Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingar á lögum nr 116/2003, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum

Reykjavík, 06.júní 2011

Tilvísun: 201106-0004

 

Efni: Frumvarp til laga um breytingar á lögum nr 116/2003, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, 826. mál

Alþingi sendi ASÍ frumvarpið til umsagnar að kvöldi föstudagsins 3. júní 2011 með ósk um „að umsögn berist eigi síðar en mánudaginn 6. júní nk.“ Frumvarpið varðar mikilvæga hagsmuni eins af undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar og því mikilvægt að vandað sé til verka. Til að sátt geti náðst um þær breytingar sem gera á stjórn fiskveiða er mikilvægt að eðlilegur tími gefist til málefnalegrar umfjöllunar og samráðs. Innan vébanda þeirra félaga sem aðild eiga að ASÍ eru um 100 þúsund manns. Við mótun afstöðu sinnar þarf ASÍ að hafa til hliðsjónar hagsmuni sjómanna, þeirra sem starfa í landvinnslu og ekki síst almannahag. Sá tími sem Alþingi gefur til umsagnar um frumvarpið getur ekki talist eðlilegur. ASÍ mótmælir því að ekki skuli gefinn lengri tími til umfjöllunar um málið.

Í ljósi mikilvægi málsins hefur ASÍ tekið saman fyrstu viðbrögð sín við málinu byggð á stefnu ASÍ í atvinnumálum en í henni segir m.a.:

„Til náttúruauðlinda í eigu þjóðarinnar teljast m.a. nytjastofnar á Íslandsmiðum, auðlindir á /í /eða undir hafsbotninum (utan netalaga) svo og náttúruauðlindir í þjóðlendum. Á grundvelli stefnu um nýtingu og verndun náttúruauðlinda geta stjórnvöld veitt heimild til nýtingar á auðlindum sem eru í eigu þjóðarinnar gegn gjaldi að því tilskyldu að nýtingarrétturinn sé tímabundinn eða að honum megi breyta. Við útgáfu nýtingarleyfa á auðlindum sem eru í eigu þjóðarinnar skal m.a. hafa eftirfarandi að leiðarljósi:

·Leyfin skulu veitt á grundvelli hlutlægra viðmiðana sem gerð eru opinber í auglýsingum.

·Setja skal ströng skilyrði fyrir veitingu leyfanna, m.a. um að áætlanir um rannsóknir og nýtingu séu í samræmi við stefnu um nýtingu og vernd auðlinda, að þær uppfylli kröfur um umhverfismat og skipulag og gangi ekki gegn reglum um réttindi launafólks, laun og vinnuvernd.

·Gegn leyfum komi endurgjald; í fyrsta lagi vegna kostnaðar ríkisins af rannsóknum og eftirliti með nýtingu auðlinda (þjónustugjald); í öðru lagi til að tryggja þjóðinni hlutdeild í umframarði sem nýting auðlinda í þjóðareign skapar (auðlindagjald); og í þriðja lagi, þar sem það á við, til að tryggja hagkvæma nýtingu (umhverfisskattur).

·Gæta ber hófs við beitingu eignarnámsheimilda og tryggt verður að vera að efnisleg skilyrði um almannaþörf sem og öll formleg skilyrði séu uppfyllt.“

Síðar í stefnunni er fjallað um aðlögun að breytingum í atvinnulífinu en um slíkar breytingar segir:

„Þróun í atvinnulífinu getur haft í för með sér tímabundna erfiðleika fyrir einstök heimili, fyrirtæki eða byggðarlög. Til að gæta réttlætis og stuðla að víðtækri sátt þarf að gefa öllum tækifæri á að laga sig að breytingum. Í þessu tilliti er einkar mikilvægt að tryggja virka upplýsingamiðlun svo og samráð og samningaviðræður á öllum stigum breytinga, hvort sem um er að ræða skipulagsbreytingar eða tækniinnleiðingu. Styrki vegna aðlögunar á helst að útfæra með almennum aðgerðum, t.d. gegnum skatta- og velferðarkerfið. Ef þörf er á sértækum aðgerðum eiga þær að vera tímabundnar, gagnsæjar, óframleiðslutengdar, miða að atvinnusköpun, vera árangursríkar með tilliti til kostnaðar og samræmdar að hinu almenna velferðarkerfi.“

Margskonar breytingar eru lagðar til með frumvarpinu. Þær helstu eru:

1. Aukning aflaheimilda til strandveiða og byggðakvóta.

2. Breytinga á því hvaða aflaheimildir skulu dregnar frá heildaraflamarki áður en kemur til almennrar úthlutunar til fiskiskipaflotans. Lögð er til sú breyting að allir handhafar aflamarks standi undir því aflamarki sem varið er til byggðakvóta, strandveiða og línuívilnunar en ekki eingöngu útgerðir skipa sem ráða yfir botnfiskafla.

3. Sveitastjórnum er gefin kostur á að velja milli úthlutunarreglna sjávarútvegsráðuneytisins og eigin reglna við úthlutun byggðakvóta.

4. Skorður settar við tilfærslum milli tegunda innan einstakra útgerða þannig að þær geti ekki orðið hærri en 30% af aflamarki þeirra hverju sinni.

5. Ráðherra hafi til úthlutunar 2.000 lestir af sumargotsíld og 1.200 lestir af skötusel gegn gjaldi.

6. Heimilt verði að 10% af löngu og keiluafla skipa teljist ekki til aflamarks enda verði sá afli seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði. 20% renni til útgerðar og 80% til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins.

7. Viðmið vegna veiðigjalds verði hækkað úr 9,5% af reiknaðri EBITDU í 16,2%.

8. 80% af tekjum af veiðigjaldinu eiga að renna í ríkissjóð og 20% til sjávarbyggða.

Varðandi helstu efnisþætti frumvarpsins vill Alþýðusambandið benda á eftirfarandi:

·Með frumvarpinu er verið að færa stærri hluta aflaheimilda til strandveiða. Með slíkri tilfærslu er verið að færa störf frá þeim sem hafa megin atvinnu sína af fiskveiðum til þeirra sem hafa hagsmuni af tímabundinni sjómennsku. Hagkvæmni slíkra veiða er takmörkuð þar sem einungis má veiða fáa daga í mánuði yfir sumartímann. Fjárfestingar í skipum, veiðarfærum og öðrum búnaði til strandveiða nýtist því afar illa og atvinnulega séð hefur þetta takmarkaða þýðingu þar sem einungis er veitt fáa daga á ári.

·Með frumvarpinu er verið að færa stærri hluta aflaheimilda til stuðnings minni byggðarlaga sem lent hafa í vandræðum vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum og vinnslu á botnfiski. Einnig er verið að heimila sveitarfélögum að setja eigin reglur um úthlutun byggðakvóta á sínu svæði. ASÍ telur mikilvægt að hægt sé að koma til móts við minni sveitarfélög sem lent hafa í vandræðum vegna samdráttar í sjávarútvegi. ASÍ hefur vissar efasemdir um þá leið sem lögð er til í frumvarpinu og bendir á heppilegra sé að aðstoða byggðarlög við að takast á við breytingar í atvinnuháttum með almennum hætti. Hagkvæmari og skilvirkari leið til að koma til móts við umrædd byggðarlög er að nýta hluta veiðigjaldsins til uppbyggingar atvinnu- og mannlífs á viðkomandi stöðum.

·Samkvæmt frumvarpinu eiga allir handhafar aflamarks að standa undir því aflamarki sem varið er til byggðakvóta, strandveiða og línuívilnunar. Hafi útgerð skips ekki yfir að ráða nægum aflaheimildum til að mæta þessari skerðingu fái hún frest til að flytja eða leigja fullnægjandi veiðiheimildir á skipið eða greiði gjald fyrir sömu heimildir. Slíkt fyrirkomulag er óhagkvæmt og er hætt við að það ýti undir frekara leigubrask.

·Með frumvarpinu er lögð til hækkun veiðigjalds. Eins og fram kemur í atvinnumálastefnu ASÍ telur sambandið að: „[G]egn leyfum komi endurgjald; í fyrsta lagi vegna kostnaðar ríkisins af rannsóknum og eftirliti með nýtingu auðlinda (þjónustugjald); í öðru lagi til að tryggja þjóðinni hlutdeild í umframarði sem nýting auðlinda í þjóðareign skapar (auðlindagjald); og í þriðja lagi, þar sem það á við, til að tryggja hagkvæma nýtingu (umhverfisskattur).“ ASÍ telur mikilvægt að veiðigjaldið hækki þannig að þjóðin fái notið eðlilegs arðs af sjávarútvegsauðlindinni. Í fljótu bragði virðist um hógværa hækkun að ræða sem ekki ætti ekki að ógna rekstrarskilyrðum sjávarútvegsins. Æskilegt væri að gerð yrði hagfræðileg úttekt á því hve hátt veiðigjald sjávarútvegurinn getur borið án þess að það bitni á eðlilegum rekstrarskilyrðum, því ef gengið verður of lagt í álagningu gjaldsins mun það stuðli að veikingu krónunnar. Gerist það mun það á endanum vera almenningur sem ber kostnaðinn við veiðigjaldið í hærra verðlagi og þar með lakari kaupmætti.

·Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að að ráðherra hafi heimild til þess að taka tillit til mismunandi framlegðar útgerðarflokka við ákvörðun veiðigjalds. Ekki er ljóst hvernig ráðherra er ætlað að beita þessu valdi. Er gert ráð fyrir að ráðherra lækki veiðigjald þeirra útgerðarflokka sem eru óhagkvæmir og stuðla þannig að því að jafna stöðu þeirra útgerðarflokka sem óhagkvæmari eru við þá sem eru hagkvæmari? Slík ráðstöfun telst ekki skynsamleg því hún dregur úr heildarhagkvæmni greinarinnar og mun koma niður á styrkleika krónunnar. Áratuga reynsla hefur kennt okkur að greinin mun leita jafnvægis. Eina leiðin til að mæta því yrði með samsvarandi launakröfum – og þá er leiðin í gamla hagkerfið vís!

·Gert er ráð fyrir að 80% af veiðigjaldinu renni í ríkissjóð en 20% til sjávarbyggða. Gert er ráð fyrir að þeim 20% sem renna eiga til sjávarbyggða verði skipt milli sveitarfélaga eftir aflaverðmæti viðkomandi sveitarfélags að frátöldu því aflaverðmæti sem unnið var á sjó. Ef það er pólitískur vilji til þess að hluti veiðigjaldsins renni til ákveðinna landssvæða umfram önnur er eðlilegt að nýta jöfnunarsjóð sveitarfélaga til þess. Vandséð er hins vegar að hægt sé að útiloka íbúa á heilum landssvæðum frá því að fá notið hlutdeildar í þessum 20% af veiðigjaldinu t.d. vegna þess að útgerðarmenn ákváðu að nýta sínar aflaheimildir á frystitogurum.

Almennt má segja að þrátt fyrir að frumvarpið geri ráð fyrir margháttuðum breytingum á stjórn fiskveiða þá er erfitt að átta sig á meginmarkmiðum frumvarpsins. Við skoðun á frumvarpinu þá kemur í ljós að það mun:

·Veikja rekstrargrundvöll sjárvarútvegsins. Slíkt mun leiða til þess að gengi krónunnar verður veikara en ella og lífskjör lakari.

·Veikja stöðu þeirra sem hafa aðalstarf sitt af fiskveiðum og fiskvinnslu.

·Ýta undir leigubrask og skammtímahugsun í stað þess að setja því skorður.

·Auka á pólitískar valdheimildir ráðherra, án þess að færð séu sterk rök fyrir að það fyrirkomulag sé heppilegra en skýrar og gagnsæjar reglur.

·Leggja til fyrirkomulag á ráðstöfun veiðigjaldi til sjávarbyggða sem orkar tvímælis og ýtir undir óréttlæti og mismunun.

ASÍ telur mikilvægt að vandað sé til breytinga á fiskveiðistjórnarkerfinu. ASÍ getur ekki mælt með samþykkt frumvarpsins en leggur þess í stað til að sumarið verði nýtt til þess að vinna að nauðsynlegum breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu í víðtæku samráði þar sem fulltrúar launafólks eigi fulla aðild og áhersla verði lögð á að skapa sem besta og breiðasta sátt um niðurstöðuna.

 

F.h. Alþýðusambands Íslands

Ólafur Darri Andrason

hagfræðingur ASÍ