Stefna ASÍ

  • Forsíða
  • Stefna ASÍ
  • Umsagnir um þingmál
  • Frumvarp til laga um breytingar á lögum, nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum (hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra, fjárfestingarheimildir)

Frumvarp til laga um breytingar á lögum, nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum (hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra, fjárfestingarheimildir)

Reykjavík 2.maí 2011

Tilvísun: 201104-0033

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum, nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum (hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra, fjárfestingarheimildir), 704. mál.

Meginefni frumvarpsins er tvíþætt. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar sem lúta að því að þrengja hæfisskilyrði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra lífeyrissjóða og koma í veg fyrir svonefnda krossstjórnarsetu á fjármálamarkaði. Þessar breytingar eru til samræmis við þær breytingar sem gerðar voru á hæfisskilyrðum stjórnarmanna í lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um vátryggingarfélög á 138. löggjafarþingi. Í öðru lagi er lagt til að heimildir til fjárfestinga í óskráðum hlutabréfum fyrirtækja verði rýmkaðar tímabundið til ársloka 2015 þannig að heimilt verði að fjárfesta allt að 20% af hreinni eign lífeyrissjóðs í slíkum bréfum þrátt fyrir að hömlur séu á viðskipti með bréfin.

Ákvæði í 1.gr. frumvarpsins sem lúta að þrengri hæfisskilyrðum stjórnarmanna og framkvæmdastjóra eru í meginatriðum til bóta og skýringar. Í 5.mgr. 1.gr. er lagt til að þrátt fyrir þá meginreglu að stjórnarmenn í lífeyrissjóði eigi ekki sæti í stjórn annars eftirlitsskylds aðila, geti stjórnarmanni í lífeyrissjóði verið heimilt að sitja í stjórn annars lífeyrissjóðs að fengnu samþykki FME, enda gæti verið hagur í því t.d. þegar um sambærileg flókin réttindakerfi er að ræða. Ekki verður séð að atriði eins og flókin réttindakerfi séu nægjanleg rök fyrir því að sami einstaklingurinn sitji í stjórnum tveggja aðskildra lífeyrissjóða sem eru hvor um sig sjálfstæður eftirlitsskyldur aðili. Almennt mætti halda því fram, að tryggingarfræðilegar forsendur séu flókin viðfangsefni og því vandséð á hvaða grundvelli FME ætti að fara með þetta vald og skera úr hvenær skilyrði eru uppfyllt.

Í 3.gr. frumvarpsins er lagt til að þrátt fyrir ákvæði 2. málslið, 3 mgr. 36 gr. verði lífeyrissjóðum heimilt til 31. desember 2015 að fjárfesta í óskráðum hlutabréfum fyrirtækja þrátt fyrir að hömlur séu á viðskiptum með bréfin. Alþýðusambandið telur mikilvægt að farið sé afar varlega með að veita lífeyrissjóðunum heimildir til slíkra fjárfestinga og leggur áherslu á að gerður verði greinarmunur á félögum sem séu stofnuð til að gegna tímabundnu og afmörkuðu verkefni – líkt og fjárfestingasjóðum í óskráðum hlutafélögum – og einstaka fyrirtækjum sem standa í hefðbundnum rekstri. Alþýðusambandið leggst þannig alfarið gegn slíkri breytingu gagnvart einstaka fyrirtækjum í almennum rekstri og telur að hér sé um allt of víðtækar heimildir til fjárfestinga í bréfum sem ekki eru virk viðskipti með og verðmyndun á markaði.

Lífeyrissjóðir ættu því á hættu að afar takmarkaðir möguleika væru til að losa slík bréf ef þörf er á sem aftur hamlar mjög eðlilegri verðmyndun eignarinnar. Að sama skapi er nauðsynlegt að vara við þessu tímabundna ákvæði, ef lífeyrissjóðir nýta sér þessa nýfengnu heimild er ólíklegt að þeir hafi nokkra stöðu til þess að selja bréfin aftur fyrir lok ársins 2015 – enda hömlur á viðskiptum með bréfin.

Ef marka má umræðuna í þjóðfélaginu má ætla að hugmyndin að baki sé sú að opna fyrir fjárfestingu lífeyrissjóðanna í orkufyrirtækjum, s.s. HS orku. ASÍ telur að í marga staði séu slíkar fjárfestingar áhugaverðir langtíma fjárfestingarkostir fyrir sjóðina, en setur sig á móti því að það sé gert í formi hlutabréfakaupa og ítrekar þá stefnu sína að orkugeirinn verði ekki einkavæddur. Mun skynsamlegra er hins vegar að leita annarra leiða í þeim efnum. Má þar m.a. benda á að aðkoma sjóðanna með eigið fé gæti t.d. verið í gegnum víkjandi lán í verkefnafjármögnun eða með öðrum þeim hætti sem tryggir að sjóðirnir lokist ekki inni með fjárfestingu sína í eignum með ógagnsærri verðmyndun.

Þrátt fyrir að fjárfestingarkostum lífeyrissjóðanna hafi fækkað frá bankahruni og áhrif gjaldeyrishaftanna takmarki einnig möguleika þeirra til fjárfestinga, er mikilvægt að áfram séu viðhöfð meginsjónarmið laganna um áhættudreifingu og varfæri í fjárfestingum lífeyrissjóðanna. Því telur Alþýðusambandið fulla ástæðu til þess að áfram séu skilyrði um það í lögunum að ekki séu hömlur á viðskiptum með eignir sjóðanna og að ekki verði veitt tímabundin undanþága frá því skilyrði laganna.

 

F.h. Alþýðusambands Íslands

Henný Hinz

hagfræðingur