Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, með síðari breytingum

Frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, með síðari breytingum, 784. mál

Í frumvarpinu er lögð til grundvallarbreyting á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í lyfjakostnaði sem byggir að mestu á greiðsluþátttökukerfi að danskri fyrirmynd. Gert er ráð fyrir að með breytingunni verði hætt að miða greiðsluþátttöku við hverja lyfjaávísun. Þess í stað greiði sjúklingur að fullu fyrir lyf sín upp að ákveðnu marki en eftir að því er náð verði greiðsluþátttaka hlutfallsleg og þrepaskipt eftir uppsöfnuðum lyfjakostnaði sjúklings á hverju tímabili. Frumvarpið gerir ráð fyrir að hlutfall, tímabil og þrep greiðsluþátttökunnar verði ákvörðuð í reglugerð og fylgja frumvarpinu drög að nýrri reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga við kaup á lyfjum. Lagabreytingin og sú reglugerð sem ákvarðar endanlega útfærslu hennar mynda því eina heild og er gengið út frá því í þessari umsögn.

Eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið og drögum að skýrslu vinnuhóps um nýtt greiðsluþátttökukerfi vegna lyfjakostnaðar frá því í október 2010 er gert ráð fyrir að lyf sem sjúkratryggingar hafa hingað til tekið þátt í að greiða niður muni fall undir nýtt greiðsluþátttökukerfi, auk þess sem gert er ráð fyrir að bæta inn í greiðsluþátttökukerfið sýklalyfjum og S-merktum lyfjum sem ávísað er á lyfseðlum og notuð utan sjúkrahúsa. Hins vegar verði sú breyting að greiðsluþátttakan er ekki mismikil eftir lyfjaflokkum eins og verið hefur, heldur falla öll lyf sem sjúkratryggingar taka þátt í að niðurgreiða að meginstefnu undir sömu reglur. Með þessu verður kostnaðarþátttaka ekki byggð á sjúkdómum heldur á heildar lyfjakostnaði hvers og eins sjúklings og telur Alþýðusambandið þá breytingu til bóta þar sem jafnræði milli sjúklingahópa er aukið.

Auk þess verði greiðsluþátttökukerfið gagnsærra og einfaldara en verið hefur sem er kostur.

Í breytingunum er gert ráð fyrir að sett verði hámark á þann lyfjakostnað sem sjúklingur þarf sjálfur að greiða á hverju 12 mánaða tímabili en í dag er ekkert slíkt hámark sem getur þýtt að lyfjakostnaður sjúklinga verður í ákveðnum tilvikum mjög hár. Alþýðusambandið hefur lengi talað fyrir því að sett verði hámark á þann kostnað sem sjúklingar þurfa að bera af heilbrigðisþjónustu og lyfjakaupum auk þess sem nauðsynlegt hefur verið talið að horft sé til 12 mánaða tímabils í þeim efnum en ekki almanaksárs þannig tímasetning veikindanna á árinu ráði ekki þeim kostnaði sem lendir á sjúklingi. Í ályktun Ársfundar ASÍ 2010 um velferðarmál segir m.a.

Hámark verði sett á kostnaðarþátttöku vegna lyfja og heilbrigðisþjónustu. Afsláttarkort gildi í a.m.k.12 mánuði en taki ekki mið af almanaksári.

Sú breyting sem hér er lögð til mun gagnast best þeim sem eru mest veikir / þurfa mikið af lyfjum og ætti lyfjakostnaður þeirra almennt að lækka við breytinguna. Hins vegar mun á sama tíma kostnaður þess mikla fjölda fólks sem í dag hefur tiltölulega lágan lyfjakostnað aukast talsvert. Breytingin eins og hún er kynnt í reglugerðardrögunum, felur þannig fyrst og fremst í sér tilfærslu á lyfjakostnaði frá þeim sem þurfa mikið af lyfjum til þeirra sem þurfa sjaldan lyf. Mikilvægt er að sá hópur verði ekki þar að auki látin bera mögulegan kostnað vegna kerfisbreytingarinnar eða sparnaðar í rekstri ríkisins.

Hver áhrifin af breytingu greiðsluþátttökukerfisins verða ræðst ekki að fullu fyrr en fyrir liggur endanleg ákvörðun um greiðsluþrep, kostnaðarhlutföll og hámarksgreiðslu í reglugerð. Ljóst er að breytingin mun valda því að ákveðnum hópum mun reynast erfitt að ráða við háar greiðslur í einu lagi í upphafi hvers greiðslutímabils sem jafnvel getur leitt til þess að þeir hafi ekki tök á að leysa út lyfjaávísanir sínar. Við þessu verður að bregðast og nauðsynlegt er að gera ráðstafanir í kerfinu sem fyrirbyggja eins og kostur er að þessi staða komi upp.

Alþýðusambandið styður markmið þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu og telur þær í grundvallaratriðum til bóta.

 

F.h. Alþýðusambands Íslands

Henný Hinz

hagfræðingur