Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingar á lögum, nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum (skilyrði til greiðslu örorkulífeyris og fjárfestingarheimildir)

Reykjavík 6.12.2013
Tilvísun: 2013-110054


Efni: Frumvarp til laga um breytingar á lögum, nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum (skilyrði til greiðslu örorkulífeyris og fjárfestingarheimildir), 177. mál.

Efni frumvarpsins er þríþætt. Í fyrsta lagi er lagt til að sett verði inn ákvæði sem heimila lífeyrissjóðum að skilyrða rétt til örorkubóta við að viðkomandi sjóðfélagi taki þátt í endurhæfingu sem bætt gæti heilsufar hans. Í öðru lagi er lagt til að, greiði launagreiðandi inn á skuldbindingu við lífeyrissjóð með bakábyrgð ríkis eða sveitarfélags með óskráðu skuldabréfi verði sjóðnum heimilt að eiga slík bréf óháð takmörkunum 36. gr. laganna. Í þriðja lagi er lagt til að heimild lífeyrissjóða til að eiga allt að 20% í samlagshlutafélagi verið framlengd til ársloka 2014.
 
Varðandi 1. gr. frumvarpsins er vísað til umsagnar Alþýðusambands Íslands um 469. mál á 141. löggjafarþingi. Sú umsögn sem hér er veitt er efnislega samhljóða.  Alþýðusambandið telur umrædda breytingu mikilvæga og í samræmi við það umfangsmikla breytingarferli nú stendur yfir til að auka tækifæri þeirra einstaklinga sem vegna veikinda og slysa missa hluta af starfsgetu sinni. Meginmarkmið þessara breytinga hefur verið að auka áherslu á virkni og endurhæfingu þeirra sem missa starfsorkuna. Alþingi hefur þegar gert ámóta breytingar í lögum um félagslega aðstoð, þar sem samskonar skilyrði hafa verið sett. Fjármálaráðuneyti og Fjármálaeftirlit hafa talið að núgildandi lagaákvæði komi í veg fyrir að lífeyrissjóðir setji slík skilyrði, þótt þau hafi víða verið í gildi í reglugerðum sjóðanna um árabil.

Alþýðusambandið telur hins vegar að orðalag umræddrar tillögu sé of þröngt m.a. með vísan í lög um starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, en samkvæmt þeim eiga slíkir sjóðir að standa fyrir umfangsmikilli starfsendurhæfingu og því mikilvægt að taka tillit til þess í lagatextanum, þótt margir lífeyrissjóðir byggi enn sem komið er örorkuúrskurði sína á umsögn trúnaðarlækna. Stefnt er að því að mat á vinnugetu verði í framtíðinni byggt á umfjöllun sérstaks teymis sérfræðinga, en unnið er að mótun verklagsreglna um slíkt mat þar sem áhersla er lögð á að draga fram jákvæða þætti í stöðu og framtíðartækifærum viðkomandi einstaklinga. Lagt er til að ákvæði 1 gr. verði orðað með eftirfarandi hætti:

Á eftir 5. mgr. 15. gr. laganna komi ný málsgrein, svohljóðandi:
Heimilt er, að fengnu áliti trúnaðarlæknis lífeyrissjóðs eða annarra sérfræðinga í starfsendurhæfingu sem sjóðurinn leitar til, að setja það skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris að sjóðfélagi fari í endurhæfingu sem bætt gæti starfsgetu hans.

Rétt er einnig að vekja athygli á því að Alþýðusambandið telur að bráðabirgðarákvæði XV í lífeyrissjóðalögunum sem kveður á um að greiðsla lífeyrissjóða til starfsendurhæfingarsjóða hafi ekki áhrif á tryggingarfræðilega  stöðu lífeyrissjóðanna fram til ársins 2017 sé fremur íþyngjandi en ívilnandi gagnvart tryggingafræðilegri stöðu þeirra. Talnakönnun gerði sérstaka athugun á því fyrir stjórn VIRK starfsendurhæfingarsjóðs hvaða ávinning samfélagið, þ.e. ríkissjóður, lífeyrissjóðir og einstaklingar, hefðu af aukinni áherslu á endurhæfingu og endurkomu þeirra sem lenda í alvarlegum veikindum og slysum á vinnumarkað. Af þeirri athugun er ljóst að ávinningurinn er umtalsvert meiri en sem nemur kostnaði, sérstaklega hjá ríkissjóði og lífeyrissjóðum. Eðlilegra væri að fela efnahags- og fjármálaráðherra að endurskoða reglugerðina um tryggingafræðilegt mat lífeyrissjóðanna, þar sem tillit yrði tekið til bæði væntanlegs ávinnings og meints kostnaðar af starfsendurhæfingu til þess að fá raunhæfara mat á örorkubyrði sjóðanna.

Varðandi 2. og 3. gr. frumvarpsins ítrekar Alþýðusambandið afstöðu sína til mikilvægis þess að farið sé varlega við veitingu heimilda til fjárfestinga í óskráðum bréfum og mikilvægi þess að ekki sé veitt undanþága frá þeim skilyrðum að ekki séu hömlur á viðskiptum með eignir sjóðanna. Þrátt fyrir að fjárfestingarkostum lífeyrissjóðanna hafi fækkað frá bankahruni og áhrif gjaldeyrishaftanna takmarki einnig möguleika þeirra til fjárfestinga, er nauðsynlegt að áfram séu viðhöfð meginsjónarmið laganna um áhættudreifingu og varfærni í fjárfestingum lífeyrissjóðanna.

Alþýðusambandið hvetur sömuleiðis til þess að farið verði að tillögum úttektarnefndar Landssamtaka lífeyrissjóða og lokið verði vinnu við heildarendurskoðun á fjárfestingarkafla lífeyrissjóðalaganna.


F.h. Alþýðusambands Íslands
Henný Hinz,
hagfræðingur