Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingar á lögum um húsnæðismál

Reykjavík 25.4.2018
Tilvísun: 201804-0023

Efni: Frumvarp til laga um breytingar á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum (stefnumótun á sviði húsnæðismála, hlutverk Íbúðalánasjóðs), 469. mál

Með frumvarpinu er verið að fela Íbúðalánasjóði verkefni við úthlutun stofnframlaga til almennra íbúða í samræmi við lög um almennar íbúðir. Auk þess eru ákvæði er lúta að stefnumótun, greiningu og áætlanagerð í húsnæðismálum, þ.m.t. ákvæði er skylda sveitarfélög til gerðar á húsnæðisáætlunum og um hlutverk Íbúðalánasjóðs við söfnun, úrvinnslu og útgáfu upplýsinga á sviði húsnæðismála og mat á húsnæðisþörf. Þá er ráðherra gert að leggja fram þingsályktun um stefnumótun á sviði húsnæðismála í kjölfar kosninga til að tryggja aðkomu Alþingis að húsnæðisstefnu og lagt til að húsnæðisþing verði haldið á tveggja ára fresti þar sem samráð er átt við hagsmunaaðila um stefnumótun í húsnæðismálum. Alþýðusambandið tekur undir efni þessara ákvæða og mælist til samþykktar þeirra.

Endurfjármögnunarheimild til Íbúðalánasjóðs
ASÍ vill vekja athygli á því að í 18. grein frumvarpsins er lagt til að við lögin bætist bráðabirgðaákvæði sem ætlað er að stuðla að jafnvægi milli inn- og útgreiðslna hjá sjóðnum í samræmi við 3. mgr. 11. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu á að heimila Íbúðalánasjóði að bregðast við uppgreiðslu þegar veittra lána til lögaðila með útgáfu á skuldabréfi til endurfjármögnunar lána hjá sama aðila. Þannig er hægt að stemma stigu við uppgreiðslum hjá sjóðnum með því að bjóða lögaðilum endurfjármögnun á hagstæðari kjörum. ASÍ sér engar málefnalegar forsendur fyrir því að heimila lögaðilum slíka endurfjármögnun en ekki einstaklingum sem fjármagnað hafa fasteignakaup sín með lánum hjá Íbúðalánasjóði. Ef veita á Íbúðalánasjóði heimild til að veita viðskiptavinum sjóðsins hagstæðari kjör á þegar teknum lánum er nauðsynlegt að sú heimild nái einnig til lánveitinga til einstaklinga.

Úthlutun almennra íbúða
Í frumvarpinu er lögð til breyting á lögum um almennar íbúðir nr. 52/2016. Þar er ráðherra veitt reglugerðarheimild til að ákveða viðmið sem líta skal til við úthlutun stofnstyrkja til almennra íbúða og hlutföll til mismunandi hópa. ASÍ styður þessa breytingu því með henni getur ráðherra tryggt efndir á samkomulagi ríkisstjórnarinnar við ASÍ frá 2015 um að 1.500 af þeim 2.300 stofnstyrkjum, eða um 65%, sem úthlutað skal á árunum 2016-2019, verði varið til uppbyggingar á húsnæði fyrir tekjulága leigjendur á vinnumarkaði. Hingað til hefur þetta hlutfall ekki náðst og er nú rúmlega 40% þannig að ljóst er að mikið vantar upp á til að efna samkomulagið. Það vekur því áhyggjur að í greinargerð með greininni í frumvarpinu segir að gert sé ráð fyrir að ekki minna en helmingi stofnframlaga verði varið til uppbyggingar á húsnæði sem ætlað er tekjulágum leigjendum á vinnumarkaði. ASÍ krefst þess að 65% úthlutaðra stofnframlaga verði varið til húsnæðis fyrir tekjulága leigjendur á vinnumarkaði og þar með verði staðið við það loforð sem aðildarfélögum og félagsmönnum ASÍ var gefið af ríkisstjórninni í aðdraganda kjarasamninga vorið 2015.

Virðingarfyllst,
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
hagfræðingur hjá ASÍ