Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar

Alþýðusamband Íslands hefur á undanförnum misserum haft til skoðunar og umræðu málefni barna og barnafjölskyldna, m.a. í ljósi niðurstöðu sérstakrar úttektar á fátækt meðal barna. Ljóst er að staða barnafjölskyldna hefur versnað umtalsvert undanfarin ár og kemur það víða fram, m.a. í tannverndarmálum barna.

Á ársfundi ASÍ í október sl. voru áherslur Alþýðusambands Íslands í velferðamálum samþykktar í sérstakri útgáfu sem ber heitið ,,Norræna velferðarsamfélagið og vinnumarkaðsmódelið‘‘. Þar kemur m.a. fram krafa ASÍ um ,,að tryggja öllum börnum og unglingum undir 18 ára aldri viðunandi aðgengi að alhliða heilbrigðisþjónustu, m.a. með því að greiða niður lyf og tannlækningar ásamt sjón- og heyrnartækjum.‘‘  Í umræddu frumvarpi er gengið lengra og miðað við 25 ára aldursmörk sem síðan eigi að hækka í 40 ár.

Í frumvarpinu er hins vegar ekki tekið á því vandamáli, að Tryggingastofnun ríkisins hefur ákveðið einhliða ,,taxta‘‘ tannlækna sem endurgreiðslur miðast við og er þessi ,,taxti‘‘ í engu samræmi við þann veruleika sem foreldrar barna sem þurfa á þjónustu tannlækna að halda býr við.

Alþýðusambandið styður þann þátt þessa frumvarps sem lýtur að aukinni aðstoð við barnafjölskyldur og hefði fagnað ákvæðum um að TR endurgreiði raunverulegan kostnað barnafjölskyldna. Alþýðusambandið tekur hins vegar ekki undir það sjónarmið, að stefna eigi að því að hækka aldursmörkin í 40 ár.

Með kveðju,

Gylfi Arnbjörnsson
Framkvæmdastjóri ASÍ