Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með síðari breytingum (fyrningarfrestur).

Reykjavík 27. október 2010

Tilvísun: 201010-0020

Efni: Frumvarp til laga um breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, 108. mál.

Í janúar 2009 lagði ASÍ til við ríkisstjórnina að 2.mgr. 165. gr. l. 21/1991 yrði breytt þannig að þrotamaður beri ekki ábyrgð á skuldum sem ekki fást greiddar við gjaldþrot hans. Jafnframt voru þessi sjónarmið og önnur er varða réttindi skuldara kynnt með sérstakri herferð í fjölmiðlum. Flest það sem ASÍ lagði þá til gekk eftir en ekki þetta.

Rök ASÍ eru þau, að breytingin sé brýn vegna mikillar skuldsetningar vegna kaupa á íbúðarhúsnæði á undanförnum árum. Líklegt er að stór hópur einstaklinga sem tók bæði gengistryggð og verðtryggð lán verði gjaldþrota á næstu mánuðum, misserum og árum og óásættanlegt að þeir sem lenda í þeim harmleik eigi sér ekki viðreisnar von. Það er jafnframt brýnt vegna þess óréttlætis sem í því felst, að einstaklingar sem stofnuðu hlutafélög utan um skuldsetningu sína, líkt og algengt var í fjármálaheiminum, skilja þær skuldir endanlega eftir við gjaldþrot þeirra félaga því gjaldþrota hlutafélög ljúka endanlega tilvist sinni við gjaldþrot, nokkuð sem einstaklingar gera ekki. Með þessum hætti hallar mjög á einstaklinga í greiðsluvandræðum.

ASÍ gerði þann fyrirvara, að til skuldanna mætti hvorki hafa verið stofnað á óheiðarlegan hátt né að niðurfellingin gæti talist óhæfileg þegar litið er til annarra skuldara eða hagsmuna almennings almennt.

Það frumvarp sem nú er lagt fram mætir þessum grundvallarsjónarmiðum. ASÍ telur þó að betur þurfi að vanda til þess með hvaða hætti og á hvaða forsendum fyrningu megi slíta gagnvart kröfum sem löggjafinn telur að ekki skuli njóta hins skamma fyrningarfrests.

Í fyrsta lagi er brýnt að sjónarmið varðandi kröfur sem orðið hafa til með saknæmum og ámælisverðum hætti verði meitluð með skýrum hætti inn í lagaákvæðið sjálft. Greinargerð með frumvarpinu eins og það er nú er fátækleg um þetta efni og veitir fjarri lagi nægilega leiðsögn um framkvæmd. T.d. verða sektir eða kröfur um skaðabætur vegna refsiverðs athæfis ekki til með saknæmum og ámælisverðum hætti eins og það er orðað í greinargerð, heldur þvert á móti verða þær til með lögmætum hætti en stafa af ólögmætum og saknæmum athöfnum. Erfitt er jafnframt að tengja það dæmi sem tekið er í greinargerð við þær heimildir sem greindar eru í lagaákvæðinu sjálfu. Þar er einungis fjallað um „sérstaka hagsmuni“.

Í öðru lagi er hvorki í ákvæðinu sjálfu og aðeins lauslega í greinargerð vikið sérstaklega að kröfum sem óhæfilegt gæti verið gagnvart öðrum skuldurum eða samfélaginu sjálfu að veita skamma fyrningu. Það getur t.d. átt við kröfur sem stofnað hefur verið til vegna óhóflegrar neyslu og fjárráða vegna óhæfilegra arðgreiðslna, óhóflegra kaupauka og annarra slíkra ósiðlegra athafna án þess þó að það geti hafa talist ámælisvert að leggja í skuldsetninguna sjálfa miðað við þau fjárráð sem viðkomandi hefur haft.

ASÍ leggur því til að lagatextinn geymi skýr ákvæði um að kröfur sem rót eigi að rekja til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi eins og t.d. sektir, skaðabætur vegna líkamstjóns og ólögmætra árása á líkama manns eða æru, veruleg vanskil vörsluskatta og kröfur hvers stytting fyrningartíma á getur talist óhæfileg þegar litið er til annarra skuldara eða hagsmuna almennings og samfélagsins almennt njóti ekki hins skamma fyrningarfrests. Skilyrði þessi verði síðan nánar útfærð í greinargerð.

Að lokum er bent á, að brotaminna og einfaldara er að fela héraðsdómara þegar við búskiptin að úrskurða um fyrningarfrest krafna.

Virðingarfyllst,

Magnús M. Norðdahl hrl.

Lögfræðingur ASÍ