Stefna ASÍ

  • Forsíða
  • Stefna ASÍ
  • Umsagnir um þingmál
  • Frumvarp til laga um breytingar á lögum, nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum (eignarhald, lýðræði í lífeyrissjóðum)

Frumvarp til laga um breytingar á lögum, nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum (eignarhald, lýðræði í lífeyrissjóðum)

Reykjavík 7.október 2015
Tilvísun: 201509-0013


Efni: Frumvarp til laga um breytingar á lögum, nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum (eignarhald, lýðræði í lífeyrissjóðum), 7. mál

Frumvarpið gerir ráð fyrir að horfið verði frá því að val stjórnarmanna í lífeyrissjóðum sé á forræði þeirra aðila sem að sjóðnum standa og kveðið er á um í samþykktum hvers sjóðs. Um þennan þátt hafa aðilar vinnumarkaðarins, sem standa að sjóðum launafólks á almennum vinnumarkaði, gert með sér kjarasamning allt frá árinu 1969.

Alþýðusamband Íslands leggst gegn frumvarpinu sem gengur þvert á ákvæði heildarkjarasamnings aðila vinnumarkaðarins um málefni lífeyrissjóðanna og lítur á það sem alvarlegt inngrip í gildandi kjarasamninga. Jafnframt lýsir Alþýðusambandið yfir miklum efasemdum um að ákvæði frumvarpsins muni í reynd verða til þess að auka lýðræði í lífeyrissjóðunum sem breytingunum er ætlað að tryggja samkvæmt greinargerð frumvarpsins.

Í kjarasamningi aðila vinnumarkaðarins er kveðið á um að lífeyrissjóðir skuli starfræktir á stéttarfélagsgrundvelli og endurspeglar samningurinn þá áherslu að rekstur og gæsla lífeyrissjóða launafólks á almennum vinnumarkaði sé á sameiginlegri ábyrgð atvinnurekenda og launafólks. Stjórnkerfi sjóðanna byggir á fulltrúalýðræði þar sem kjörnir fulltrúar þeirra samtaka sem að sjóðnum standa kjósa stjórnarmennina, en líkt og við gerð kjarasamninga ríkir jafnræði milli launafólks og atvinnurekenda. Sjóðfélagar hafa þannig aðkomu að vali á fulltrúum sínum í lífeyrissjóðunum í gegnum stéttarfélög sín. Aðilar vinnumarkaðarins eru og hafa verið bakhjarlar í uppbyggingu og þróun íslenska lífeyrissjóðakerfisins sem tryggt hefur að umfjöllun um þróun þess er nátengd þróun launa og annarra kjara. Hefur það fyrirkomulag reynst vel á undanförum áratugum og tryggt Íslendingum lífeyrissjóðskerfi í fremstu röð. Með því samkomulagi sem undirritað var árið 1969 um stofnun og starfrækslu lífeyrissjóða fyrir allt launafólk í landinu, sýndu aðilar vinnumarkaðarins mikla framsýni og ábyrgð sem bætt hefur kjör lífeyrisþega til muna og komið í veg fyrir að lífeyrisbyrði komandi kynslóða verði velt yfir á sífellt minnkandi kynslóðir vinnandi fólks í framtíðinni. Sú söguskýring sem sett er fram í greinagerð frumvarpsins, um að hvatinn að stofnun almennu lífeyrissjóðanna hafi fremur verið skortur á lánsfé en þörf fyrir lífeyrir, er afar hæpin. Fyrir gerð kjarasamnings aðila vinnumarkaðarins um stofnun almennu lífeyrissjóðanna var ellilífeyrir verkafólks og sjómanna, sem áttu engin lífeyrisréttindi önnur en í almannatryggingakerfinu, um fjórðungur af dagvinnukaupi verkafólks. Það var því útilokað fyrir almennt launafólk sem lokið hafði starfsævinni að sjá sér farborða af lífeyrinum einum saman. Margir drógu í lengstu lög að láta af störfum þrátt fyrir aldur og bága heilsu og eldra fólk var margt algerlega háð afkomendum sínum um framfærslu. Það var við þessar aðstæður sem forystumenn verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda sömdu um stofnun lífeyrissjóða fyrir allt launafólk og fjarri sanni að segja að hvatinn að þeim samningum hafi ekki verið knýjandi þörf á úrbótum í lífeyrismálum sem tryggðu eldra fólki sjálfstæði og fjárhagslegu öryggi.

Verði kjör til stjórna lífeyrissjóðanna með þeim hætti sem boðað er í frumvarpinu er með engu móti tryggt að allir hópar sem að sjóðnum standa eigi sér fulltrúa innan stjórnar. Þetta getur auðveldlega leitt til átaka milli einstakra hópa innan sjóðanna, s.s. mismunandi aldurshópa eða starfsstétta og jafnvel kynja, sem hafa oft á tíðum mjög misjafnra hagsmuna að gæta. Stjórnarmenn yrðu samkvæmt frumvarpinu kjörnir sem einstaklingar inn í stjórnir sjóðanna en ekki sem fulltrúar fyrir ákveðinn hóp launamanna annars vegar og atvinnurekenda hins vegar. Núverandi fyrirkomulag tryggir, í gegnum samkomulag þeirra aðila sem að sjóðnum standa, að sjónarmið allra hagsmunaaðila endurspeglist á ársfundi og inni í stjórn sjóðsins sem er nauðsynleg forsenda fyrir sæmilegri sátt innan þeirra. Þetta viðheldur sömuleiðis mikilvægum tengslum aðila vinnumarkaðarins við lífeyrissjóðakerfið sem tryggt hefur ábyrgð þeirra og íhlutun með viðhaldi og framgangi kerfisins á hverjum tíma. Þessi tengsl hafa skilað sér í því að hér á landi hefur verið byggt upp almennt samtryggingarkerfi með sjóðasöfnum þar sem öllum launamönnum er tryggður jafn aðgangur óháð þáttum eins og kyni, aldri, heilsufari og fjölskylduaðstæðum. Þetta er ekki sjálfgefið og hefur skapað vandamál hjá mörgum nágrannaþjóða okkar sem glíma nú við mikinn vanda vegna þungra lífeyrisbyrða sem að óbreyttu munu leggjast á komandi kynslóðir.

Í stórum lífeyrissjóðum fengju, samkvæmt þeim hugmyndum sem settar eru fram í frumvarpinu, tugir þúsunda manna atkvæðisrétt út á það eitt að hafa einhverju sinni greitt inn til sjóðsins og flestir launamenn fengju að líkindum atkvæðisrétt í mörgum sjóðum. Þá er gert ráð fyrir að atkvæðisréttur sjóðfélag fari eftir áunnum og framreiknuðum iðgjöldum sem veitir tekjuhærri sjóðfélögum eðli máls samkvæmt meira atkvæðavægi en þeim tekjulægri. Áleitið er hvort slíkt fyrirkomulag tryggi jafnræði milli sjóðfélag og starfshópa sem til sjóðsins greiða.

Við þetta má einnig bæta að í stórum lífeyrissjóðum yrði bæði erfitt og kostnaðarsamt að koma kynningu á frambjóðendum til alls þess fjölda sjóðfélaga sem hefði atkvæðisrétt. Ljóst er að það útheimtir talsverða fjárhagslega burði sem hlýtur að vekja spurningar um hvernig jafnræði og möguleikar sjóðfélaga til framboðs yrðu í reynd.

Ef tilgangurinn er að auka lýðræði í sjóðunum er vandséð með hvaða hætti þær breytingar sem frumvarpið boðar muni stuðla að því.

Varðandi 1. og 2. gr. grein frumvarpsins: Merking ákvæðanna um eign sjóðfélaga á lífeyrissjóði er óljós. Lífeyrissjóðir þeir sem lög þessi ná til eru samtryggingarsjóðir og eru þeir sameign sjóðfélaga.

Alþýðusamband Íslands leggst alfarið gegn þeim breytingum á fyrirkomulagi stjórnarkjörs í lífeyrissjóðum sem frumvarpið kveður á um. Með frumvarpinu er án alls samráðs hlutast til um skipulag sem grundvallast á frjálsum kjarasamningi milli aðila vinnumarkaðarins. Þessir aðilar munu, hér eftir sem hingað til, gegna mikilvægu hlutverki við að tryggja rekstur og viðgang lífeyriskerfisins og því vekur það furðu að lagðar séu fram tillögur um slíkar grundvallarbreytingar án alls samráðs við þessa aðila.

F.h. Alþýðusambands Íslands
Henný Hinz
hagfræðingur