Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, o.fl.

Reykjavík 10. desember 2009

Tilvísun: 200912-0015

 

Frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, o.fl., 273 mál

Inngangur

Í upphafi er rétt að taka fram að Alþýðusamband Íslands hefur gagnrýnt harðlega hvernig staðið var að gerð þessa frumvarps, sem endurspeglast að nokkru í efni þess. Það hefur tíðkast um langt árabil, óháð skipan ríkisstjórna eða hvaða ráðherrar hafa farið með málefni vinnumarkaðarins, að leitað hefur verið eftir samráði við Alþýðusambandið og aðra aðila vinnumarkaðarins um mál er varða sérstaklega réttindamál launafólks og velferðarkerfið á vinnumarkaði. Jafnframt hafa allir aðilar sem málið varðar leitast við að ná sameiginlegri niðurstöðu sem sátt hefur verið um. Má í þessu sambandi nefna sem dæmi frá síðustu árum lög um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, lög um Ábyrgðarsjóð launa, lög um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum og lög um vinnumarkaðsaðgerðir. Er þá ótalin löggjöf sem sett hefur verið síðustu ár til að styrkja vinnumarkaðinn og koma í veg fyrir félagsleg undirboð. Má segja að hér hafi verð farin sú leið sem Norræna vinnumarkaðsmódelið byggir á, þ.e. að leita sátta og semja um niðurstöðuna ef nokkur kostur er.

Atvinnuleysistryggingar eru eitt af hornsteinum réttindakerfis launafólks. Atvinnuleysistryggingum var upphaflega komið á fyrir baráttu verkalýðshreyfingarinnar eftir mikil átök og langt verkfall. Alla tíð síðan hefur verið viðurkennt að það réttindakerfi sem þá var lagður grunnur að yrði aðeins þróað og því breytt í góðri sátt við samtök launafólks. Enda ljóst að hagsmunir launafólks eru miklir og kostnaðurinn við kerfið greiddur af því og fyrirtækjunum í landinu. Af þessari braut var vikið við undirbúning breytinganna nú. Að vísu tókst á síðustu stundu að koma í veg fyrir alvarlegustu meinbugina á því frumvarpi sem félags- og tryggingamálaráðherra var með í undirbúningi. Eftir standa ýmis álitaefni og athugasemdir sem nánar verður gerð grein fyrir hér á eftir.

Almennt

Almennt má segja um frumvarpið að þar er mikil áhersla lögð á eftirlit Vinnumálastofnunar, refsiheimildir og viðurlög. Það er skoðun Alþýðusambandsins að aðrir eigi ekki að taka atvinnuleysisbætur en atvinnuleitendur í virkri atvinnuleit sem uppfylla skilyrði laganna. Mikilvægt er hins vegar að nálgunin gagnvart atvinnuleitendum sé jákvæð og uppbyggileg enda ljóst að fyrir allan þorra fólks er mikið áfall að missa atvinnuna, sem ekki er á bætandi. Því á nálgunin gagnvart atvinnulausu fólki fyrst og fremst að vera með reglubundinni aðstoð og ráðgjöf og eðlilegum kröfum um skylduvirkni. Með slíkri nálgun greinist frá stærstur hluti þeirra einstaklinga sem eru að taka atvinnuleysisbætur á röngum forsendum. Þá er sjálfsagt að auka almennt eftirlit með og uppræta brotastarfsemi. Ofuráhersla frumvarpsins á eftirlit og viðurlög vekur hins vegar ótta um að vegna skorts á mannafla og úrræðum treysti Vinnumálastofnun sér ekki til að vinna með þeim uppbyggilega og jákvæða hætti sem lögin um vinnumarkaðsaðgerðir kveða á. En mikið hefur skort á í þeim efnum síðustu mánuði eins og dæmin sanna.

Í annan stað er ljóst að þær breytingar er snúa að skertum rétti námsmanna til atvinnubóta í námshléum og reglur varðandi heimild til að stunda nám samhliða töku atvinnuleysisbóta eru umdeilanlegar og kalla á endurskoðun.

Í þriðja lagi eru þættir er varða bráðabirgðaákvæði um greiðslu atvinnuleysisbóta á móti skertu starfshlutfalli sem þarfnast lagfæringa.

1. Ríkari eftirlitsheimildir, auknar skyldur atvinnuleitenda, refsiheimildir og viðurlög

Í frumvarpinu er að finna fjölmörg ákvæði er varða ríkari heimildir Vinnumálastofnunar til eftirlits og skyldur atvinnuleitenda til að mæta kröfum stofnunarinnar. Hér má nefna 1., 4., 6. og 11. gr. frumvarpsins.

Þá er í frumvarpinu að finna fjölmörg ákvæði er lúta að auknum refsiheimildum og harðari viðurlögum við brotum atvinnuleitenda gagnvart ákvæðum um skylduvirkni og ranga upplýsingagjöf. Þannig er t.d. refsing vegna ítrekaðra brota að viðkomandi þarf að starfa í a.m.k. sex mánuði á vinnumarkaði áður en hann öðlast rétt til atvinnuleysisbóta að nýju. Þá eru settar inn heimildir til að halda eftir greiðslum vegna gruns um brot og álag vagna ofgreiddra atvinnuleysisbóta hækkað. Sjá nánar 2., 3., 13., 17., 18., 19., 20., 21., 22., 23. og 24. gr. frumvarpsins.

Alls er þannig með 15 greinum í frumvarpinu bætt við eða aukið við heimildir Vinnumálastofnunar, skyldur atvinnuleitenda og viðurlög af framangreindum toga. Þó er það þannig samkvæmt núgildandi lögum að atvinnuleitendum er almennt skylt að taka þau störf sem bjóðast og greiðsla atvinnuleysisbóta er skilyrt því að atvinnuleitendur taki þátt í vinnumarkaðsúrræðum sem Vinnumálastofnun ákveður. Jafnframt eru til staðar heimildir til að fella atvinnuleitendur af bótum, setja þá á biðtíma eða svipta rétti til atvinnuleysisbóta ef um ítrekuð eða alvarleg brot er að ræða.

Sem dæmi má nefna að efni 1. gr. að frátöldum b lið bætir engu við heimildir núgildandi laga. Sama gildir um b lið 4. og 6. gr. Í 17. til 24. gr. er svo hert verulega á refsingum vegna brota gegn lögunum. Þar er sérstaklega umhugsunarvert að gert er ráð fyrir að hafi einstaklingur einu sinni verið úrskurðaður á biðtíma og brjóti hann síðan af sér að nýju öðlast hann ekki rétt til atvinnuleysisbóta að nýju fyrr en eftir að hann hefur starfað í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði. Ekki er hægt að fullyrða hvaða afleiðingar þessi breyting muni hafa enda mun það ráðast af framkvæmdinni. Hins vegar er ljóst að þær viðurlagaheimildir sem eru í núgildandi lögum hvað þetta varðar hafa lítið sem ekkert verið nýttar að fullu og því vandséð hvað kallar á þessa breytingu. Jafnframt liggur fyrir að heimildin sem nú er sóst eftir er mjög vandmeðfarin.

 

 

2. Námsmenn: Bótaréttur í námshléum fellur niður – takmörkuð heimild til háskólanáms - geymdur bótatími lengist

Í 5. gr. segir að „Sá sem hefur verið skráður í nám, sbr. c-lið 3. gr., á síðustu námsönn án þess að hafa sannanlega lokið náminu og hyggst halda námi áfram á næstu námsönn telst ekki vera í virkri atvinnuleit í námsleyfi samkvæmt kennslu- og/eða námskrá hlutaðeigandi skóla. Hið sama gildir um námsmenn sem skipta um skóla milli námsanna eða fara milli skólastiga.“

Þetta þýðir í reynd að námsmenn, hvort sem um er að ræða nám á framhalds- eða háskólastigi eða að viðkomandi eru að flytjast á milli skólastiga eiga ekki rétt til atvinnuleysisbóta. Hér vakna ýmis álitaefni.

Spurningin er hvort það sé eðlilegt eða sanngjarnt er að setja slík skilyrði, ef námsmaður uppfyllir öll skilyrði laganna um að vera tryggður og í virkri atvinnuleit. Hér er mikilvægt að hafa í huga að ekki er aðeins um grundvallarspurningu að ræða heldur getur í mörgum tilfellum verið um fjölskyldufólk að ræða sem treystir á að framfæra sér með atvinnutekjum yfir sumarmánuðina. Ekki þarf að fjölyrða um möguleg áhrif þessarar breytingar á afkomu þeirra sem þær ná til.

Í 16. gr. frumvarpsins er að finna takmarkaða heimild til að stunda háskólanám á atvinnuleysisbótum. Þar segir: „Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á háskólastigi sem nemur að hámarki 10 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Umsækjandi um atvinnuleysisbætur skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.“

Með þessari breytingu eru tekin af öll tvímæli um það að einstaklingar sem sótt hafa nám samhliða vinnu, s.s. í kvöldskóla eða fjarnámi, umfram 10 ECTS einingar eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum, þótt þeir uppfylli öll önnur skilyrði laganna og þar með að vera í virkri atvinnuleit. Hugsunin með þessari breytingu er væntanlega sú að hvetja viðkomandi til að fara í fullt nám á lánum hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Nokkuð sem ber að hvetja þá til sem möguleika hafa á. Vandinn her hins vegar sá að þetta skilyrði getur líka í mörgum tilfellum hrakið fólk úr námi, þar sem það þarf að velja á milli námsins og réttarins til greiðslu atvinnuleysisbóta. Mjög margir á vinnumarkaði hafa á undanförnum árum verið að sækja sér aukna menntun með þátttöku í alls kyns námstilboðum sem byggja á kvöld- og helgarkennslu, fjarkennslu o.s.frv. samhliða fullu starfi. Þrátt fyrir að viðkomandi nám sé lánshæft er nokkuð ljóst, að viðkomandi einstaklingar gætu ekki framfleytt sér og sinni fjölskyldu á námslánum og verða því að velja milli þess að hætta í námi eða vera ótryggðir gagnvart atvinnuleysisvánni. Þetta er með öllu óásættanlegt, og ekki bætir úr skák sú breyting sem lögð er til með 5. gr. frumvarpsins. Virðast höfundarnir alls ekki hafa áttað sig á þessu samhengi.

Ákvæði 7. gr. um að geymdur bótaréttur námsmanna lengist úr 36 mánuðum í 72 mánuði er til bóta.

3. Bráðabirgðaákvæði um hlutabætur á móti skertu starfshlutfalli

í 25. gr. er kveðið á um að minnkun á starfshlutfalli þurfi að vera minnst 20% og hinn tryggði haldi minnst 50% starfshlutfalli til að ákvæðið eigi við. Ekki er gerð athugasemd við þessa breytingu.

Þá segir í sömu grein að laun og atvinnuleysisbætur mega samanlagt aldrei nema hærri upphæð en 521.318. Í athugasemdum með frumvarpinu er skýrt hvernig þessi upphæð er fundin. Hér skal aðeins bent á að hér er um nokkuð rausnarlegar greiðslur að ræða sé tekið mið af öðrum viðmiðunarfjárhæðum í lögum um atvinnuleysistryggingar, lögum um Ábyrgðarsjóð launa og lögum um fæðingarorlof. Þannig eru rökin fyrir fjárhæðinni þau að miðað sé við að starfsmaður með 800.000 kr. á mánuði sem þurfi að skerða starfshlutfall sitt um helming fá óskertar hlutfallslegar atvinnuleysisbætur á móti 400.000 kr. launum fyrir hálft starf.

Hvað varðar heimild til beitingar þessa bráðabirgðaákvæðis hefur Alþýðusamband Íslands lagt áherslu á að sett yrði inn í lögin að umsókn um bætur þyrfti að fylgja yfirlýsing frá atvinnurekenda um að um tímabundna ráðstöfun væri að ræða (mest 6 mánuðir) sem fæli í sér tímabundna breytingu á ráðningarsamningi og að tímabilinu liðnu mundi fyrri ákvæði ráðningarsamnings um starfshlutfall taka gildi að nýju. Þá mundi upphaflegi ráðningarsamningurinn þegar taka gildi að nýju komi til uppsagnar starfsmanna á tímabilinu. Þannig yrðu tekin af öll tvímæli í þessum efnum. Þessari ósk ASÍ var hafnað án skýringa.

Jafnframt hefur Alþýðusambandið bent á að nauðsynlegt væri að kveða á um það í lögunum að hlutabætur skv. bráðabirgðaákvæðinu skertu ekki bótatímabil atvinnuleysisbóta dag á móti degi heldur væri skerðingin hlutfallsleg. Að óbreyttu er staðan hins vegar sú að starfsmaður sem t.d. hefur verið með skert starfshlutfall um 20% frá nóvember á síðasta ári og verður það fram á mitt næsta ár hefur að þeim tíma liðnum nýtt helminginn af bótatímabili sínu sem er 3 ár. Missi þessi starfsmaður síðan vinnuna á hann í reynd aðeins eftir bótarétt í eitt og hálft ár.

4.Tímaviðmiðunum breytt, ósamrýmanlegar tekjur og tekjur samhliða atvinnuleysisbótum, lágmark starfstíma á innlendum vinnumarkaði og greiðslur úr séreignarsjóði.

Alþýðusambandið hefur lengi verið þeirrar skoðunar að heimila ætti verkalýðshreyfingunni að tryggja félagsmönnum sínum viðbótarréttindi í atvinnuleysi, hvort heldur væri um að ræða lengingu á tekjutengda tímabilinu eða viðbót við grunnbætur. Í allflestum velferðarúrræðum vinnumarkaðarins hefur verkalýðshreyfingin ýmist sjálf eða með kjarasamningi við atvinnurekendur einmitt byggt viðbótarréttindi ofan á lög- og samningsbundinn lágmarksréttindi. Dæmi um þetta er lífeyrissjóðirnir á vinnumarkaði, bæði samtryggingarsjóðirnir á móti almannatryggingum og viðbótarlífeyrisréttindi, veikindaréttur til viðbótar við þau grunnréttindi sem ákvörðuð eru í lögum nr. 19/1979, starfsemi sjúkrasjóðanna, fræðslusjóðir stéttarfélaganna o.s.frv. Þrátt fyrir ýmis ákvæði um tekjutengingar hefur ekki verið komið í veg fyrir slík með lögum, eins og í reynd er gert í lögunum um atvinnuleysistryggingar. Ljóst er að umfang atvinnuleysisins og líkurnar á því að það muni vara lengur nú en áður hefur þekkst leiðir til þess að mikilvægt er að opna fyrir slíka möguleika, því veruleg hætta er á að almenn fátækt fari vaxandi. Því eru ekki neinar efnisástæður til þess að meina verkalýðshreyfingunni að skapa slík viðbótarréttindi í atvinnuleysi. Ekki eru gerðar aðrar athugasemdir við framangreindar breytingar á lögunum.

Virðingarfyllst,

f.h. Alþýðusambands Íslands

Halldór Grönvold,

aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ