Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 47/2006 um kjararáð (lækkun launa til samræmis við launaþróun frá 2013)

Reykjavík 14.3 2017
Tilvísun: 201703-0004

Efni: Frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 47/2006 um kjararáð (lækkun launa til samræmis við launaþróun frá 2013), 189. mál


1/ Nauðsynlegar breytingar á lögum um kjararáð
Alþýðusambandið telur brýnt að gera breytingar á lögum um kjararáð og studdi frumvarp sem lagt var fram þess efnis sl. haust. (871. mál á 145. löggjafarþingi).

Í því samhengi benti ASÍ á að nauðsynlegt væri að kveðið yrði á um það með skýrum hætti í lögunum að gera skuli grein fyrir og birta opinberlega úrskurði kjararáðs sem og ákvarðanir ráðherra eða sérstakrar starfseiningar sem ákvarðar forsendur launaákvarðana embættismanna og forstöðumanna ríkisstofnanna. Þá telur ASÍ að æskilegt sé að gera kröfu til þess að nefndarmenn í kjararáði hafi þekkingu á málefnum vinnumarkaðarins.

2/ Krafa um endurskoðun á ákvörðunum kjararáðs
Alþýðusambandið hefur á liðnum mánuðum ítrekað sett fram kröfu um að Alþingi grípi inn í ákvarðanir kjararáðs um kjör ráðamanna og æðstu embættismanna frá undanförnum mánuðum, enda gangi þær þvert á þá sameiginlegu launastefnu sem ríki og sveitarfélög undirgengust að fylgja í kjarasamningum við sína starfsmenn með undirritun rammasamkomulagsins í október 2016. Það er því sjálfsögð og eðlileg krafa að slíkt hið sama eigi við um þjóðkjörna fulltrúa.

Miðstjórn ASÍ hefur ítrekað ályktað um úrskurði kjararáðs og í ályktun frá 24. ágúst sl. segir:
Miðstjórn Alþýðusambands Íslands mótmælir harðlega nýlegum úrskurðum kjararáðs þar sem embættismönnum og forstöðumönnum ríkisstofnana eru úrskurðaðir tugprósenta launahækkanir í einu vetfangi. Niðurstaða kjararáðs gengur þvert á sameiginlega launastefnu sem samið var um á vinnumarkaði og lá til grundvallar vinnu aðila vinnumarkaðar um mótun nýs samningalíkans. Með þegjandi samþykki sínu gefa stjórnvöld launafólki langt nef og grafa undan viðræðum aðila vinnumarkaðarins um nýtt samningamódel sem byggir á stöðuleika og öruggri kaupmáttaraukningu.
Miðstjórn ASÍ áréttar að það kemur ekki til greina að tekjuhæstu hópar samfélagins fái sérstaka meðferð og deili ekki kjörum með almenningi í landinu – um slíkt verður engin sátt. Okkar félagsmenn munu ekki sætta sig við að skapa jarðveg fyrir stöðugleika og aukna verðmætasköpun með ábyrgum launahækkunum til þess að hátekjuhópar geti á einu bretti fengið hækkanir sem nema mánaðarlaunum margra félaga okkar.
Hér er á ferðinni versta birtingarmynd þess ranglætis sem við höfum alltof lengi búið við. Það er löngu tímabært að þeir sem telja sig vera yfirstétt þessa lands geri sér grein fyrir því að nú þurfa þeir eins og aðrir að taka afstöðu til þess hvort þeir vilja byggja hér upp samfélag þar sem jafnræði ríkir í launamálum. Til þess þurfum við hugarfarsbreytingu sem felst í norrænu fyrirmyndinni og tímabært að stjórnvöld horfist í augu við alvarlegar afleiðingar þessara úrskurða.

Fyrir liggur að úrskurðir kjararáðs voru einn þeirra þátta sem ollu því að forsendur kjarasamninga á almennum vinnumarkaði voru brostnar við endurskoðun samninganna í lok febrúar sl. Það var hins vegar mat samninganefndar ASÍ að segja ekki upp samningum að sinni heldur fresta mati á þeirri forsendu sem snýr að mati á launastefnu og stefnumörkun launahækkana til febrúar 2018.

Að óbreyttri niðurstöðu kjararáðs liggur sömuleiðis fyrir að ekki verður af frekara samtali milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um breytt og bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga hér á landi. Í sameiginlegri yfirlýsingu samninganefndar aðildarsamtaka ASÍ og framkvæmdastjórnar SA við endurskoðun kjarasamninga þann 28.febrúar sl. segir:
Þá er ljóst að ákvarðanir kjararáðs setja áframhaldandi samtal aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um endurbætur á íslenska samningalíkaninu í verulegt uppnám og að óbreyttu verður þeim ekki haldið áfram. Í það er þó sameiginlegt mat ASÍ og SA að forsenda þess að unnt verði að taka á ný upp vinnu við mótun nýs samningalíkans sé að laun kjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna verði breytt frá ákvörðun kjararáðs á árinu 2016 og þróist á grundvelli sömu launastefnu og mótuð var með rammasamkomulaginu með tilvísun í nóvember 2013 sem grunnviðmiðun.

Virðingarfyllst,
Henný Hinz
hagfræðingur ASÍ