Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breytingar á almannatryggingum

Reykjavík, 5. Mars 2008
Tilvísun: 200802-0037

Efni: Frumvarp til laga um breytingar á almannatryggingum, 410. mál.

Í frumvarpinu er tekið fram að það byggi á tillögum verkefnisstjórnar félags-
og tryggingamálaráðherra um fyrstu tillögur er byggðu á stefnuyfirlýsingu
ríkisstjórnarinnar og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir bætt kjör
aldraðra og öryrkja. Tekið skal fram að ASÍ á ekki fulltrúa í þessari
verkefnisstjórn, en á fulltrúa í svokallaðri ráðgjafanefnd þessarar
verkefnisstjórnar. Tillögur verkefnisstjórnarinnar voru kynntar í
ráðgjafanefndinni, en þar sem þær byggðu á stefnuyfirlýsingu
ríkisstjórnarinnar var lítið færi gefið á því að gera breytingar.

Tekið skal fram, að í sjálfu sér gerir ASÍ ekki ágreining um þau einstaka
atriði sem hér er verið að gera breytingar á og vafalaust er hvert og eitt
þeirra mikið réttlætismál þegar það er skoðað eitt og sér og einangrað frá
öðrum þáttum almannatryggingakerfisins.

Alþýðusambandið gagnrýnir hins vegar hvernig staðið hefur verið að þessu
máli. ASÍ hefur miklar væntingar til þeirra markmiða ríkisstjórnarinnar að
setja í gang langþráða vinnu við endurskoðun almannatryggingakerfisins og
samspil þess við lífeyrissjóðina. Það voru því mikil vonbrigði að ríkisstjórnin
skyldi samhliða því að setja í gang vinnu við endurskoðun
almannatryggingakerfisins, sem hún áréttaði í yfirlýsingu sinni við gerð
kjarasamninga þann 17. febrúar sl. að ætti að verða róttækar, velja að
setja einnig fram ítarlegar tillögur í stefnuyfirlýsingunni sem voru
ófrávíkjanlegar. Þessar tillögur liggja nú fyrir í formi bandorms með nýjum
leppum á annars stagbætt almannatryggingakerfi og það þvert á þá vinnu
sem í gangi er og án þess að velta fyrir sér afleiðingunum fyrir þá
endurskoðun.

Vakin er athygli á því að þetta frumvarp mun skapa alveg nýja og áður
óséða mismunun milli mismunandi tryggingaforma lífeyrissjóðanna. Þannig
munu greiðslur lífeyrissjóða vegna ellilífeyris á grundvelli skylduaðildar frá 1.
krónu skerða tekjutryggingu almannatrygginga, en ef viðkomandi sjóðsfélagi
fær örorkubætur mun hann njóta kr. 300.000 frítekjumarks. Ef viðkomandi
sjóðsfélagi fær ellilífeyri á grundvelli frjáls viðbótarsparnaðar mun
tekjutrygging hans hins vegar ekki skerðast. Til að það verði hægt þurfa skattyfirvöld að breyta skattframtalinu. Nú verður að greina á milli þess
lífeyris sem viðkomandi sjóðsfélagi fær á grundvelli skyldusparnaðar og þess
lífeyris sem hann fær á grundvelli frjáls sparnaðar. Ef hann hefur sinnt
skyldu sinni að spara fyrir grunnréttindum verður hann skertur en ef hann
hefur komist hjá því og greitt iðgjöld til séreignasjóða (eins og lengi tíðkaðist
meðal hátekjumanna í stjórnunarstöðu) mun hann fá óskerta
tekjutryggingu. Enginn vafi er á því að þetta mun magna upp óánægju
meðal þeirra sem fá sinn lífeyri á grundvelli þess að hafa sinn skyldu sinni
að spara fyrir grunnréttindum.

Eins og áður sagði leggst ASÍ ekki gegn þessu frumvarpi, en ítrekar að
frumvarpið býr til algerlega óviðunandi stöðu gagnvart harkalegri og
ósanngjarnri tekjutengingu ellilífeyrisgreiðslna frá lífeyrissjóðunum. Er þetta
gert þrátt fyrir ítrekuð mótmæli verkalýðshreyfingarinnar og í raun má furðu
sæta að skyldusparnaður landsmanna í lífeyrissjóðina sé skattlagður með
þessum hætti. Á þessu verður að verða breyting.