Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingar á lögum, nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands

Reykjavík, 2. mars 2009
Tilvísun: 200902-0016

 

Efni: Frumvarp til laga um breytingar á lögum, nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands, 280 mál

Í athugasemdum við frumvarpið segir m.a.:

„Með frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði breytingar á stjórnskipulagi Seðlabanka Íslands. Breytingar hafa það að markmiði að tryggja að í bankanum sé starfandi fagleg yfirstjórn og þar með tryggt að faglega sé staðið að ákvarðanatöku við beitingu stjórntækja bankans í peningamálum.“

Síðar í greinargerðinni segir:

„Ljóst er að þörf er á verulegri uppstokkun og endurnýjun í yfirstjórn Seðlabanka Íslands eftir þau áföll sem þjóðarbúið og um leið bankinn hefur orðið fyrir á undanförnum mánuðum.“

Þetta er í samræmi við áherslur ASÍ sem koma fram í ályktun ársfundar ASÍ um aðgerðir til að endurheimta fjármálastöðugleika og auka trúverðugleika frá 24.10.2008. Í ályktuninni segir m.a.:

„Byggja þarf upp traust á Seðlabanka Íslands og stjórn hans. Í því sambandi er mikilvægt að tryggja að fagmennsku í stjórn bankans. Taka verður til endurskoðunar hvernig staðið er að ráðningu bankastjóra.“

ASÍ tekur því undir meginatriði frumvarpsins en gerir þó þrjár athugasemdir við frumvarpið:

1. Samkvæmt 3. gr. frumvarpsins skal seðlabankastjóri hafi lokið meistaraprófi í hagfræði og búa yfir víðtækri reynslu og þekkingu á peningamálum. Að mati ASÍ er hér um óþarflega þröng menntunarskilyrði að ræða. Eðlilegra er að gera þá kröfu að seðlabankastjóri hafi meistarapróf í hagfræði eða sambærilega menntun og gera jafnframt þá kröfu að viðkomandi búi yfir víðtækri reynslu og þekkingu á peningamálum.

2. Samkvæmt 4. gr. frumvarpsins skipar seðlabankastjóri tvo sérfræðinga á sviði peningamála til setu í peningastefnunefnd til þriggja ára í senn að fenginni staðfestingu forsætisráðherra. Aðrir tveir nefndarmenn eru yfirmenn bankans og þar með undirmenn seðlabankastjóra. Til að tryggja betur sjálfstæði þeirra sérfræðinga sem koma utan frá gagnvart seðlabankastjóra er heppilegra að þeir séu skipaðir beint af bankaráði eða ráðherra.

3. Eðlilegt er að gera sömu hæfniskröfur til þeirra sem sitja í peningastefnunefnd og til seðlabankastjóra, þ.e. að viðkomandi hafi meistarapróf í hagfræði eða sambærilega menntun og búi yfir víðtækri reynslu og þekkingu á peningamálum

ASÍ telur afar mikilvægt að eyða þeirri óvissu sem er um Seðlabankann og yfirstjórn hans sem allra fyrst og telur því mikilvægt að frumvarpið verði að lögum sem fyrst.