Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um afnám laga um orlof húsmæðra

Reykjavík, 4. júní 2010

Tilvísun: 201005-0036

 

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um afnám laga um orlof húsmæðra, nr. 53/1972, með síðari breytingum, 77. mál.

Alþýðusamband Íslands hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um afnám laga um orlof húsmæðra nr. 53/1972 með síðari breytingum.

Alþýðusamband Íslands bendir á að í athugasemdum með frumvarpi til núgildandi laga um orlof húsmæðra segir m.a.:

„Þar sem húsmæður fá engin laun fyrir störf sín, m.a. við að ala upp næstu kynslóð, væri það verðug viðurkenning af hálfu þjóðfélagsins, að í fjárlögum væru ætlaðar a.m.k. kr. 100,00 á ári fyrir hverja húsmóður í landinu, í því skyni að gefa nokkrum kost á orlofi og hvíld frá störfum.“

 

Í 6. gr. núgildandi orlofslaga segir:

Sérhver kona, sem veitir eða hefur veitt heimili forstöðu, án launagreiðslu fyrir það starf, á rétt á að sækja um orlof. Þegar valið er úr umsóknum, skulu orlofsnefndir hafa til hliðsjónar barnafjölda, aldur barna og aðrar félagslegar aðstæður kvennanna. Æskilegt er, að orlofsdvöl sé ekki skemmri en 7-10 dagar. Verði orlofsdvöl ekki við komið, er heimilt að nota orlofsfé, sem veitt er samkvæmt lögum þess, til ferðalags fyrir húsmæður.

Markmiðið með orlofslögum á sínum tíma var þannig að veita þeim konum sem veittu heimili forstöðu færi á að taka orlof líkt og launafólk hafði samið um við atvinnurekendur.

Tilgangur laganna var að lögfesta viðurkenningu á þjóðfélagslegu mikilvægi ólaunaðra starfa og veita húsmæðrum rétt til orlofs líkt og launafólk. Um félagsleg réttindi er því að ræða fyrir þennan hóp sem hann gat ekki öðlast á grundvelli kjarasamninga líkt og launafólk.

Í frumvarpi því sem nú er óskað umsagnar um kemur fram að meginástæða þess að frumvarpshöfundar telja að afnema eigi gildandi lög sé sú mismunun sem lögin feli í sér á grundvelli kynferðis. Það er skoðun Alþýðusambands Íslands að fremur eigi að útvíkka gildissvið laganna með því að láta þau taka til orlofs húsfeðra auk húsmæðra en að svipta þann hóp sem lögin taka til þeim félagslegu réttindum sem lögin veita.

Bent er á í greinargerð með frumvarpinu að sveitarfélög leiti nú allra leiða til að hagræða og nýta skattpeninga þegnanna með sem bestum hætti. Þá kemur fram í greinargerð með frumvarpi því sem hér er til umfjöllunar að orlof húsmæðra standi jafnt þeim konum til boða sem starfa heima við eða á almennum vinnumarkaði. Því megi ætla að stór hluti þeirra sem þegið hafi húsmæðraorlof eigi lögbundinn rétt til orlofs.

Í því ljósi telur Alþýðusambandið að frekar en að afnema lögin eigi fremur að afmarka nánar þann hóp sem eigi rétt á orlofi á grundvelli laganna þannig að tryggt sé að þeir einstaklingar sem eru heimavinnandi eigi rétt á grundvelli laganna, þ.e. þeir einstaklingar sem eiga ekki annan lögbundinn eða kjarasamningsbundinn rétt til orlofs.

Alþýðusambandið telur almennt séð mikilvægt áður en Alþingi tekur ákvörðun um að afnema réttindi tiltekinna hópa í þjóðfélaginu að kannað sé með ítarlegum hætti hvaða áhrif slík aðgerð hefur fyrir þann hóp og þá er nauðsynlegt að fyrir liggi hversu fjölmennur sá hópur er sem sú ákvörðun hefur áhrif á.

Alþýðusamband Íslands telur að frekari upplýsingar þurfi að liggja fyrir um þann hóp sem nýtt hefur sér þau félagslegu réttindi sem lögin veita áður en hægt er taka frumvarpið til frekari efnislegrar umræðu.

Á grundvelli alls framangreinds getur Alþýðusambandið því ekki mælt með samþykkt frumvarps þessa.

 

Virðingarfyllst,

Dalla Ólafsdóttir,

Lögfræðingur hjá ASÍ