Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingar á lögum, nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum

Reykjavík 30. mars 2010

Tilvísun: 201003-0015

 

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum, nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum, 288. mál.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að horfið verði frá því að fyrirkomulag á vali stjórnarmanna í lífeyrissjóðum sé á forræði þeirra aðila sem að sjóðnum standa og kveðið er á um í samþykktum hvers sjóðs. Um þennan þátt hafa aðilar vinnumarkaðarins, sem standa að sjóðum launafólks á almennum vinnumarkaði, gert með sér kjarasamning allt frá árinu 1969.

Alþýðusamband Íslands leggst gegn frumvarpinu sem gengur þvert á ákvæði heildarkjarasamnings aðila vinnumarkaðarins um málefni lífeyrissjóðanna og lítur á það sem alvarlegt inngrip í gildandi kjarasamninga. Jafnframt lýsir Alþýðusambandið yfir miklum efasemdum um að ákvæði frumvarpsins muni í reynd verða til þess að auka lýðræði í lífeyrissjóðunum sem breytingunum er ætlað að tryggja samkvæmt greinargerð frumvarpsins.

Í kjarasamningi aðila vinnumarkaðarins er kveðið á um að lífeyrissjóðir skuli starfræktir á stéttarfélagsgrundvelli og endurspeglar samningurinn þá áherslu að rekstur og gæsla lífeyrissjóða launafólks á almennum vinnumarkaði sé á sameiginlegri ábyrgð atvinnurekenda og launafólks. Stjórnkerfi sjóðanna byggir á fulltrúalýðræði þar sem kjörnir fulltrúar þeirra samtaka sem að sjóðnum standa kjósa stjórnarmennina, en líkt og við gerð kjarasamninga ríkir jafnræði milli launafólks og atvinnurekenda. Aðilar vinnumarkaðarins eru og hafa verið bakhjarlar í uppbyggingu og þróun íslenska lífeyrissjóðakerfisins sem tryggt hefur að umfjöllun um þróun þess er nátengd þróun launa og annarra kjara. Hefur það fyrirkomulag reynst vel á undanförum áratugum og tryggt Íslendingum lífeyrissjóðskerfi í fremstu röð. Með því samkomulagi sem undirritað var árið 1969 um stofnun og starfrækslu lífeyrissjóða fyrir allt launafólk í landinu, sýndu aðilar vinnumarkaðarins mikla framsýni og ábyrgð sem bætt hefur kjör lífeyrisþega til muna og komið í veg fyrir að lífeyrisbyrði komandi kynslóða verði velt yfir á sífellt minnkandi kynslóðir vinnandi fólks í framtíðinni.

Verði kjör til stjórna lífeyrissjóðanna með þeim hætti sem boðað er í frumvarpinu er með engu móti tryggt að allir hópar sem að sjóðnum standa eigi sér fulltrúa innan stjórnar. Þetta getur auðveldlega leitt til átaka milli einstakra hópa innan sjóðanna, s.s. mismunandi aldurshópa eða starfsstétta og jafnvel kynja, sem hafa oft á tíðum mjög misjafnra hagsmuna að gæta. Stjórnarmenn yrðu samkvæmt frumvarpinu kjörnir sem einstaklingar inn í stjórnir sjóðanna en ekki sem fulltrúar fyrir ákveðinn hóp launamanna annars vegar og atvinnurekenda hins vegar. Með núverandi fyrirkomulagi er tryggt, með samkomulagi þeirra aðila sem að sjóðnum standa, að sjónarmið allra hagsmunaaðila endurspeglist á ársfundi og inni í stjórn sjóðsins sem er nauðsynleg forsenda fyrir sæmilegri sátt innan þeirra. Þetta viðheldur sömuleiðis mikilvægum tengslum aðila vinnumarkaðarins við lífeyrissjóðakerfið sem tryggt hefur ábyrgð þeirra og íhlutun með viðhaldi og framgangi kerfisins á hverjum tíma. Þessi tengsl hafa skilað sér í því að hér á landi hefur verið byggt upp almennt samtryggingarkerfi með sjóðasöfnum þar sem öllum launamönnum er tryggður jafn aðgangur óháð þáttum eins og kyni, aldri, heilsufari og fjölskylduaðstæðum. Þetta er ekki sjálfgefið og hefur skapað vandamál hjá mörgum nágrannaþjóða okkar sem glíma nú við mikinn vanda vegna þungra lífeyrisbyrða sem að óbreyttu munu leggjast á komandi kynslóðir.

Í stórum lífeyrissjóðum fengju, samkvæmt þeim hugmyndum sem settar eru fram í frumvarpinu, hundruð þúsunda manna atkvæðisrétt út á það eitt að hafa einhverju sinni greitt inn til sjóðsins og flestir launamenn fengju að líkindum atkvæðisrétt í mörgum sjóðum. Þannig fengi einstaklingur sem greiðir til ákveðins lífeyrissjóðs tímabundið um skamma hríð, sama atkvæðisrétt og sá sem greitt hefur lungann úr starfsævi sinni til sjóðsins og á þar megnið af lífeyrisréttindum sínum. Í ljósi þess að starfsleyfi lífeyrissjóðanna byggir á samblandi áfallinna réttinda og framtíðarréttinda sjóðfélaga, sem er grundvallarforsenda í sjóðasöfnunarkerfi, er sömuleiðis áleitið hvernig fyrirkomulag atkvæðisréttar skuli háttað í slíku kerfi til að tryggja að jafnræði sé með kynslóðum og starfshópum sem til sjóðsins greiða. Ef tilgangurinn er að auka lýðræði í sjóðunum er vandséð með hvaða hætti þær breytingar sem frumvarpið boðar muni stuðla að því.

Við þetta má einnig bæta að í stórum lífeyrissjóðum yrði bæði erfitt og kostnaðarsamt að koma kynningu á frambjóðendum til alls þess fjölda sjóðfélaga sem hefði atkvæðisrétt. Ljóst er að það útheimtir talsverða fjárhagslega burði sem hlýtur að vekja spurningar um hvernig jafnræði og möguleikar sjóðfélaga til framboðs yrðu í reynd.

Alþýðusamband Íslands leggst því alfarið gegn þeim breytingum á fyrirkomulagi stjórnarkjörs í lífeyrissjóðum sem frumvarpið kveður á um. Með frumvarpinu er án alls samráðs hlutast til um skipulag sem grundvallast á frjálsum kjarasamningi milli aðila vinnumarkaðarins. Þessir aðilar munu, hér eftir sem hingað til, gegna mikilvægu hlutverki við að tryggja rekstur og viðgang lífeyriskerfisins og því vekur það furðu að lagðar séu fram tillögur um slíkar grundvallarbreytingar án alls samráðs við þessa aðila. Lífeyrissjóðir almenna vinnumarkaðarins mynda þann hluta lífeyriskerfisins sem rekinn er á ábyrgan hátt og grundvallast á því að á hverjum tíma standi eignir undir skuldbindingum og vandanum sé ekki velt áfram á aðra hópa eða framtíðar kynslóðir. Staða lífeyrissjóða sem njóta bakábyrgðar opinberra aðila, sem eru fyrst og fremst sjóðir opinberra starfsmanna, er hins vegar sú að íslenskir skattgreiðendur eru nú ábyrgir fyrir ríflega 500 milljarða króna skuldbindingu umfram eignir í þessum sjóðum. Réttara væri að kjörnir fulltrúar þjóðarinnar einbeittu sé að því leysa þennan vanda í stað þess að ráðast að innviðum almennu lífeyrissjóðanna.

 

F.h. Alþýðusambands Íslands

_______________________________

Henný Hinz

hagfræðingur