Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 74/2012, um veiðigjöld

Reykjavík, 21. júní 2013
Tilvísun: 201306-0019
 
Efni: Umsögn ASÍ um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 74/2012, um veiðigjöld.
 
Afstaða ASÍ til frumvarpsins byggir á stefnu sambandsins í atvinnumálum en í henni segir m.a.:
„Til náttúruauðlinda í eigu þjóðarinnar teljast m.a. nytjastofnar á Íslandsmiðum, auðlindir á /í /eða undir hafsbotninum (utan netalaga) svo og náttúruauðlindir í þjóðlendum. Á grundvelli stefnu um nýtingu og verndun náttúruauðlinda geta stjórnvöld veitt heimild til nýtingar á auðlindum sem eru í eigu þjóðarinnar gegn gjaldi að því tilskyldu að nýtingarrétturinn sé tímabundinn eða að honum megi breyta. Við útgáfu nýtingarleyfa á auðlindum sem eru í eigu þjóðarinnar skal m.a. hafa eftirfarandi að leiðarljósi: 
 
Leyfin skulu veitt á grundvelli hlutlægra viðmiðana sem gerð eru opinber í auglýsingum. 
Setja skal ströng skilyrði fyrir veitingu leyfanna, m.a. um að áætlanir um rannsóknir og nýtingu séu í samræmi við stefnu um nýtingu og vernd auðlinda, að þær uppfylli kröfur um umhverfismat og skipulag og gangi ekki gegn reglum um réttindi launafólks, laun og vinnuvernd. 
Gegn leyfum komi endurgjald; í fyrsta lagi vegna kostnaðar ríkisins af rannsóknum og eftirliti með nýtingu auðlinda (þjónustugjald); í öðru lagi til að tryggja þjóðinni hlutdeild í umframarði sem nýting auðlinda í þjóðareign skapar (auðlindagjald); og í þriðja lagi, þar sem það á við,til að tryggja hagkvæma nýtingu (umhverfisskattur).“
 
ASÍ studdi álagningu veiðigjalda á síðasta ári og taldi mikilvægt að þjóðin fengi þannig eðlilega hlutdeild í afrakstrinum af fiskveiðiauðlindinni.
ASÍ telur að ekki hafi verið færð sannfærandi rök fyrir þeirri miklu lækkun veiðigjalds sem frumvarpið felur í sér. Ef ekki er hægt að leggja veiðigjöldin á að óbreyttu vegna þess að lögfesta þarf afdráttarlausari heimildir til öflunar upplýsinga og miðlunar þeirra milli embættis ríkisskattstjóra, Hagstofu Íslands og veiðigjaldanefndar þá þarf Alþingi að taka á því og lögfesta slíkar heimildir. 
 
Verði frumvarpið að lögum munu tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldinu lækka um samtals 9,6 milljarða króna á rekstrargrunni á árunum 2013 og 2014. Á móti kunna tekjur af tekjuskatti lögaðila að aukast en ljóst er að sá tekjuauki mun aðeins koma að mjög takmörkuðu leyti í stað lækkaðra tekna af veiðigjaldinu. 
Staða ríkissjóðs er erfið og verði frumvarpið að lögum mun annað tveggja gerast; áframhaldandi hallarekstur ríkissjóðs sem seinka mun endurreisn efnahagslífsins eða grípa þarf til sérstakra aðgerða til að vega upp á móti lækkuðum tekjum af veiðigjaldi með annarri tekjuöflun og/eða frekari niðurskurði ríkisútgjalda.
 
ASÍ leggst því gegn samþykkt frumvarpsins.
 
 
F.h. Alþýðusambands Íslands
Ólafur Darri Andrason
hagfræðingur ASÍ