Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 84/2007, um opinber innkaup (aukin skilvirkni í meðferð kærumála)

Reykjavík, 22. nóvember 2012.
Tilvísun: 201211-0025
 
 
 
Frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 84/2007, um opinber innkaup (aukin skilvirkni í meðferð kærumála), 288. mál 
 
Hér á eftir fylgir umsögn Alþýðusambandsins um ákveða þætti frumvarpsins er varða sérstaklega áherslur og vinnu sambandsins við gerð frumvarpsins.
Í yfirlýsingu ríkisstjórnar við gerð kjarasamninganna 5. maí 2011 segir m.a.:
 
„Framkvæmd útboðsmála
Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins eru sammála um mikilvægi þess að heilbrigð samkeppni ríki þegar verklegar framkvæmdir og þjónusta eru boðnar út.
Stjórnvöld munu beita sér fyrir breytingum á lögum um opinber innkaup til þess að tryggja betur eðlilegt samkeppnisumhverfi og réttindi launafólks. Leitað verður leiða til að tryggja betur að í útboðslýsingum sé að finna skýr ákvæði um hæfi bjóðenda, um val á tilboðum og um skil á greiðslum til þeirra sem að tilboðsverkum koma. Vanda þarf mat verkkaupa á hæfi bjóðenda í útboðum opinberra aðila. Æskilegt er að slíkt mat nái jafnt til aðal- og undirverktaka og verði meginreglan að starfsmenn séu í föstu ráðningarsambandi. Aðilar hafa komið sér saman um drög að samræmdu mati á hæfi bjóðenda og er lögð áhersla á að þau fái viðurkennda stöðu í lögum eða reglugerð. Ennfremur er aðkallandi að kveða með skýrum hætti á um gerð útboðsgagna, um skil á launagreiðslum og samábyrgð verktaka og undirverktaka. Tryggja þarf að ákvæði um vinnutilhögun og mælingar á vinnuþáttum verði hluti af útboðsskilmálum í opinberum þjónustuinnkaupum.
 
Skoðað verður hvaða breytingar gera þarf á lögum um opinber innkaup, og eftir atvikum öðrum lögum, til þess að styrkja stöðu og réttindi launafólks sem starfa fyrir fyrirtæki á verktakamarkaði og jafna á sama tíma samkeppnisstöðu fyrirtækja. Stefnt skal að því að starfshópur stjórnvalda, með aðild fulltrúa sveitarfélaga, ASÍ og SA, skili tillögum um framangreind atriði eigi síðar en í september 2011 og að hægt verði að leggja fyrir Alþingi tillögur um æskilegar lagabreytingar í byrjun haustþings. Stjórnvöld munu jafnframt, þar sem það á við, innleiða niðurstöður starfshópsins í eigendastefnu ríkisins.
Jafnframt lýsa stjórnvöld yfir vilja til að útvíkka gildissvið laga um opinber innkaup þannig að þau nái jafnframt til innkaupa sveitarfélaga og stofnana á þeirra vegum.“
 
Yfirlýsingin var sameiginleg niðurstaða stjórnvalda, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Hún hafði það að markmiði að bæta framkvæmd varðandi opinber innkaup og treysta réttarstöðu starfsmanna.
Í því frumvarpi sem hér er til umsagnar er að hluta til komið til móts við framangreind markmið, en aðrir þættir málsins eru enn í vinnslu. Það á meðal annars við hvað varðar  skýrari og traustari reglur um hæfi bjóðenda, þjónustuútboð á vegum opinberra aðila og útboð á vegum sveitarfélaganna. Er vonast til að niðurstaða fáist í þau mál nú á næstunni.
Þau ákvæði frumvarpsins er beint tengjast yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar varða skyldur til að upplýsa um undirverktaka, mat á óeðlilega lágum tilboðum og um að sporna gegn gerviverktöku. ákvæðin eru efnislega sem hér segir:
 
2. gr.
Þar sem í 42. gr. á að kveða með skýrari hætti en í núgildandi lögum í útboðsgögnum að bjóðandi upplýsi hvaða hluta samnings hann hyggst láta þriðja aðila framkvæma sem undirverktaka. og jafnframt að bjóðandi skal upplýsa verkkaupa um hvaða undirverktaka hann hyggst nota og leita samþykkis verkkaupa áður en undirverktaki hefur störf. Jafnframt er bætt við ákvæði sem ætlað er að tryggja að skriflegur samningur sé ávallt gerður við undirverktaka.
 
3. gr.
Þar er bætt við upptalningu í 73. gr., þar sem fjallað er um tilboð sem virðist óeðlilega lágt skuli kaupandi, áður en hann getur vísað þessu tilboði frá, óska eftir nákvæmri, skriflegri lýsingu á þeim efnisþáttum tilboðsins sem hann telur skipta máli. Viðbótin er í nýjum staflið, þ.e. ,,e-lið“, sem hljómar svo ,,laun, önnur starfskjör og aðbúnað starfsfólks“. Ástæða breytingarinnar er einkum sú að orðalag núgildandi ákvæðis þótti ekki nægilega afgerandi, auk þess sem viðbótarákvæðinu er ætlað að tryggja að við mat á forsendum óeðlilegra lágra tilboða sé horft til launa, annarra starfskjara og aðbúnaðar starfsmanna. 
 
6. gr.
Breytingin á 77. gr. laganna sem felur í sér að nýjum málslið er bætt framan við greinina. Breytingin er gerð til að leggja áherslu á mikilvægi þess að óheimilt sé að gera samning um undirverktöku við einstaka starfsmenn eða hópa þar sem ráðningarsamband sé til staðar.
 
Alþýðusamband Íslands telur að í framangreindum breytingum felist mikil réttarbót fyrir launafólk, auk þess sem þær eiga að stuðla að heilbrigðari viðskiptaháttum í tengslum við opinber innkaup. 
 
Vegna þess sem að framan segir leggur Alþýðusambandið ríka áherslu á að breytingar samkvæmt 2., 3. og 6. gr. frumvarpsins nái fram að ganga og að þær verði lögfestar hið allra fyrsta.
 
Virðingarfyllst,
Halldór Grönvold,
aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ