Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um almennar íbúðir (heildarlög)

Reykjavík 6.1 2016
Tilvísun: 201512-0021

Efni: Frumvarp til laga um almennar íbúðir (heildarlög), mál nr. 435
Frumvarpið er afrakstur víðtæks samráðs. Það byggir í grundvallaratriðum á þeirri stefnu sem Alþýðusambandið markaði sér haustið 2012 og sem kynnt var og útfærð í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga. Frumvarpið er enn fremur liður í aðgerðum ríkisstjórnar Íslands til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, sbr. yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 28. maí 2015. Framgangur þess er jafnframt mikilvægur þáttur þeirrar heildarlausnar sem aðilar vinnumarkaðar leita nú við endurskoðun kjarasamninga og sem ljúka þarf nú á fyrstu vikum ársins. ASÍ leggur mikla áherslu á að með þessu frumvarpi er lagður mikilvægur grunnur að því að hér myndist með tíð og tíma mikill félagsauður í formi íbúða fyrir tekjulága einstaklinga og tekjustreymi af húsaleigu þegar stofnlán hafa verið endurgreidd sem duga munu til þess að tryggja fjármögnun nýrra íbúða til að mæta þörfum nýrra kynslóða. ASÍ styður því eindregið framgang málsins og væntir þess að Alþingismenn menn sameinist um afgreiðslu þess.

Þrátt fyrir þennan eindregna stuðning við framgang málsins vill ASÍ vekja athygli á því, að texti frumvarpsins geymir ekki með skýrum hætti það markmið sem skýrt kemur fram í greinargerð og fylgiskjölum, að framlög ríkis og sveitarfélaga skuli að jafnaði leiða til þess að leiga einstaklings með lágar tekjur nemi ekki hærra hlutfalli en 20–25% af tekjum. Ljóst er að við þenslu á fasteignamarkaði og hækkun fasteignaverðs getur 18% framlag ríkis og 12% framlag sveitarfélaga ekki dugað til þess að halda leigu innan framangreinds hlutfalls af tekjum. Á sama hátt geta þessi framlög verið það há þegar samdráttur verður á fasteignamarkaði og fasteignaverð lækkar, að leiga verður talsvert undir þessum mörkum. ASÍ telur því að æskilegt að lögin geri ráð fyrir að hlutföll þessi geti verið breytileg og að þau á hverjum tíma verði stillt af m.v. framangreind hlutföll af tekjum. ASÍ vekur athygli á því að slíkt getur einnig leitt til þess að á samdráttartímum verði byggingamagn aukið en úr dregið á þenslutímum en hvorutveggja styður efnahagslegan stöðugleika og hvetur til aukinna framkvæmda og atvinnusköpunar á samdráttartímum en dregur úr umsvifum þegar þensla verður of mikil.

Virðingarfyllst,
Gylfi Arnbjörnsson,
forseti ASÍ