Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingar á lögum, nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingum (aldurstengd örorkuuppbót)

Reykjavík 10.12.2014
Tilvísun: 201411-0029

Efni: Frumvarp til laga um breytingar á lögum, nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingum (aldurstengd örorkuuppbót), 35. mál

Með frumvarpinu er lögð til viðbót við 21. gr. laganna þess efnis að þeir örorkulífeyrisþegar sem fá greidda aldurstengda örorkuuppbót fyrir 67 ára aldur fái hana einnig eftir að þeir ná 67 ára aldri og fá greiddan ellilífeyri. Markmið breytinganna er að koma í veg fyrir að þeir örorkulífeyrisþegar sem fengið hafa greidda aldurstengda örorkuuppbót fyrir 67 ára aldur verði ekki fyrir tekjutapi við það eitt að ná 67 ára aldri eins og nú er raunin hjá ákveðnum hópi.

Alþýðusamband Íslands styður markmið breytinganna og telur eðlilegt að horfa til þess að markmið aldurstengdu uppbótarinnar er að bæta kjör þeirra sem orðið hafa öryrkjar snemma á starfsævinni og hafa því haft takmarkaða möguleika á að safna sér upp réttindum í lífeyrissjóðum. Í þessu sambandi er þó bent á að nú stendur yfir vinna við heildarendurskoðun á lögum um almannatryggingar í fjölskipaðri nefnd sem áætlar að skila tillögum til ráðherra á næstunni. ASÍ telur því eðlilegt að umræddar tillögur verði ræddar og settar í samhengi við þá heildarendurskoðun.

F.h. Alþýðusambands Íslands
Henný Hinz,
hagfræðingur