Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingar á lögum um íslenskan ríkisborgararétt

ASÍ hefur þá skoðun á löggjöf á þessu sviði, að henni skuli haga með þeim hætti að samrýmist almennum og viðurkenndum mannréttindum. Þess vegna skuli ekki byggt á skilyrðum sem vafi leiki á hvort samræmist slíkum reglum og viðurkenndum mannréttindaviðhorfum.

Frumvarpið eykur nokkrum skilyrðum við ákvæði c. liðar 9.gr. laganna. 3. tl. fjallar um kunnáttu í íslensku. Í greinargerð kemur fram að gildistöku sé frestað um 2 ár og að beita þurfi þessu ákvæði af nokkurri varúð m.a. með tilliti til uppbyggingar á íslensku kennslu fyrir alla þá útlendinga sest hafa hér að. ASÍ tekur eindregið undir þau sjónarmið. Í 4-6 tl. er hins vegar fjallað um fjármál og þau tilvik að útlendingur sem hér dvelst komist í kast við lögin. Þessi skilyrði geta komið með ósanngjörnum hætti í veg fyrir að útlendingar sem dvalist hafa hér á landi um langt skeið og fest djúpar rætur geti ekki öðlast ríkisborgararétt. Veigamikil rök hníga að því, að einstaklingar sem þannig eru í raun orðnir hluti íslensks samfélags og geta sem slíkir, rétt eins og þúsundir Íslendinga lent í tímabundnum fjárhagsvandræðum, neyðst til þess að þiggja tímabundinn framfærslustyrk eða orðið uppvísir að afbroti verði ekki útsettir fyrir svo ströngum skilyrðum sem þarna greinir.

 

F.h. Alþýðusambands Íslands,

 Magnús M. Norðdahl hrl.,

lögfræðingur ASÍ