Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda

Reykjavík, 23. apríl 2008
Tilvísun: 200804-0024

Efni: Umsögn um breytingar á lögum nr. 129/1997, 528. mál.

Alþýðusambandið fagnar að hafa borist fyrrgreint frumvarp til umsagnar, en forysta
sambandsins hafði haft af því fregnir að til stæði að gera breytingar á lögum um
starfsemi lífeyrissjóðanna án þess að leitað hafi verið eftir eðlilegu samráði við
heildarsamtök á vinnumarkaði eða samtök lífeyrissjóðanna.
Skipta má tillögum þessa frumvarps upp í tvennt, annars vegar breytingar á ýmsum
ákvæðum laganna er varðar daglega framkvæmd og hins vegar breytingar sem lúta
að fjárfestingarheimildum.
Hvað fyrri þátt þessa frumvarps varðar, þ.e. greinar 1. til 5. lýsir ASÍ sig sammála
þessum tillögum. Um er að ræða mál sem upp hafa komið hjá lífeyrissjóðunum
undanfarin misseri og starfsnefnd á vegum landssamtaka lífeyrissjóða lagði til við
ráðuneytið að gerðar yrðu breytingar á. Því má segja að sátt ríki um þessar
breytingar, sem allar horfa til betri vegar, og því mælir ASÍ með samþykkt þessa
hluta frumvarpsins.
Það sama verður ekki sagt um seinni hluta þessa frumvarps, þ.e. 6. greinina. Eftir
því sem ASÍ kemst næst hefur engin umræða átt sér stað hvorki innan raða
heildarsamtakanna né lífeyrissjóðanna um þennan þátt málsins og óljóst hvaðan
þessi tillaga er komin. Um er að ræða heimild til lífeyrissjóðanna til þess að lána
verðbréf sem svarar til allt að 25% af hreinni eign sjóðanna (sem gæti verið nærri
500 milljarða króna m.v. núverandi eignastöðu lífeyrissjóðanna), að uppfylltum
ákveðnum skilyrðum. Þessi skilyrði eru að til þurfi að koma ríkisábyrgð, ábyrgð
sveitarfélaga eða handveð í markaðsskráðum verðbréfum.
Alþýðusambandið gagnrýnir að svo umfangsmikil breyting sé lögð til án þess að
leitað sé eftir samráði við aðila vinnumarkaðarins og landssamband lífeyrissjóða. Við
efnislega skoðun á þessari tillögu koma upp ýmis álitamál sem nauðsynlegt er að
skoða ítarlega, bæði faglega vegna áhættudreifingar og væntrar ávöxtunar, og
félagslega m.t.t. þess til hvers fjármunir lífeyrissjóðanna eru nýttir. Afar mikilvægt
er að afla frekari upplýsinga um eðli slíkra fjárfestinga fyrir bæði stéttarfélögin sem
og fulltrúa þeirra í stjórnum lífeyrissjóðanna. Að öðrum kosti er hætta á að þessi
tillaga veki upp tortryggni og efasemdir. Eins vekur furðu hversu langt er gengið í
fyrstu lotu – að heimila að allt að 25% af hreinni eign sjóðanna verði lánuð. Því
leggur Alþýðusambandið til – og reyndar krefst þess – að þessum hluta
frumvarpsins verði frestað til næsta þings þannig að ráðrúm sé til þess að skoða
það nánar.