Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007 og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum

 Reykjavík, 27.6 2013

 Tilvísun: 201306-0028

 

Efni: Frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007 og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum, 25. mál.   

Með frumvarpinu er lagt til að frítekjumark atvinnutekna ellilífeyrisþega verði hækkað úr 480.000 kr. á ári í 1.315.200 kr. á ári við útreikning á tekjutryggingu og að lífeyrissjóðstekjur úr skyldubundnum lífeyrissjóðum hafi ekki áhrif á greiðslur elli- og örorkulífeyris (grunnlífeyris).

Alþýðusambandið fagnar þeirri fyrirætlan að bæta kjör elli- og örorkulífeyrisþega með auknum framlögum til almannatrygginga en lýsir jafnframt verulegum vonbrigðum yfir því að það skuli gert í algjörri andstöðu við þá heildarendurskoðun á lögum um almannatryggingar og félagslegan stuðning sem unnið hefur verið að um margra ára skeið og breið samstaða var um meðal fulltrúa þingflokka og hagsmunaaðila í vor. Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru settar fram án alls samráðs. Þær ganga alfarið gegn þeim hugmyndum sem ríkjandi hafa verið um nauðsyn þess að einfalda og skýra almannatryggingakerfið og gera enn erfiðara en nú er að vinda ofan af margflæktu almannatryggingakerfi.

Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu munu vissulega gagnast hluta lífeyrisþega en þó aðeins þeim sem eru tekjuhærri. Þeir lífeyrisþegar sem þurfa að reiða sig eingöngu á tekjur almannatrygginga eða hafa lífeyrissjóðstekjur undir 215.000 kr. á mánuði  og/eða lágar atvinnutekjur hafa engan ávinning af boðuðum breytingum. Samkvæmt tölum frá TR eru elli- og örorkulífeyrisþegar ríflega 46.000 en breytingin mun skv. athugasemdum við frumvarpið hafa áhrif á tekjur um 7.000 þessara lífeyrisþega eða um 15%.

Alþýðusambandið leggur ríka áherslu á að breytingar á almannatryggingakerfinu byggi á niðurstöðum þeirrar vinnu sem staðið hefur yfir með hléum frá því haustið 2007 með aðkomu breiðs hóps hagsmunaaðila og fulltrúa þingflokka. Nú síðast í sérstökum starfshóp sem velferðarráðherra skipaði í apríl 2011 til að vinna að lokaáfanga heildarendurskoðunar almannatryggingalöggjafarinnar. Afraksturinn var nýtt frumvarp um lífeyrisréttindi, almannatryggingar og félagslegan stuðning sem lagt var fram á Alþingi sl. vor en hlaut þá ekki efnislega meðferð. Í því frumvarpi var lagt til að sameina í ein lög rétt til bóta og aðstoðar vegna elli, skertrar starfsgetu, andláts eða framfærslu barna með það að markmiði að gera lögin einfaldari og skýrari en núgildandi löggjöf. Þetta eykur mjög gagnsæi og gefur betri yfirsýn yfir réttindi einstakra hópa sem er vel. Í frumvarpinu voru lagðar til gagngerar breytingar á bótakerfi ellilífeyrisþega þar sem fjórir bótaflokkar verði sameinaðir í einn með einu skerðingarhlutfalli gagnvart öllum tekjum. Breytingin er viðamikil og einfaldar bótakerfi ellilífeyrisþega til muna en gert er ráð fyrir að hún verði innleidd í áföngum næstu fjögur árin.

Í þeim frumvarpsdrögum sem starfshópurinn skilaði er gert ráð fyrir að starfshópur um endurskoðun almannatrygginga vinni áfram að tillögum á breytingum á þeim köflum laganna sem eftir standa og fjalla um bótakerfi vegna örorku, starfsgetumat, bætur til foreldra langveikra- og fatlaðra barna, barnatryggingar og bifreiðamál hreyfihamlaðra. Þá verði lokið við heildarendurskoðun laganna svo fljótt sem tillögur starfshópsins í ofangreindum þáttum liggja fyrir.

Að baki frumvarpinu frá því í vor (636. mál á 141. löggjafarþingi), sem nú hefur verið lagt fram á Alþingi að nýju (7. mál), liggur þverpólitísk vinna sem rík sátt hefur náðst um og mikilvægt er að áfram verði byggt á. Breytingar á almannatryggingum er flókið og margþætt verkefni sem snertir hagsmuni og velferð fjölda fólks. Samhljómur er um að nauðsynlegt sé að einfalda kerfið og auka gagnsæi svo notendum þess séu ljós réttindi sín á hverjum tíma auk þess sem tryggja þarf að samspil almannatrygginga, lífeyrissjóðstekna og annarra tekna sé réttlátt og skilvirkt. Niðurstaða vinnu síðastliðinna ára endurspeglar málamiðlun milli aðila og er mikilvægur liður í að ná breiðri sátt um þá mikilvægu grunnstoð sem almannatryggingakerfið er.

Alþýðusamband Íslands leggst gegn samþykkt þess frumvarps sem hér er til umsagnar (25.mál) en vísar til umsagnar um frumvarp til laga um lífeyrisréttindi og félagslegan stuðning (7. mál) og leggur til að það frumvarp verði samþykkt með þeim fyrirvörum sem fram koma í umsögninni.

 

F.h. Alþýðusambands Íslands
Henný Hinz
hagfræðingur