Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 98/2004, um jöfnun á kostnaði við dreifingu raforku, með síðari breytingum, (jöfnunargjald)

11. febrúar 2014

 

Reykjavík 07.02.2014
Tilvísun: 2014-010032 
 
 
Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 98/2004, um jöfnun á kostnaði við dreifingu raforku, með síðari breytingum, (jöfnunargjald) 237. mál.
 
Alþýðusamband Íslands hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 98/2004, um jöfnun á kostnaði við dreifingu raforku, með síðari breytingum, 237. mál.
 
Með frumvarpinu er lagt til að lagt verði á sérstakt 0,30 kr. jöfnunargjald á raforku sem fer um dreifikerfi dreifiveitna til að standa straum af allri jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku til almennra notenda. Gjaldið verði lagt á í áföngum á árunum 2014-2016. 
 
Kostnaður notenda í dreifbýli vegna flutnings og dreifingar á raforku hefur allt frá árinu 2005, þegar teknar voru upp sérstakar dreifbýlisgjaldskrár, verið mun hærri en notenda í þéttbýli að teknu tilliti til dreifbýlisframlags.  Sá munur hefur farið stöðugt vaxandi enda framlag á fjárlögum til niðurgreiðslu á kostnaði við dreifingu raforku verið nánast óbreytt krónutala frá árinu 2005 þrátt fyrir mikla hækkun á dreifingarkostnaði. Á árinu 2005 greiddu notendur í dreifbýli 20-25% meira en heimili í þéttbýli fyrir dreifingu raforku en þessi munur er nú 50-60% að teknu tilliti til dreifbýlisframlags. Út frá atvinnu- og byggðarsjónarmiði er raforkukerfið hluti af þeim innviðum sem mikilvægt er að tryggja að landsmenn allir hafi sem jafnasta kostnað vegna. Alþýðusambandið hefur á undanförnum árum ítrekað gagnrýnt að niðurgreiðsla hins opinbera hafi ekki nægt til að tryggja þessa jöfnun og tekur því heils hugar undir markmið laganna um að jafna að fullu þann mun sem er á dreifingarkostnaði raforku milli dreifbýlis og þéttbýlis. ASÍ lýsir þó efasemdum um að heppilegast sé að fjármagna jöfnunina með sértækri skattlagningu á raforkunotendur.  
 
Frumvarpið felur í sér þá breytingu að á árinu 2016 þegar jöfnunargjaldið hefur að fullu verið innleitt fellur niður núverandi 240 ma.kr. framlag úr ríkissjóði til jöfnunar á kostnaði við dreifingu raforku til almennra notenda.  Kostnaður við jöfnun verður þá að fullu fjármagnaður með gjaldi á almenna raforkunotendur. Ekki er í frumvarpinu gert ráð fyrir að jöfnunargjaldið verði markaður tekjustofn og áfram verði því veitt framlag til jöfnunar á kostnaði við dreifingu raforku í fjárlögum ár hvert. ASÍ leggur áherslu á að verði það niðurstaðan er nauðsynlegt að tryggt sé að tekjum af jöfnunargjaldinu verði varið óskiptum til jöfnunar á kostnaði við dreifingu raforku en verði ekki grundvöllur að almennri skattlagningu á raforkunotendur. 
 
F.h. Alþýðusambands Íslands
Henný Hinz
hagfræðingur
 


Til baka