Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingar á lögum, nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum

Reykjavík, 2. mars 2009

Tilvísun: 200902-0020

 

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum, nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, 289 mál.

Alþýðusamband Íslands hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um breytingar á lögum, nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, 289 mál.

Með frumvarpinu eru lagðar til tvær breytingar á 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Í fyrsta lagi er lagt til að einstaklingar geti tímabundið fengið virðisaukaskatt vegna vinnu manna á byggingastað endurgreiddan að fullu. Í öðru lagi að heimilt verði með reglugerð að kveða á um endurgreiðslu ákveðins hlutfalls virðisaukaskatts af verksmiðjuframleiddum húseiningum, til þess að koma á jafnræði milli byggingaaðferða.

Alþýðusamband Íslands mælir eindregið með lögfestingu frumvarpsins.

Atvinnuástand er slæmt og því miður eru horfur á að það versni enn frekar á næstu mánuðum. Atvinnuleysi er mjög mikið í byggingaiðnaði og því mikilvægt að grípa til ráðstafana sem geta aukið atvinnu. Í ljósi þess að frumvarpinu er ætlað að hvetja til aukinnar starfsemi á byggingamarkaði leggur Alþýðusambandið til að ákvæðinu um endurgreiðslu á VSK af vinnu á byggingastað verði einnig látið ná til annars húsnæði í eigu einstaklinga s.s. sumarhúsa.