Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, (hækkun lífeyris í 300 þús. kr)

Reykjavík 4.10.2015
Tilvísun: 201509-0008

Efni: Frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, (hækkun lífeyris í 300 þús. kr), 3. mál
Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ákvæði til bráðabirgða sem kveði á um hækkun elli- og örorkulífeyris almannatrygginga um 8,86% frá 1. maí 2015, 6,12% frá 1.maí 2016 og um 7,14% frá 1.maí 2017 þannig að lífeyrir almannatrygginga fylgi þróun lægstu launa samkvæmt kjarasamningum og verði 300 þúsund krónur á árinu 2018.

Alþýðusamband Íslands styður markmið breytinganna og telur eðlilegt að kjör elli- og örorkulífeyrisþega fylgi launaþróun í landinu svo tryggt sé að þessir hópar dragist ekki aftur úr í lífskjörum og möguleikum til samfélagsþátttöku. Í þessu sambandi er þó rétt að líta til þess að nú stendur yfir vinna við heildarendurskoðun á lögum um almannatryggingar í fjölskipaðri nefnd sem áætlar að skila tillögum til ráðherra á næstu vikum. ASÍ telur eðlilegt að umræddar tillögur verði settar í samhengi við þá heildarendurskoðun einkum þar sem brýnt er að draga úr vægi tekjuskerðinga vegna sérstakrar uppbótar á lífeyri sem í dag skerðist krónu á móti krónu vegna annarra tekna.

Alþýðusambandið hvetur því til þess að Alþingi tryggi hraðan framgang væntanlegra tillagna nefndar um endurskoðun almannatrygginga.

F.h. Alþýðusambands Íslands
Henný Hinz
hagfræðingur