Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum (afnám skerðingar ellilífeyris vegna atvinnutekna)

Reykjavík 21.11.2018
Tilvísun: 201811-0009

Efni: Frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum (afnám skerðingar ellilífeyris vegna atvinnutekna), 24. mál

Með frumvarpinu er lagt til að fella niður skerðingar ellilífeyris almannatrygginga vegna atvinnutekna að fullu. Sú breyting sem hér er lögð til gagnast þannig einungis þeim ellilífeyrisþegum sem stunda atvinnu og hafa atvinnutekjur umfram þau frítekjumörk sem nú eru gildandi, þ.e. 25.000 kr. almennt frítekjumark auk 100.000 kr. sérstaks frítekjumarks á atvinnutekjur. Áætla má að um 13% þeirra ellilífeyrisþega sem eiga réttindi í almannatryggingum hafi atvinnutekjur og eru atvinnutekjur flestra þeirra undir núgildandi frítekjumarki á atvinnutekjur. Þá má ætla að breytingin skili sér mun betur til karla en kvenna enda eru þeir fleiri í þessum hópi og hafa hærri atvinnutekjur. Þá má benda á að ellilífeyrisþegar hafa nú tækifæri til þess að taka hálfan ellilífeyrir almannatrygginga sem tekur engum skerðingum vegna atvinnutekna sem kemur verulega til móts við þá eldri borgara sem stunda atvinnu að hluta.

Þótt fullt afnám skerðinga ellilífeyris almannatrygginga vegna atvinnutekna kunni vissulega að bæta hag ákveðins hóps eldri borgar sem hefur getu og tækifæri til atvinnuþátttöku mun breytingin hins vegar ekki bæta kjör verst settu ellilífeyrisþegana sem einungis hafa bætur frá almannatryggingum eða lágar greiðslur úr lífeyrissjóðum. Til að bæta kjör þeirra er mun skilvirkara að hækka bótafjárhæðir almannatrygginga og draga úr almennu skerðingarhlutfalli ellilífeyris sem í dag er 45%. Á 43. þingi Alþýðusambands Íslands í október sl. var samþykkt ályktun þess efnis að skerðingarhlutfall almannatrygginga verði lækkað í 30% í því miði að bæta afkomuöryggi lífeyrisþega. Langflestir ellilífeyrisþegar eiga réttindi í lífeyrissjóðum og mundi slík breyting gagnast nær öllum þeim hópi.

Virðingarfyllst,
Henný Hinz,
hagfræðingur ASÍ