Stefna ASÍ

  • Forsíða
  • Stefna ASÍ
  • Umsagnir um þingmál
  • Frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 50/1998, um virðisaukaskatt, brottfall laga nr. 97/1987, um vörugjald, og breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt

Frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 50/1998, um virðisaukaskatt, brottfall laga nr. 97/1987, um vörugjald, og breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt

Reykjavík 10.10.2014
Tilvísun: 201409-0012


Efni: Frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 50/1998, um virðisaukaskatt, brottfall laga nr. 97/1987, um vörugjald, og breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum (kerfisbreyting á virðisaukaskatti, brottfall laga og hækkun barnabóta), 2. mál 

Með frumvarpinu er í fyrsta lagt til að almennt skatthlutfalls virðisaukaskatts verði lækkað úr 25,5% í 24% þann 1. janúar 2015. Í örðu lagi að lægra skatthlutfall virðisaukaskatts hækki úr 7% í 12% þann 1. janúar 2015. Í þriðja lagi að fólksflutningar í afþreyingarskyni verði gerðir skattskyldir frá og með 1. maí 2015 og falli ekki lengur undir undanþáguákvæði laga nr. 50/1998. Í fjórða lagi er í frumvarpinu lagt til að almennt vörugjald verði að fullu afnumið frá og með 1. janúar 2015 og í fimmta lagi eru lagðar til hækkanir á viðmiðunarfjárhæðum og hækkanir á tekjuskerðingarhlutföllum barnabóta á árinu 2015.

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands og fjölmörg aðildarfélög sambandsins hafa á síðustu vikum sent frá sér ályktanir um fjárlagafrumvarp fyrir komandi ár. Ályktanirnar eiga það allar sammerkt að í þeim er lýst verulegri andstöðu við fyrirætlanir um hækkanir virðisaukaskatts á matvörur sem mun koma illa niður á launafólki sem ver stórum hluta tekna sinna til kaupa á nauðsynjum auk þess sem þær takmörkuðu mótvægisaðgerðir sem kynntar eru muni einungis gagnast hluta launafólks. Ályktanir miðstjórnar ASÍ og aðildarfélaga má sjá hér.

Athugasemdir við einstaka þættir frumvarpsins:
Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu munu hafa umtalsverð áhrif á verðlag einstakra vara og ráðstöfunartekjur heimilanna og ljóst að þær munu koma með mjög mismunandi hætti við heimili eftir tekjum og neyslu enda fer mun stærri hluti tekna lágtekjuheimila til kaupa á matvöru en hjá tekjuhærri heimilum.
Þegar útgjöld til kaupa á mat- og drykkjarvörum eru greind eftir tekjutíundum ( þar sem fyrsta tíundin hefur lægstu tekjurnar og sú tíunda hæstu) má sjá að munurinn á því hversu stór hluti ráðstöfunartekna fer til kaupa á matvörum er umtalsverður. Tekjulægstu heimilin nota allt að fimmtungi ráðstöfunartekna sinna til kaupa á mat á meðan tekjuhæstu heimilin nota tæp 10%. Tæplega 5% hækkun á mat- og drykkjarvörum mun því koma einkar illa niður á tekjulágum heimilum sem mörg hver ná ekki endum saman.

Sem aðgerð til að koma til móts við tekjulægri barnafjölskyldur vegna breytinga á virðisaukaskatti og vörugjöldum er í frumvarpinu lög til hækkun á tekjutengdum barnabótum en á móti hækka tekjuskerðingarhlutföll um 1 prósentustig. Skerðingarmörk bótanna eru hins vegar óbreytt þriðja árið í röð sem veldur því að tekjur þeirra sem fá óskertar barnabætur á árinu 2015 er um 6% lægri að raungildi en á árinu 2013. Benda má á að tekjuskerðingarmörk barnabóta eru það lág að barnafjölskyldur sem hafa lágmarkslaun á vinnumarkaði fá ekki óskertar barnabætur.

Þó þessi mótvægisaðgerð komi vissulega að einhverju leyti til móts við tekjulág hjón með börn og einstæða foreldra gagnrýnir Alþýðusambandið harðlega að ekki skuli gripið til neinna mótvægisaðgerða gangvart öðrum viðkvæmum hópum sem hækkun á nauðsynjavörum mun koma afar illa við.
Í greinagerð með frumvarpinu er vísað til úttektar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um virðisaukaskatt og vörugjöld sem gerð var fyrr á þessu ári og umfjöllunar OECD um að virðisaukaskattskerfið sé illa fallið til tekjujöfnunar en heppilegra sé að jafna lífskjör með markvissari hætti í gegnum skattkerfið. AGS bendir sérstaklega á það í skýrslu sinni að við breytingar á kerfinu þurfi að koma til móts við tekjulægri hópa í samfélaginu. Auk þess er í úttekinni bent á að til að vega á móti verðlagsáhrifum breytinga á virðisaukaskattskerfinu og draga úr verðbjögun sé skynsamlegt að afnema vörugjöld og endurskoða tolla á landbúnaðarvörur. Við núverandi breytingar er einungis farið eftir hluta þessara ráðlegginga með afnámi vörugjalda. Það afnám mun einungis hafa mjög takmörkuð áhrif til lækkunar á matvöruverði á móti þeirri hækkun sem breytingar á virðisaukaskatti munu valda en eins og rakið hefur verið koma hækkanir á matvöru annars vegar og lækkun á ýmsum dýrari raftækjum, heimilistækjum og byggingavörum með mjög mismunandi hætti við heimili eftir efni og aðstæðum. Endurskoðun á tollakerfi landbúnaðarvara, sem eru mikilvæg uppistaða í matarinnkaupum flestra heimila, hefði hins vegar verið til þess fallin að vega á móti hækkun á lægra þrepi virðisaukaskatts.

Samkvæmt frumvarpinu er áætlað að breytingin leiði til um 5% hækkunar á matvöru og öðrum vörum sem falla undir lægra þrep virðisaukaskatts en um 1,2% lækkunar á þeim vörum sem falla undir almenna skatthlutfallið auk þeirrar lækkunar sem verður vegna afnáms vörugjalda á þeim vöruflokkum sem bera slíkt gjald. Breytingin er í frumvarpinu talin hafa 0,2% áhrif til lækkunar á vísitölu neysluverðs en í þeim áætlunum er gert ráð fyrir að breytingarnar skili sér allar að fullu út í verðlag til neytenda.

Í þessu samhengi er rétt að hafa í huga að verð er að jafnaði tregbreytanlegra til lækkunar en hækkunar. Þannig má t.a.m. ætla að hækkun á virðisaukaskatti á matvæli úr 7% í 12% muni skila sér hratt út í verðlag en möguleg lækkun á vörugjöldum og efra þrepi virðisaukaskattsins úr 25,5% í 24,5% kunni að skila sér síður. Árið 2007 þegar lægra þrep virðisaukaskatts var lækkað úr 14% í 7% og vörugjöld afnumin af matvörum öðrum en sykri og sætindum fylgdist verðlagseftirlit ASÍ í samstarfi við viðskiptaráðuneytið vel með hvernig sú breyting skilaði sér út í verðlag til neytenda. Niðurstaðan var í stuttu máli sú að aðgerðin skilaði sér einungis að hluta, einkum skilaði lækkun vörugjalda á matvöru sér illa til neytenda, auk þess sem ýmsir minni liðir lækkuðu minna en tilefni var til og ber þar helst að nefna lækkun á verði á hótel- og gististöðum. Þessar aðstæður eiga ekki síst við þegar kaupmenn sjá fram á vaxandi eftirspurn en flestar efnahagsspár eru sammála um að einkaneysla fari vaxandi á komandi misserum og því kann hvatinn til að skila lækkun á neyslusköttum út í verðlag að vera minni en ella. Verði þetta raunin nú verða verðlags- og ráðstöfunartekjuáhrif breytinganna í heild neikvæð.

Til viðbótar má benda á að afnám vörugjalda kann við núverandi aðstæður að hafa ýmsar neikvæðar þjóðhagslegar afleiðingar sem ekki hefur verið lagt mat á. Þær vörur sem nú bera vörugjöld og munu lækka í verði eru að megninu til innfluttar vörur og eftirspurn eftir þeim í flestum tilvikum næm fyrir verðbreytingum þannig að afnám vörugjalda mun að líkindum leiða til aukins innflutnings með neikvæðum áhrifum á viðskiptajöfnuð. Þá mun samkeppnisstaða innlendrar framleiðslu versna í samanburði við innfluttar vörur þar sem innfluttar vörur bera vörugjald af heildarverðmæti varanna á meðan innlend framleiðsla ber einungis vörugjald af innfluttum aðföngum en ekki launum starfsmanna. Þetta mun aftur leiða til verri viðskiptajafnaðar og hafa neikvæð áhrif á atvinnustig. Þessar aðstæður setja aukinn þrýsting á gengi íslensku krónunnar og ýta undir verðbólgu.

F.h. Alþýðusambands Íslands
Henný Hinz,
hagfræðingur