Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur

Alþýðusambandi Íslands hefur borist að nýju til umsagnar frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, með síðari breytingum. 

Það er grundvallarafstaða ASÍ að kjarasamningar, efni þeirra og framkvæmd eigi að vera í höndum aðila vinnumarkaðarins, samtaka launafólks og atvinnurekenda. Rétturinn til að stofna stéttarfélög og semja um kaup og kjör er með mikilvægustu mannréttindum launafólks og þeim rétti fylgir að samningsaðilar beri ábyrgð á því um hvað er samið og hvernig. Það felur m.a. í sér ákvörðun um gildistíma kjarasamninga, frá hvaða tíma þeir gilda og hversu lengi.

Í ljósi framanritaðs getur ASÍ ekki stutt það frumvarp til umsagnar er. Um leið vill ASÍ undirstrika, og tekur undir það með flutningsmanni, að mikilvægt er að nýir kjarasamningar komist á um leið og eldri samningar renna sitt skeið, eða sem fyrst þar á eftir. Að því hefur ASÍ og aðildarsamtök þess stefnt við kjarasamningagerð á undanförnum árum. Til að ná þessu markmiði hefur verkalýðshreyfing m.a. hvatt til og sjálf haft frumkvæði að því að breyta og bæta verklag varðandi undirbúning og gerð kjarasamninga. Má þar m.a. nefna gerð viðræðuáætlana í tengslum við kjarasamningagerð og eftirfylgni með framkvæmd þeirra. Væntir Alþýðusambandið þess að ný og breytt vinnubrögð sem hafa skilað góðum árangri muni skila þeim árangri í frjálsum samningum sem frumvarpinu er ætlað að ná, enda sammála flutningsmanni um markmiðin, þótt ASÍ telji að aðrar leiðir en hann leggur til séu vænlegri í þeim efnum.


Virðingarfyllst,

Magnús M. Norðdahl hrl.,
lögfræðingur ASÍ.