Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingar á almennum hegningarlögum

ASÍ er sammála því, að nauðsynlegt sé að auka vernd þeirra opinberu starfsmanna sem sérstaklega eru útsettir fyrir ofbeldi og hótanir í starfi sínu. Frumvarpinu virðist ætlað að senda þau skilaboð til dómstóla, að þyngja refsingar vegna brota gegn þessum hópi starfsmanna. ASÍ bendir þó á, að ekkert er því til fyrirstöðu að framfylgja þeirri stefnu innan gildandi refsiramma sem ekki virðist notaður nema að litlu leyti og dregur jafnframt í efa að rýmkun á refsiramma nái því markmiði sem stefnt er að, þ.e. að auka vernd þeirra og virðingu í starfi.

Vernd þeirra starfsmanna sem í hlut eiga og sem tryggja þarf er tvíþætt. Annars vegar þarf að tryggja nægilegt öryggi þeirra á vettvangi m.a. með fullnægjandi mönnun, bæði hvað varðar fjölda og hæfni starfsmanna og hins vegar þarf að tryggja skilyrðislausan rétt til fullnægjandi og eftir atvikum ríflegra skaðabóta verði þeir fyrir tjóni.

Virðing borgaranna fyrir þeim störfum sem þessi mikilvægu starfsmenn sinna er þó líklega sú besta vörn sem þeim verður veitt. Þess vegna er nauðsynlegt að efla faglegan metnað þeirra sem mest og best og efla þekkingu borgaranna á hlutverki þeirra og mikilvægi.

 

F.h. Alþýðusambands Íslands,

 Magnús M. Norðdahl hrl.,

lögfræðingur ASÍ