Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingar á lögum nr.90/2003 um tekjuskatt, með síðari breytingum (sjúkdómatryggingar)

Reykjavík 08.02.2011
Tilvísun: 201101-0021

 

Efni: Frumvarp til laga um breytingar á lögum nr.90/2003 um tekjuskatt, með síðari breytingum (sjúkdómatryggingar), 300. mál

ASÍ telur mikilvægt að jafnræðis sé gætt varðandi skattlagningu á greiðslum til einstaklinga vegna sjúkdóma og áfalla. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 17. febrúar 2008 sem gefin var út í tengslum við gerð kjarasamninga segir m.a.: „Samkomulag er milli samningsaðila að hefja uppbyggingu áfallatrygginga. Fyrirhugað er að leggja nýtt 0,13% launatengt gjald, áfallatryggingagjald, á launagreiðendur samkvæmt kjarasamningum aðila. Komi þetta til framkvæmda mun ríkissjóður leggja Endurhæfingarsjóði til sömu upphæð frá og með árinu 2009. Ríkisstjórnin mun í tengslum við þetta beita sér fyrir lagabreytingum sem tryggi að greiðslur úr Endurhæfingarsjóði, sjúkra- og fræðslusjóðum stéttarfélaga sem ganga til greiðslu kostnaðar við endurhæfingu, heilbrigðisþjónustu og tiltekna þjónustu fagaðila ásamt starfsmenntun og fullorðinsfræðslunámskeiðum sem staðfest hafa verið af menntamálaráðuneytinu teljist ekki til skattskyldra tekna hjá viðkomandi einstaklingum. Jafnframt mun ríkisstjórnin taka upp viðræður við aðila um samræmingu í skattalegri meðferð greiðslu kostnaðar úr þessum sjóðum vegna forvarna og starfsmenntunar.”

Skattfrelsi greiðslna Endurhæfingarsjóðs (Starfsendurhæfingarsjóðs) voru efnd í árslok 2008 en ekki hefur enn verið staðið við loforð stjórnvalda varðandi skattfrelsi greiðslna sjúkra- og fræðslusjóða.

ASÍ leggur áherslu á að greiðslur vegna útlagðs kostnaðar við starfsmenntun, fullorðinsfræðslu og heilbrigðisþjónustu eða miska séu undanþegnar greiðslu tekjuskatts. Því er mikilvægt að gera greinarmun á þeim bótum sem ætlað er að mæta tekjutapi annars vegar og þeim sem ætlað er að mæta kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu hins vegar. Þannig eru greiðslur almannatrygginga og sjúkrasjóða stéttarfélaganna vegna tekjutaps eða bóta skattskyldar að fullu eins og laun og mikilvægt að löggjafinn mismuni ekki á þann hátt að ,,einkatryggingar‘‘ njóti hagstæðari skattareglna en þær tryggingar sem byggja á samtryggingarformi eins og greiðslur almannatrygginga og sjúkrasjóðanna.

ASÍ leggur því til að sú breyting á lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt, sem lögð er til í frumvarpinu verði löguð að þessu sjónarmiði og breytingin gerð varanleg þ.e. breytingin tryggi að sá hluti sjúkdómatrygginga og greiðslna sjúkra- og fræðslusjóða sem ætlað er að mæt kostnaði við heilbrigðisþjónustu og tiltekna þjónustu fagaðila ásamt starfsmenntun og fullorðinsfræðslunámskeiðum og greiðslum vegna miska verði varanlega undanþeginn álagningu tekjuskatts.

 

F.h. Alþýðusambands Íslands

Ólafur Darri Andrason

Hagfræðingur ASÍ