Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingar á lögum, nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, með síðari breytingum, 256. mál

Reykjavík 29. Nóvember 2010

Tilvísun: 201011-0061

 

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum, nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, með síðari breytingum, 256. mál.

Alþýðusamband Íslands hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um breytingar á lögum nr.59/1992, um málefni fatlaðra, með síðari breytingum, 256. mál.

Að því er fram kemur í athugasemdum við frumvarpið er markmið þess að koma í framkvæmd því samkomulagi sem gert hefur verið um að fagleg og fjárhagsleg ábyrgð á framkvæmd opinberrar þjónustu við fatlað fólk flytjist frá ríki til sveitarfélaga þann 1. janúar nk. Samkvæmt viljayfirlýsingu ríkis og sveitarfélaga um tilfærsluna frá því í mars 2009 er markmið tilfærslunnar að:

·Bæta þjónustu og auka möguleika til að laga hana að þörfum notenda með hliðsjón af ólíkum aðstæðum.

·Tryggja að eitt stjórnsýslustig beri ábyrgð á stærstum hluta almennrar félagsþjónustu, bæta samhæfingu og draga úr skörun ábyrgðarsviða stjórnsýslustiga.

·Stuðla að samþættingu nærþjónustu við íbúa sveitarfélaga.

·Styrkja sveitarstjórnarstigið.

·Einfalda verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga

Alþýðusambandið styður markmið tilfærslunnar og telur hana geta orðið til góðs fyrir málaflokkinn í heild. Erfitt er að meta til hlítar hvaða áhrif umfangsmiklar breytingar sem þessar munu hafa á þjónustu við fatlað fólk sem og rekstur sveitarfélaganna. Ljóst er að faglegir og fjárhagslegir burðir sveitarfélaga til að takast á við verkefnið eru mjög misjafnir en gert er ráð fyrir að landinu verði skipt upp í þjónustusvæði sem hafi hvert um sig yfir að ráða fjölbreyttum þjónustuúrræðum og fagþekkingu í málaflokknum. Eins og fram kom í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar er ljóst að ekki liggja fyrir fullnægjandi upplýsingar um kostnað ríkisins af þessum málaflokki og fjárhagsleg óvissa því nokkur um kostnað við hann. Mikilvægt er því að fylgst verði náið með áhrifum tilfærslunnar, bæði á gæði og aðgengi að þjónustunni sem og á fjárhag sveitarfélaganna. Þetta er nauðsynlegt til þess að tryggja að fatlað fólk fái nauðsynlega og lögbundna þjónustu hvar sem það er búsett á landinu.

Alþýðusambandið ályktaði eftirfarandi á ársfundi sínum í október sl:

Við flutning á málefnum fatlaðra til sveitarfélaganna þarf að vera tryggt að fjármagn fylgi verkefninu svo að öll sveitarfélögin hafi burði til að veita fötluðum nauðsynlega og lögbundna þjónustu.

Í athugasemd við 2.gr. frumvarpsins er þess getið að stefnt sé að því að eftirlit með framkvæmd laganna verði í höndum sérstakrar stofnunar sem hafi gæðaeftirlit með allri félagslegri þjónustu. Í fyrstu muni velferðarráðherra hins vegar fara með þetta eftirlit og verði sérfræðingi í málefnum fatlaðs fólks í ráðuneytinu falið að annast það. Alþýðusambandið telur mikilvægt að flýta vinnu við að koma eftirliti með þjónustu við fatlað fólk til fagaðila sem hafi jafnframt eftirlit með allri félagslegri þjónustu og tryggi þannig jafnræði og gæði þeirrar þjónustu sem veitt er í þessum viðkvæma málaflokki.

Í greinargerð með frumvarpinu er skýrt frá því að væntanlegt sé frumvarp til breytinga á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna sem feli í sér sólarlagsákvæði hvað varðar aðild þeirra starfsmanna sem flytjast með verkefninu að SFR. Flutningurinn mun ekki hafa áhrif á stéttarfélagsaðild þeirra starfsmanna sem aðild eiga að aðildarfélögum ASÍ. Í þessu samhengi vill ASÍ þó enn og aftur vekja athygli Alþingis á því að enn um sinn hyggjast ríki og sveitarfélög viðhalda ómálefnalegri mismunum í kjörum starfsmanna sinna á þeim grundvelli einum hvaða stéttarfélagi starfsmenn tilheyra.

F.h. Alþýðusambands Íslands

Henný Hinz

hagfræðingur