarþingi) sem gerir ráð fyrir áframhaldandi ríkisábyrgð á óbreyttum réttindum allra núverandi elli- örorku- og makalífeyrisþega í A-deild LSR sem og sjóðfélaga sem náð hafa 60 ára aldri við gildistöku breytinganna. Hér er um grundvallarbreytingu að ræða frá fyrra frumvarpi sem kann að hafa áhrif á framtíðarútgjöld ríkissjóðs. Ekki liggur hins vegar fyrir nein greining, í umfjöllun um frumvarpið, á fjölda þeirra sjóðfélag sem þetta ákvæði nær til, þeim tímaramma sem það mun ná yfir, tryggingafræðilegum áhrifum á A-deild LSR eða mögulegum kostnaðaráhrifum á ríkissjóð.

Þá áréttar Alþýðusambandið að innan aðildarfélaga ASÍ eru um 12.000 félagsmenn sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum eða stofnunum sem fjármagnaðar eru af þessum aðilum. Þessi hópur greiðir lífeyrisiðgjöld til almennu lífeyrissjóðanna, en mótframlag atvinnurekenda er skv. kjarasamningi hið sama og til lífeyrissjóða opinberra starfsmanna (11,5% hjá ríkinu og 12% hjá sveitarfélögum). Í kjarasamningum þessara aðildarfélaga er jafnframt kveðið á um að mótframlagið byggi á þeirri forsendu að ekki verði breytingar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna. Jafnframt kveða kjarasamningar á um að verði breytingar á mótframlagi hjá lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna taki mótframlag þessa hóps breytingum á sama hátt. Lífeyrisréttindi þessa hóps opinberra starfsmanna hafa hins vegar ekki verið ríkistryggð með sama hætti og lífeyrisréttindi sjóðfélaga opinberu lífeyrissjóðanna.
Framlag til lífeyrisaukasjóða A-deilda LSR og Brúar mun standa undir óbreyttum réttindum núverandi sjóðfélaga í þessum deildum til starfsloka, en þessi aðferð mun hins vegar að óbreyttu ekki tryggja starfsfólki innan vébanda ASÍ, sem starfar hjá ríki og sveitarfélögum og stofnunum sem fjármagnaðar eru alfarið af almannafé, sambærilega uppbót. Í yfirlýsingu ríkisstjórnar í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í maí 2011 var því lýst yfir að við breytingar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna yrðu réttindi þessa hóps tryggð með sambærilegum hætti og réttindi sjóðfélaga í lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna, með framlögum frá hinu opinbera. Alþýðusambandið hefur haft frumkvæði að því að fá tryggingafræðilegt mat á stöðu þessa hóps og kostnaði við að tryggja honum sambærilega lausn og sjóðfélögum A-deilda LSR og Brúar og væntir þess að þær upplýsingar liggi fyrir á næstu dögum. Alþýðusambandið leggur áherslu á að staðið verði við gefin loforð og tryggt að jafnt verði látið yfir alla starfsmenn ríkis og sveitarfélaga ganga. Nauðsynlegt er að einnig verði tekið tillit til þessa í fjáraukalögum fyrir yfirstandandi ár til þess að aðgerðin verði ekki íþyngjandi fyrir fjárlög næsta árs.


Virðingarfyllst,
Henný Hinz
hagfræðingur ASÍ