Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um almannatryggingar (bótarétt, stjórnsýslu, EES-reglur o.fl.)

Reykjavík: 17.12 2014
Tilvísun: 201412-0005

Efni: Frumvarp til laga um almannatryggingar (bótarétt, stjórnsýslu, EES-reglur o.fl.), 322. mál

Samkvæmt markmiðum sínum er frumvarpinu ætlað að bæta og skýra stjórnsýslu Tryggingastofnunar og réttarstöðu almennings gagnvart stofnuninni. ASÍ gerir ekki athugasemdir við það heildarmarkmið og styður þá viðleitni m.a. hvað varðar réttarstöðu þeirra sem frá landinu fara tímabundið til náms og starfa erlendis.

ASÍ telur að sú víðtæka heimild sem opnuð er í c.(10. gr.) lið 1.greinar frumvarpsins sé of víðtæk. Samkvæmt henni getur ráðherra, að fenginni umsögn forstjóra, ákveðið staðsetningu stofnunarinnar. Tryggingastofnun er ein af mikilvægustu stofnunum ríkisins þegar kemur að samskiptum við borgarana. Á það sérstaklega við um þá hópa sem undir högg eiga að sækja vegna áfalla og aldurs. Samkvæmt heimasíðu stofnunarinnar er hún helsta „miðstöð velferðarmála á Íslandi“ þar sem starfa „rúmlega 100 manns við að leysa flókin verkefni og veita stórum hópi landsmanna þjónustu.“ Það er álit ASÍ að vel þurfi að vanda til ákvarðanatöku um aðsetur Tryggingastofnunar hverju sinni og að óásættanlegt sé að það vald sé falið einum ráðherra án samráðs og án samþykkis Alþingis.

ASÍ vill vekja athygli á því, að með frumvarpinu er gert ráð fyrir að fella niður með öllu bætur til þeirra sem hefja afplánum refsidóma. Í greinargerð með 16.gr. segir: „Er í þessu sambandi lögð áhersla á að fangar sem eru lífeyrisþegar séu jafnsettir öðrum föngum sem missa tekjur sínar þegar afplánun hefst.“ Ákvæðið er fortakslaust og tekur ekki tillit til þess að almennt gefst föngum tækifæri til launaðrar vinnu meðan á afplánun stendur, vinnu sem öryrki í afplánun á ekki tækifæri til þess að sinna. Slíkur fangi er ekki jafnsettur öðrum föngum og eðlilegt að lögin geri ráð fyrir að taka megi tillit til slíkra tilvika.

Varðandi ákvæði 24.gr. leggur ASÍ áherslu á mikilvægi þess að finna því vandamáli sem þar er glímt við, lausn til frambúðar.


Virðingarfyllst,
Magnús M. Norðdahl hrl.,
lögfræðingur ASÍ