Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingar á innheimtulögum

Reykjavík 17. maí 2011

Tilvísun: 201105-0014

Efni: Frumvarp til laga um breytingar á innheimtulögum, 643 mál.

Alþýðusamband Íslands gerir ekki tillögur efnislegar breytingar á því frumvarpi sem umsagnar er óskað um en vill taka eftirfarandi fram aðrar nauðsynlegar breytingar á lögum er varða löginnheimtu krafna.

Strax í kjölfar hrunsins á árinu 2008 lagði ASÍ til gagngerar breytingar á lögum um gjaldþrot, nauðungaruppboð og aðför í því augnamiði að styrkja stöðu skuldara gagnvart innheimtuaðila. Margt af því gekk eftir með í góðri samvinnu við stjórnvöld, m.a. ákvæði lögmannalaga um bann við töku kostnaðar af gjaldfelldum kröfum. Í þeim lagabreytingum var þó ekki komið eins mikið til móts við kröfur ASÍ eins og sambandið hefði kosið og eins og best hefði tryggt hagsmuni þeirra skuldara sem lenda með skuldir sínar í innheimtu hjá lögmönnum.

Umræða undanfarinna vikna um óhæfilega gjaldtöku innheimtumanna hefur sýnt að brýna nauðsyn ber til frekari breytinga. Þær breytingar mætti taka inn í innheimtulög með víkkun á gildissviði laganna, með því að auka heimildir ráðherra til þess að ákveða hámark innheimtukostnaðar, með breytingum á lögum um lögmenn eða með breytingum á aðfara- og uppboðslögum.

Staða skuldara og lögmanns er ójöfn. Innheimtumaður hefur oftar en ekki í hendi sér hvernig samið er um uppgjör kröfu utan réttar. Það á við um greiðslufresti, skuldbreytingar, afslætti og annað það sem gerir skuldara mögulegt að greiða kröfuna. Lögmaður innheimtir fyrir kröfuhafann í skjóli laga sem heimila honum að gera aðför í eignum skuldara, selja eignir hans á nauðungaruppboði eða gera hann gjaldþrota. Þannig nýtur lögmaður og kröfuhafi skjóls af mjög íþyngjandi þvingunarúrræðum réttarkerfisins sem hins vegar veitir skuldara litla sem enga vernd fyrr en aðför er lokið, uppboð hefur farið fram eða gjaldþrot úrskurðað. Í aðdraganda þeirra aðgerða er skuldari varnarlaus.

ASÍ telur nauðsynlegt, að svo sé umbúið í löggjöf að skuldari hafi möguleika á að bera undir stjórnvöld eða óháðan aðila, kröfu lögmanns um innheimtuþóknun og innheimtukostnað og að þannig verði aðstaða skuldara, lögmanns og kröfuhafa jöfnuð án þess þó að gengið verði á lögmætan rétt kröfuhafa til fullnustu af eignum skuldara til greiðslu kröfu sinnar.

Farsælast væri, að ein innheimtulög myndu geyma nauðsynleg ákvæði hér að lútandi og tækifærið yrði þá notað nú til þess að breyta gildandi innheimtulögum.

Sé ekki vilji til þess er hægt að á svipuðum árangri með öðrum lagabreytingum. Í minnisblaði ASÍ frá því haustið 2009 segir m.a. um breytingar á uppboðs- og aðfaralögum:

Að lögum nr. 21/1991, 90/1991 og 90/1989 verði breytt með það fyrir augum að auka tækifæri fyrir skuldara til þess að vinna sig út úr greiðsluvandræðum, skapa honum og fjölskyldu hans skjól innan ramma laganna takist það ekki og tryggja réttarstöðu skuldara gagnvart kröfum í löginnheimtu.

„Lagt er til að ágreining um útreikning uppboðskröfu, þ.m.t. innheimtulaun megi bera undir sýslumann þegar eftir að frummeðferð máls hefst skv. 3 kafla laganna. Ákvæði þeirra viðskiptabréfa sem í hlut eiga koma ekki í veg fyrir að takmörk séu sett hvernig útreikningi innheimtukostnaðar skuli háttað.

 

Tillaga um breytingar á lögum um nauðungarsölu nr. 90/1991

.................

Heildir til nauðungarsölu fela það í sér, að kröfuhafi fær fulltingi réttarkerfisins til innheimtu krafna sinna og annarra réttinda. Löggjafanum er heimilt að setja reglur um það í hvaða skyni réttarkerfinu er beitt og ber að tryggja að hagsmuna uppboðsþola sé gætt. Stór hluti þeirra skulda sem innheimtar eru með nauðungaruppboði eða hótun um slíka aðgerð eru lán sem tekin hafa verið til langs tíma. Við greiðslufall eða vegna fullnustukrafna annarra kröfuhafa eru slíkra langtímaskuldir gjaldfelldar. Flestar kröfur sem beðið er um nauðungaruppboð vegna eða þar sem nauðungaruppboði er hótað, eru hins vegar greiddar áður en til sölu kemur. Í þeirri stöðu er skuldari varnarlaus þegar hann semur um greiðslu við uppboðsbeiðanda. Lagt er til að ágreining um útreikning uppboðskröfu, þ.m.t. innheimtulaun megi bera undir sýslumann þegar eftir að frummeðferð máls hefst skv. 3 kafla laganna. Ákvæði þeirra viðskiptabréfa sem í hlut eiga koma ekki í veg fyrir að takmörk séu sett hvernig útreikningi innheimtukostnaðar skuli háttað.

....................


2.mgr. 22.gr. breytist og hljóði svo:

Til samræmis er lagt til að 2.mgr. 22.gr. verði breytt og þannig tryggt að ágreining um útreikning kröfu megi leggja fyrir sýslumann. Greinin breytist og hljóði svo:

Ef ágreiningur verður við fyrirtöku skv. 21. gr. um hvort nauðungarsalan fari fram eða hvernig verði staðið að henni og um fjárhæð kröfu sbr. 2.mgr. 6.gr. tekur sýslumaður ákvörðun um ágreiningsefnið þegar í stað. Að jafnaði skulu mótmæli af hendi gerðarþola eða þriðja manns ekki stöðva nauðungarsölu nema þau varði atriði sem sýslumanni ber að gæta af sjálfsdáðum eða sýslumaður telur þau annars valda því að óvíst sé að gerðarbeiðandi eigi rétt á að nauðungarsalan fari fram. Taki sýslumaður ekki til greina mótmæli gerðarþola eða þriðja manns stöðvar það ekki frekari aðgerðir að hlutaðeigandi lýsi yfir að hann muni bera gildi nauðungarsölunnar undir héraðsdóm eftir ákvæðum XIV. kafla.

Tillaga um breytingar á lögum um aðför nr.90/1989

.............................

1.mgr. 27.gr. breytist og hljóði svo:

Ef gerðarþoli eða sá, sem málstað hans tekur, mótmælir rétti gerðarbeiðanda til að aðför nái fram að ganga eða hún fari fram með þeim hætti eða um þá fjárhæð kröfu sbr. 2.mgr. 1.gr., sem gerðarbeiðandi krefst, skal sýslumaður að kröfu gerðarbeiðanda ákveða þegar í stað hvort gerðin fari fram eða hvort henni verði fram haldið og eftir atvikum með hverjum hætti.

Um rökstuðning fyrir breytingunum vísast til tillagna um breytingu á lögum um nauðungaruppboð.“

Þessar tillögur mætti útfæra og aðlaga að innheimtulögum verði gildissviði þeirra breytt. Samhliða yrðu þau lög að geyma ákvæði um rétt skuldara til þess eins og áður segir að bera fjárhæð innheimtulauna og innheimtukostnaðar undir þar til bæran aðila meðan innheimta er enn á því stigi að einungis sé áskilinn réttur lögmanns til að óska nauðungaruppboðs eða annarra þvingunaraðgerða. Vegna hinnar veiku stöðu skuldara yrði jafnframt að tryggja rétt skuldara til endurheimtu oftekinna innheimtulauna eða innheimtukostnaðar þó svo að hann hafi innt af hendi greiðslu til lögmanns án fyrirvara. Viðeigandi refsikenndum ákvæðum yrði best fyrir komið þannig að í stað sekta í ríkissjóðs eða þess háttar úrræða, yrði allur kostnaður endurgreiðsluskyldur, bæði hið oftekna og eðlileg þóknun og kostnaður.

 

Virðingarfyllst,

Magnús M. Norðdahl hrl.

Lögfræðingur ASÍ