Stefna ASÍ

 • Forsíða
 • Stefna ASÍ
 • Umsagnir um þingmál
 • Frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, 657. mál og um frumvarp til laga um veiðigjöld, 658. mál

Frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, 657. mál og um frumvarp til laga um veiðigjöld, 658. mál

Reykjavík, 16. apríl 2012

       Tilvísun: 201204-0001 og 201204-0003

 

Efni: Umsögn ASÍ um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, 657. mál og um frumvarp til laga um veiðigjöld, 658. mál.

Vegna þess hve frumvörpin um stjórn fiskveiða og veiðigjöld eru nátengd sendir Alþýðusamband Íslands sameiginlega umsögn um bæði frumvörpin.

Alþýðusamband Íslands telur mikilvægt að eyða þeirri óvissu sem verið hefur í sjávarútvegi vegna boðaðra breytinga á fiskveiðistjórnarkerfinu. Jafnframt telur ASÍ mikilvægt að sköpuð verði aukin sátt um sjávarútveginn með nýjum lögum.

Afstöðu sína til frumvarpanna byggir ASÍ á stefnu sambandsins í atvinnumálum en í henni segir m.a.:

„Til náttúruauðlinda í eigu þjóðarinnar teljast m.a. nytjastofnar á Íslandsmiðum, auðlindir á /í /eða undir hafsbotninum (utan netalaga) svo og náttúruauðlindir í þjóðlendum. Á grundvelli stefnu um nýtingu og verndun náttúruauðlinda geta stjórnvöld veitt heimild til nýtingar á auðlindum sem eru í eigu þjóðarinnar gegn gjaldi að því tilskyldu að nýtingarrétturinn sé tímabundinn eða að honum megi breyta. Við útgáfu nýtingarleyfa á auðlindum sem eru í eigu þjóðarinnar skal m.a. hafa eftirfarandi að leiðarljósi:

 • Leyfin skulu veitt á grundvelli hlutlægra viðmiðana sem gerð eru opinber í auglýsingum.
 • Setja skal ströng skilyrði fyrir veitingu leyfanna, m.a. um að áætlanir um rannsóknir og nýtingu séu í samræmi við stefnu um nýtingu og vernd auðlinda, að þær uppfylli kröfur um umhverfismat og skipulag og gangi ekki gegn reglum um réttindi launafólks, laun og vinnuvernd.
 • Gegn leyfum komi endurgjald; í fyrsta lagi vegna kostnaðar ríkisins af rannsóknum og eftirliti með nýtingu auðlinda (þjónustugjald); í öðru lagi til að tryggja þjóðinni hlutdeild í umframarði sem nýting auðlinda í þjóðareign skapar (auðlindagjald); og í þriðja lagi, þar sem það á við, til að tryggja hagkvæma nýtingu (umhverfisskattur).
 • Gæta ber hófs við beitingu eignarnámsheimilda og tryggt verður að vera að efnisleg skilyrði um almannaþörf sem og öll formleg skilyrði séu uppfyllt.“

Síðar í stefnunni er fjallað um aðlögun að breytingum í atvinnulífinu en um slíkar breytingar segir:

„Þróun í atvinnulífinu getur haft í för með sér tímabundna erfiðleika fyrir einstök heimili, fyrirtæki eða byggðarlög. Til að gæta réttlætis og stuðla að víðtækri sátt þarf að gefa öllum tækifæri á að laga sig að breytingum. Í þessu tilliti er einkar mikilvægt að tryggja virka upplýsingamiðlun svo og samráð og samningaviðræður á öllum stigum breytinga, hvort sem um er að ræða skipulagsbreytingar eða tækni innleiðingu. Styrki vegna aðlögunar á helst að útfæra með almennum aðgerðum, t.d. gegnum skatta- og velferðarkerfið. Ef þörf er á sértækum aðgerðum eiga þær að vera tímabundnar, gagnsæjar, óframleiðslutengdar, miða að atvinnusköpun, vera árangursríkar með tilliti til kostnaðar og samræmdar að hinu almenna velferðarkerfi.“

Um sjávarútveginn segir í stefnunni:

„Núverandi afskipti af sjávarútvegi (kvótakerfið) stuðlar í meginatriðum að hagkvæmri sókn í leyfilegan heildarkvóta. Stjórnvöld fara með eignarréttinn yfir auðlindinni í umboði þjóðarinnar. Þetta þýðir m.a. að þeim ber að ákveða heildarkvóta út frá vísindalegum niðurstöðum um afkomu stofna.“

Eftirfarandi eru helstu markmið frumvarpanna og falla þau vel að framangreindri stefnu ASÍ í atvinnumálum:

 • Að stuðla að verndun og sjálfbærri nýtingu fiskistofna við Ísland.
 • Að stuðla að farsælli samfélagsþróun með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi.
 • Að treysta atvinnu og byggð í landinu.
 • Að hámarka þjóðhagslegan ávinning af sjávarauðlindinni og tryggja þjóðinni eðlilega auðlindarentu.
 • Að sjávarútvegurinn sé arðsamur og búi við hagstætt og stöðugt rekstrarumhverfi.
 • Að kostnaði ríkissjóðs við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með veiðum og vinnslu sé mætt með almennu veiðigjaldi.
 • Að tryggja að þjóðin í heild fái hlutdeild í þeim arði sem nýting sjávarauðlindarinnar skapar með sérstöku veiðigjaldi.

Þó að markmið frumvarpanna falli ágætlega að stefnu ASÍ í atvinnumálum þá er ýmislegt sem sambandið telur að færa þurfi til betri vegar í frumvörpunum áður en þau verða að lögum.

Helstu veikleikar frumvarpanna eru að verið er að veikja rekstrargrunn greinarinnar. Sérstaklega þarf að hafa þetta í huga þegar horft er til þess að einnig er verið að leggja til að greinin greiði hluta af umframhagnaði til ríkisins í formi sérstaks veiðigjalds. ASÍ telur mikilvægt að lög um stjórn fiskveiða séu ávallt þannig úr garði gerð að þau stuðli að því að sjávarútvegurinn geti verið arðsöm atvinnugrein og búi við stöðugt rekstarumhverfi þannig að greinin geti gegnt mikilvægu samfélagslegu hlutverki sínu í atvinnuháttum á landsbyggðinni.

Frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða

ASÍ telur að of langt sé gegnið í frumvarpinu í sértækum aðgerðum sem veikja rekstrargrundvöll sjávarútvegsins. Að mati ASÍ eru helstu veikleikar frumvarpsins:

 • Mikil skammsýni felst í því að banna með öllu framsal að 20 árum liðnum. Varanlegt framsal hefur skipt  miklu máli varðandi aðlögun sjávarútvegs að langtíma skilyrðum í greininni. Ljóst má vera  að það er óskynsamlegt  að afnema þennan aðlögunarhæfileika með öllu.
 • Of stór hluti aflahlutdeilda fer í flokk 2 en það er sá hluti kerfisins þar sem hagkvæmni er minnst. Aukningin á flokki 2 er með beinum eða óbeinum hætti tekin af flokki 1. Slík tilfærsla dregur úr atvinnuöryggi þeirra sem starfa við sjómennsku og fiskvinnslu að aðalstarfi og veikir getu greinarinnar til að greiða sérstakt veiðigjald sem tryggi þjóðinni eðlilega hlutdeild í þeim arði sem nýting sjávarauðlindarinnar getur skapað.
 • ASÍ telur með öllu óásættanlegt að 40% af aukningu aflahlutdeilda umfram ákveðin mörk í ákveðnum tegundum renni í flokk 2. Verði þetta lögfest þá getur flokkur 2 stækkað mjög mikið á skömmum tíma. Sem dæmi má nefna að takist að byggja upp þorskstofninn þannig að heimilaðar veiðar færu í 230 þúsund tonn, rynnu um 11 þúsund tonn í flokk 2 sem jafngilti um þriðjungs aukningu. Slík aukning  kallar á mikla offjárfestingu í smábátum sem aðeins eru nýttir hluta úr ári.
 • Óheppilegt er að 3% af þeirri aflahlutdeild sem framseldar eru renni í flokk 2.
 • Gert er ráð fyrir að áfram verði stundaðar strandveiðar með sama hætti og áður. Þessar veiðar eru óhagkvæmar og rökin að baki þeim eru orðin enn veikari eftir að hluta aflamarks verður ráðstafað í gegnum kvótaþing.
 • Erfitt er að sjá að sá hluti aflahlutdeilda sem ráðherra getur ráðstafað í gegnum kvótaþing (leigukvóti) geti að óbreyttu ýtt undir nýliðun í greininni þar sem um ársleigu á aflamarki er að ræða. Nýir aðilar munu eiga erfitt með nauðsynlegar fjárfestingar þegar fullkomin óvissa ríkir um það hvaða aflamark útgerðin hefur að einu ári liðnu.
 • Ekki eru skýrar reglur um það hvernig staðið verður að leigu aflamarks á kvótaþingi.
 • Búið er að fella brott ákvæði um að kjarasamningur sé skilyrði fyrir úthlutun í bæði flokki 1 og 2, en þess í stað vísað með almennum orðum í lögin um stéttarfélög og vinnudeilur.

Tillögur til úrbóta

 • ASÍ leggur til að fallið verði frá því að fyrstu 4.500 tonnin af mögulegri aflaaukningu í þorski umfram 177.00 tonn renni í flokk 2.
 • ASÍ leggur til að fallið verði frá að 40% af aukningu aflahlutdeilda umfram ákveðið mark í ákveðnum tegundum renni í flokk 2. Þess í stað verði flokkur 2 til framtíðar ákveðið hlutfall af heildaraflahlutdeild í viðkomandi tegundum.
 • ASÍ leggur til að strandveiðipottur í núverandi mynd verði aflagður og sú aflahlutdeild sem sett hefur verið í strandveiðipottinn verði ráðstafað í gegnum kvótaþing. Slík ráðstöfun er eðlileg þar sem ná má þeim markmiðunum sem sett voru með strandveiðipottinum í gegnum kvótaþing. Að auki auðveldar það eðlilega verðmyndun á kvótaþingi.
 • ASÍ leggur til að þannig verði gengið frá reglum um leigu aflamarks á kvótaþingi að hægt verði að leigja aflamark til lengri tíma en eins árs til að auðvelda fjárfestingar og þar með nýliðun í greininni. Slíkt gæti til að mynda gerst með því að tryggja nýliðum ákveðinn forleigurétt til ákveðinna ára eða bjóða ákveðið magn heimilda út til fleiri ára og þannig gefið færi á að auka framleiðni yfir tíma.
 • Fallið verði frá því að 3% af þeim aflaheimildum sem framseldar verða fari í flokk 2. Þess í stað má skattleggja sérstaklega þær tekjur sem fást við slíkt framsal.
 • Sett verði inn skýrt ákvæði um að eitt af skilyrðunum fyrir úthlutun að í gildi sé kjarasamningur.

 

Frumvarp til laga um veiðileyfagjald

ASÍ telur skynsamlegt að sérstaka veiðileyfagjaldið verði skilgreint sem hlutdeild í ,,umframhagnaði‘‘ greinarinnar þar sem gengið sé út frá framlegðinni að frádreginni árgreiðslu sem dugi til að tryggja bæði eðlilega endurfjárfestingu og ávöxtun á eigið fé. Slík nálgun er í senn skynsamleg og sanngjörn. Mikilvægt er að útfærsla sérstaka veiðigjaldsins hafi ekki áhrif á laun og tekjur sjómanna og fiskverkafólks. Meðfylgjandi er greinargerð sem ASÍ tók saman um veiðileyfagjaldið.

Þrátt fyrir að ASÍ taki að undir þá aðferðafræði sem lögð er til varðandi veiðigjaldið þá eru að mati sambandsins nokkrir alvarlegir veikleikar í frumvarpinu sem nauðsynlegt er að sníða af:

 • Upplýsingar um afkomu og framlegð sem liggja til grundvallar útreikningi á fiskveiðirentunni byggja á allt að tveggja ára gömlum gögnum. (Veiðigjald 2012-13 byggir á upplýsingum frá 2010). Frumvarpið gerir ráð fyrir að framreikna tekjur með verðlagsvísitölu sjávarútvegs frá ársmeðaltali til apríl mánaðar tæpum tveimur árum síðar, útgjöld með vísitölu neysluverðs og rekstrarfjármunir með byggingarvísitölu. Að stórum hluta endurspeglar t.d. verðlagsvísitala sjávarútvegs útgjöld útgerðar og vinnslu vegna þess hve laun sjómanna eru tengd afurðaverði. Niðurstaða framreiknings getur því orðið talsvert á skjön við raunveruleikann.
 • Nauðsynlegt að meta frekar áhrif veiðigjalda á gengi krónunnar og afkomu útgerðar. Það er auðvelt í framkvæmd því að veiðigjaldið tekur gildi í áföngum á tveimur árum. Samkvæmt frumvarpinu byrjar sérstaka veiðigjaldið í 60% af reiknaðri rentu, fer í 65% á ári tvö og verður eftir það 70%. Eðlilegt er að nota tímann til að fá sérfræðinga til að meta áhrifin á gengið til lengri tíma.
 • Óeðlilegt að ýta undir óhagkvæmar veiðar með afslætti af veiðigjaldi:
  • Af fyrstu 30 þorskígildistonnum greiðist ekkert gjald.
  • Af næstu 70 þorskígildistonnum greiðist hálft gjald.
 • Rækja og hörpudiskur eru felld undir botnfiskveiðar og vinnslu. Eðlilegra er að halda því aðskildu.

Tillögur til úrbóta

 • ASÍ leggur til að reglum um framreikning tekna og gjalda við ákvörðun veiðileyfagjaldsins verði breytt þannig að reikna veiðigjaldið m.v. það ár sem rekstrarreikningur er gerður, t.d. 2010 og framreikna það m.v. samsetta vísitölu m.v. vægi rekstrarliða til apríl 2012 til að ákvarða veiðigjald fyrir fiskveiðiárið 2012/2013. Til álita kemur að skilgreina slíkt gjald sem grundvöll að fyrirframgreiðslu sem leiðrétt verði eftir á m.v. uppgjör Hagstofunnar á afkomu greinarinnar. Slíkt getur þá bæði leitt til endurgreiðslu eða frekari innheimtu sem byggð verður á raunverulegri framlegð og afkomu.
 • ASÍ leggur til að farin verði ákveðin varúðarleið við útreikning sérstaka veiðigjaldsins. Lagt er til að sérstaka veiðigjaldið byrji í 50% af fiskveiðirentunni í upphafi, 55% á öðru ári og 60% á þriðja ári. Skipaður verði hópur sérfræðinga til að meta áhrif veiðigjaldsins á greinina og gengið til langframa áður en ákvörðun verði tekin að ganga alla leið með 70% hlutdeild. Miða þarf við að sérfræðingarnir skili hlutaniðurstöðum í mars 2013 og 2014 þannig að taka megi tillit til þeirra við ákvörðun veiðigjaldsins í apríl 2013 fyrir fiskveiðiárið 2013/2014.
 • ASÍ leggur til að veiðigjald verði greitt af öllum heimildum þannig að fallið verði frá því að undanskilja fyrstu 30 þorskígildistonnin veiðigjaldi og því að af næstu 70 þorskígildistonnum greiðist aðeins hálft gjald.

ASÍ telur að verði tekið tillit til framangreindra tillagna um breytingar á frumvörpunum geti þau orðið grunnur að góðri sátt um sjávarútveginn og er afstaða ASÍ til þessara frumvarpa háð fyrirvara um framgang þessara tillagna. Jafnframt ítrekar ASÍ mikilvægi þess að sátt náist um skipan sjávarútvegsmála, sátt sem byggir á því að nýliðun í greininn hafi verið auðvelduð, hagsmunir sjómanna, landverkafólks og hinna dreifðu byggða hafi verið styrktir, tryggt hefur verið að þjóðin fái notið hlutdeildar í þeim arði sem sjávarútvegurinn skapar og grunnur lagður að því að sjávarútvegurinn geti áfram verið sterk og arðsöm atvinnugrein.

 

F.h. Alþýðusambands Íslands

Ólafur Darri Andrason,

hagfræðingur ASÍ