Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingar á lögum, nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Reykjavík 7.11.2014
Tilvísun: 201410-0039


Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum, nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum ( fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða), 30. mál.

Með frumvarpinu er lagðar til breytingar á 36. gr. laganna, um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða, sem heimili að sjóðirnir fjárfesti í verðbréfum sem verslað er með á markaðstorgi fjármálagerninga til jafns við verðbréf sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum markaði. Samkvæmt túlkun Fjármálaeftirlitsins hafa verðbréf sem verslað er með á markaðstorgi fjármálagerninga ekki talist til verðbréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulögðum fjármálamarkaði og þau hafa því verið skilgreind sem önnur óskráð verðbréf og fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða í þeim því takmarkast við 3. mgr. 36.gr. laga nr. 129/1997.

Ljóst er að upplýsingaskylda félaga sem skráð eru á markaðstorgi fjármálagerninga er ekki eins rík og þeirra félaga sem skráð eru á skipulögðum verðbréfamarkaði og gera því ríkari kröfur til fjárfesta um upplýsingaöflun og greiningu. Í greinargerð með frumvarpinu segir að þær kröfur sem gerðar eru varðandi rekstur markaðstorgs fjármálagerninga séu að mestu leyti sambærilegar þeim kröfum sem gerðar eru á skipulögðum markaði, þó svo fjármálafyrirtæki eða kauphöll sem rekur markaðstorg fjármálagerninga sé veitt meira svigrúm til mótunar á eigin reglum en á skipulögðum fjármálamarkaði. Er í þessu sambandi vísað til þess að Kauphöll Íslands sem nú rekur eina markaðstorg fjármálagerninga hér á landi, First North Iceland, hafi sett reglur m.a. um upplýsingagjöf fyrirtækja sem leitast við að nálgast þá skyldu sem hvílir á félögum sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulögðum markaði. Þrátt fyrir þetta verður að gera þann fyrirvara að ekki er tryggt að aðrir aðilar sem kunna að koma á markaðstorgi fjármálagerninga setji sambærileg skilyrði þar sem lögin gefa rekstraraðilanum nokkuð svigrúm varðandi þær kröfur sem gerðar eru til þeirra aðila sem skrá fjármálagerninga sína á markaðstorginu.

Má í þessu samhengi nefna að félögum á markaðstorgi fjármálagerninga ber ekki líkt og félögum á aðalmarkaði að upplýsa um laun og hlunnindi stjórnenda og birta stjórnháttaryfirlýsingu. Alþýðusambandið leggur í stefnu sinni áherslu á að lífeyrissjóðir séu ábyrgir hluthafar sem fylgi fjárfestingum sínum eftir og setji sér í því miði hluthafastefnu og skýrar reglur um launagreiðslur til stjórnenda í þeim fyrirtækjum sem þeir fjárfesta í. Margir lífeyrissjóðir hafa þegar mótað sér slíka stefnu. Með auknum fjárfestingum í félögum sem ekki ber að birta framangreindar upplýsingar verða möguleikar til aðhalds með þessum þáttum takmarkaðir.

Breytingin felur í sér verulega auknar heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta í bréfum utan skipulagðs verðbréfamarkaðar. Alþýðusambandið leggur í þessu samhengi áherslu á mikilvægi þess að farið sé varlega við veitingu slíkra heimilda og bendir á að eftir hrun hafa heimilir til fjárfestinga í óskráðum bréfum verið auknar úr 10% í 20% af hreinni eign. Þrátt fyrir að fjárfestingarkostum lífeyrissjóðanna hafi fækkað frá bankahruni og áhrif gjaldeyrishaftanna takmarki mjög möguleika þeirra til fjárfestinga, er nauðsynlegt að áfram séu viðhöfð meginsjónarmið laganna um áhættudreifingu og varfæri í fjárfestingum lífeyrissjóðanna. Sé vilji til þess að rýmka heimildir til fjárfestinga í fjármálagerningum utan skipulegs markaðar er rétt að gera það í samhengi við heildarendurskoðun á fjárfestingarkafla lífeyrissjóðalaganna að undangenginni ýtarlegri skoðun og mati á áhrifum og mögulegri áhættu.

Alþýðusambandið hvetur því til þess að farið verði að tillögum úttektarnefndar Landssamtaka lífeyrissjóða og lokið verði vinnu við heildarendurskoðun á fjárfestingarkafla lífeyrissjóðalaganna.

F.h. Alþýðusambands Íslands
Henný Hinz,
hagfræðingur