Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 30/2004, um vátryggingasamninga

Reykjavík: 20.10.2014                                                                                
Tilvísun: 201410-0014

 Efni: Frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 30/2004, um vátryggingasamninga, 120. mál.

Alþýðusamband Íslands gerir ekki athugasemdir við frumvarp þetta og styður samþykkt þessa.

ASÍ vill jafnframt vekja athygli á því að í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði sem undirritaður voru þann 5. maí 2011, ákváðu ASÍ og SA með sérstakri bókun að óska eftir breytingu á lögum 30/2004 þannig að engum vafa yrði undirorpið að tilkynning vinnuveitanda um vátryggingaratburð jafngildi skyldum vátryggðs í skilningi laganna.

 Bókunin er svohljóðandi:

Bókun um tilkynningu vinnuslysa

ASÍ og SA munu sameiginlega óska eftir breytingu á lögum nr. 30/2004 um vátryggingasamninga þess efnis að tilkynning vinnuveitenda um vátryggingaratburð jafngildi skyldum vátryggðs í því efni skv. 51. gr. laganna hafi hann ekki tilkynnt um atburðinn.

Settur var á fót sérstakur vinnuhópur samtakanna. Í vinnu hans kom í ljós að samkvæmt túlkun úrskurðarnefndar í vátryggingamálum hefur 124. gr. laganna verið túlkuð þannig að tilkynning lögreglu um vátryggingaratburð sem borist hefur vátryggingarfélagi jafngildi kröfu í skilningi ákvæðisins.  Ákvæðið er þó ekki skýrt hvað þetta varðar. Þeirri breytingu sem lögð er til er  ætlað að endurspegla þá framkvæmd sem viðhöfð er auk þess sem komið er með henni til móts við óskir aðila vinnumarkaðarins í þessu efni. 

 Sú breyting sem aðilar urðu ásáttir um er eftirfarandi:

 Í 1.mgr. 124.gr. laganna, á eftir orðunum

 “ Sá sem rétt á til bóta samkvæmt slysatryggingu, sjúkratryggingu eða heilsutryggingu með eða án uppsagnarréttar glatar þeim rétti ef krafa er ekki gerð um bætur til félagsins ….

 bætist nýr málsliður, svohljóðandi:  „eða því borist tilkynning um vátryggingaratburð með öðrum hætti“

1.mgr. hljóði svo eftir breytingar:

Sá sem rétt á til bóta samkvæmt slysatryggingu, sjúkratryggingu eða heilsutryggingu með eða án uppsagnarréttar glatar þeim rétti ef krafa er ekki gerð um bætur til félagsins eða því borist tilkynning um vátryggingaratburð með öðrum hætti innan árs frá því að hann fékk vitneskju um þau atvik sem hún er reist á.

Það er einlæg von ASÍ að Efnahags- og viðskiptanefnd sjái sér fært að hrinda í framkvæmd ofangreindri bókun aðila vinnumarkaðarins.

  

Virðingarfyllst, 

Magnús M. Norðdahl hrl.,   

lögfræðingur ASÍ