Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga (ríkisborgarar nýrra aðildarríkja)

Alþýðusambandi Íslands hefur borist til umsagnar ofangreint frumvarp til laga um atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga (ríkisborgarar nýrra aðildarríkja), 771 mál.

Alþýðusamband Íslands hefur í þeim viðræðum sem það hefur á síðustu vikum átt við stjórnvöld og samtök atvinnurekenda vegna stöðu launafólks frá nýjum aðildarríkjum EES, lagt áherslu á að treysta þurfi reglur og framkvæmd á vinnumarkaði og tryggja kjör og réttindi þessara starfsmanna óháð því hvaða ráðningarfyrirkomulag þeir búa við. Þannig hefur verkalýðshreyfingin m.a. lagt áherslu á að böndum verði náð yfir starfsemi þeirra erlendu fyrirtækja sem hér stunda þjónustustarfsemi af ýmsum toga og treysta stöðu starfsmanna þeirra sérstaklega.

Alþýðusambandið hefur lagt áherslu á að mikilvægt sé að hafa yfirlit yfir það launafólk sem hingað kemur til starfa frá nýju aðildarríkjunum, hjá hverjum það starfar og við hvað. Jafnframt þurfi að vera hægt að fylgja því eftir að þessir starfsmenn njóti launa og annarra starfskjara í samræmi við það sem gildir hér á landi.

Með fyrirliggjandi frumvarpi til laga um atvinnu- og búseturétt launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga (ríkisborgarar nýrra aðildarríkja) er í mikilvægum atriðum komið til móts við þessi sjónarmið, hvað varðar það launafólk sem kemur til starfa hjá fyrirtækjum sem starfa hér á landi. Það er þó ljóst að miklu skiptir hvernig staðið verður að framkvæmd mála af hálfu stjórnvalda og að hún verði í nánu samstarfi og samráði við aðila vinnumarkaðarins. Kveðið er á um að fyrirtækin tilkynni til Vinnumálastofnunar um alla starfsmenn sem þau ráða frá nýju aðildarríkjunum og leggi jafnframt fram afrit af ráðningarsamningi. Vinnumálastofnun skal halda skrá yfir þessar tilkynningar og fylgjast með þróun mála í þessum efnum. Jafnframt er stofnuninni heimilt að beita fyrirtæki dagsektum ef þau uppfylla ekki tilkynningaskyldu sinni.

Alþýðusambandið telur það einnig mjög mikilvægt að Vinnumálastofnun er samkvæmt frumvarpinu skylt að afhenda hlutaðeigandi stéttarfélagi afrit af ráðningarsamningum ef grunur er um að fyrirtæki sé að brjóta á rétti starfsmanna. Það verður síðan stéttarfélaganna áfram sem hingað til að fylgja því eftir að hinir erlendu starfsmenn njóti kjara og annarra réttinda í samræmi við það sem gildir fyrir viðkomandi fyrirtæki/starfsgrein þar sem starfið er unnið.

 

 

Að hálfu Alþýðusambandsins hefur verið lögð rík áhersla á að koma þurfi böndum yfir starfsemi erlendra þjónustu- og verktakafyrirtækja sem eru með starfsemi sína hér á landi um lengri eða skemmri tíma og nota til þess útlenda starfsmenn, ekki síst frá nýju aðildarríkjunum. Kröfur ASÍ hafa m.a. beinst að því að útlendum þjónustu- og verktakafyrirtækjum verði gert skylt að veita upplýsingar um starfsemi sína og leggja fram staðfestingar um það að þau virði kjarasamninga og lög hér á landi sé þess óskað.

Alþýðusambandið hefur í þessu sambandi lagt áherslu á að skilgreind verði ábyrgð þeirra fyrirtækja hér á landi sem nota þjónustu framangreindra fyrirtækja, m.a. hvað varðar kjör og réttindi starfsmannanna. Þá hefur Alþýðusambandið lagt áherslu á mikilvægi þess að samræma og samþætta aðkomu, upplýsingamiðlun, eftirlit og aðgerðir stjórnvaldsstofnana og aðila vinnumarkaðarins, sem miða að því að treysta stöðu erlends launafólks sem hingað kemur til starfa á vegum þjónustuveitenda og verktakafyrirtækja og koma í veg fyrir brot þeirra á starfsmönnum sínum og gagnvart skyldum sínum við íslenskt samfélag.

Einnig hefur Alþýðusambandið lagt áherslu á skyldur stjórnvalda og atvinnurekenda sem nýta sér erlent launafólk, ekki síður en verkalýðshreyfingarinnar til að upplýsa það um réttindi sín og skyldur í íslensku samfélagi. Síðast en ekki síst hefur ASÍ bent á mikilvægi þess að sporna við gerviverktakastarfsemi og á samfélagslega ábyrgð stofnana og fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga þegar kemur að útboðum og gerð verksamninga vegna verklegra framkvæmda og vörukaupa af ýmsu tagi.

Framangreindum sjónarmiðum hefur verði haldið á lofti í viðræðum við stjórnvöld í tengslum við þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á stöðu launafólks frá nýju aðildarríkjunum 1. maí nk. Þau eru einnig sá grundvöllur sem fulltrúar ASÍ munu byggja á í starfi sínu á vettvangi nefndar félagsmálaráðherra um stöðu og réttindi erlends launafólks á vinnumarkaði sem ráðherra hefur boðað að setja á laggirnar ekki síst að kröfu Alþýðusambandsins og sem ljúka á störfum fyrir 1. nóvember nk.

Í ljósi framanritaðs er það afstaða Alþýðusambands Íslands að mikilvægt sé að framangreint frumvarp félagsmálaráðherra verði að lögum fyrir 1. maí nk. en áréttar jafnframt þá afstöðu sína að þetta frumvarp er aðeins fyrri hluti málsins. Eftir stendur mikilvægi þess að treysta kjör og réttindi starfsmanna erlendra þjónustu- og verktakafyrirtækja sem hér starfa og áskilur sér allan rétt til að fylgja eftir þeim sjónarmiðum sem hér hafa verið sett fram í þeirri vinnu sem framundan er á vettvangi nefndar félagsmálaráðherra.

 

Virðingarfyllst,

Gylfi Arnbjörnsson,

framkvæmdastjóri ASÍ

Sjá einnig meðfylgjandi greinargerð